Drottningin í Dalnum

Útgáfuár: 2024

Þetta er saga Guðrúnar Margrétar Þorsteinsdóttur, tveggja eiginmanna og sona hennar í Vatnsdal, Þorsteins Konráðssonar á Eyjólfsstöðum og Eggerts K. Konráðssonar á Haukagili. Saga Guðrúnar Margrétar er um margt merkileg. Foreldrar hennar urðu að láta hana frá sér vegna fátæktar og ómegðar þegar hún var aðeins þriggja ára. Hún eignaðist þrjú börn og varð ekkja í annað sinn 42 ára. Í kjölfarið tókst hún á við það verkefni að kaupa jörðina Haukagil og þar bjó hún með reisn í 26 ár. Hún var Drottningin í Dalnum.

Samhliða frásögnum af Guðrúnu Margréti er hér að finna lýsingu á sveitasamfélaginu í 140 ár, frá 1800 til 1940, eða þangað til það var að líða undir lok og samfélag þéttbýlis að taka við. Sagt er í meginþáttum frá gamla landbúnaðarsamfélaginu; híbýlum, j-örðum, jarðeigendum, leiguliðum, vinnufólki og ómögum, ásamt lýsingu á helstu efnahagslegu þáttum þjóðfélagsins á þessu tímabili. Í lok bókarinnar er fjallað um samferðarfólk Guðrúnar Margrétar og sona hennar í Vatnsdal árin 1890-1940.

Hér er um að ræða einstakt heimildarrit sem bregður ljósi á hag- og samfélagssögu Íslendinga í tæplega eina og hálfa öld. Fjöldi mynda og korta prýða bókina.

Leiðbeinandi verð: 8.790-.

Efnisflokkun: Ættfræði, Ævisögur og endurminningar, Bækur, Húnavatnssýslur, Íslenskur fróðleikur, Sagnfræði

Knattspyrnubærinn – 100 ára knattspyrnusaga Akraness

Útgáfuár: 2022

Knattspyrnufélagið Kári var stofnað af nokkrum ungum drengjum árið 1922. Stofnunin markar upphaf knattspyrnusögu Akraness. Knattspyrnuæði greip um sig meðal bæjarbúa og ekki sér enn fyrir endann á því. Skagamenn unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1951 og var það í fyrsta sinn sem Íslandsbikarinn yfirgaf höfðuborgina. Titlarnir komu á færibandi næstu áratugina og fljótlega varð Akranes þekkt sem knattspyrnubærinn. Þremur áratugum síðar hófu konur á Akranesi að keppa í knattspyrnu. Fyrsta Íslandsmót kvenna fór fram innanhúss árið 1971 og urðu Skagamenn fyrstu Íslandsmeistarar kvenna.

Hér er að finna sögur af forgöngumönnum knattspyrnunnar á Akranesi, baráttu Kára og Knattspyrnufélags Akraness, úttroðnum hrútspungum sem voru notaðir sem boltar, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli, bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem er samofin fótboltanum.

Leiðbeinandi verð: 8.980-.

Efnisflokkun: Akranes, Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Íþróttir, Sagnfræði

Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934-1966

Útgáfuár: 2022

Stofnun Ungmennafélagsins Sindra var mikil lyftistöng fyrir félagslíf ungs fólks á Höfn í Hornafirði. Saga félagsins ber vott um drifkraft og áræðni, það efndi til skemmtiferða, hélt sund- og íþróttanámskeið og starfrækti unglingaskóla í tvo vetur. Einnig reistu félagsmenn fyrsta samkomuhúsið á Höfn.

Leiðbeinandi verð: 6.980-.

Efnisflokkun: Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Hornafjörður, Íslenskur fróðleikur, Íþróttir, Sagnfræði

Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin

Útgáfuár: 2022

Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson – Hrafna-Flóka – upp að Íslandsströndum. Ýmislegt fréttist af þessum blakka spekingi eftir það, löngum tengdist hann myrkravöldunum, var til dæmis sagður iðulega á flugi við inngang Vítis, sem átti að vera í þeirri eldspúandi Heklu, og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. En hann átti sér líka marga vini á fyrri tíð, sem gaukuðu að honum matarbita í vetrarhörkum og elskuðu hann og dáðu. Á því hefur engin breyting orðið.

Krummi er sagður vita lengra nefi sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja. Hann er eftirherma mikil og þjóðtrúin segir hann aukinheldur geta orðið 900 ára. Það er ekki lítið.

Í þessari bók er hrafninn skoðaður frá mörgum hliðum og víða leitað fanga og niðurstaðan er sú, að hann er engum líkur.

Fjöldi glæstra mynda eru í bókinni.

Leiðbeinandi verð: 12.480-.

Efnisflokkun: Bækur, Fuglar, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Ljóð og listir, Náttúrufræði, Sagnfræði

Líkið er fundið – sagnasamtíningur af Jökuldal

Útgáfuár: 2022

Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sér „draug“. Kolbeinn Arason flýgur með lík. Gunnar á Fossvöllum fullyrðir að Akureyrardeildin í Helvíti sé full. Þuríður Hallgrímsdóttir á Brú fær bréf frá hatursmanni sínum. Jón í Möðrudal auglýsir eftir ráðskonu. Séra Sigurjón Jónsson býr til nýtt Faðirvor. Reiðhestur úr Hrafnkelsdal stendur á haus inni við Kárahnjúka. Baldur Pálsson frá Aðalbóli segir frá eðlisfræðitilraunum og Haukur á Hauksstöðum fer sér til hressingar á Heilsuhælið í Hveragerði en fær þá óvænt skeyti frá Hákoni Aðalsteinssyni.

Í þessari bók er ógrynni skemmtilegra sagna og vísna, enda eru Jökuldælingar þekktir fyrir létta lund langt aftur í ættir og leyfa nú öðrum að njóta þess með sér.

Leiðbeinandi verð: 6.580-.

Efnisflokkun: Austurland, Bækur, Gamansögur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Ljóð og listir

Stafróf fuglanna

Útgáfuár: 2022

Stafróf fuglanna er ætlað börnum sem eru farin að sýna stöfum og orðum áhuga. Jafnframt er bókinni ætlað að kynna börnum algenga fugla sem halda sig í náttúru Íslands, ýmist allt árið eða að sumarlagi. Glæsilegar fuglaljósmyndir prýða bókina og gera hana að sannkölluðu augnakonfekti.

Leiðbeinandi verð: 3.890-.

Efnisflokkun: Barnabækur, Bækur, Fuglar, Íslenskur fróðleikur

Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar – FUGLADAGBÓKIN 2022

Útgáfuár: 2021

fugladagbok_kapa.inddÞetta er tvímælalaust fallegasta dagbókin sem komið hefur út á Íslandi og þá með fullri virðingu fyrir öðrum, enda er hér um sannkallaða LISTAVERKA-DAGBÓK að ræða – prýdd fjölda glæsilegra ljósmynda af fuglum og margþættum fróðleik um 52 af þeim tegundum af rúmlega 400, sem talið er að hafi sést á Íslandi frá upphafi skráningar. Í bókinni er að finna eyðublað fyrir hverja viku ársins, þar sem m.a. er hægt að skrá niður hvaða fuglategundir sjáist þennan eða hinn daginn, hvernig viðrar og svo framvegis. Auðvitað má svo einnig nota bókina eins og hefðbundna dagbók þar sem fólk skráir eitt og annað hjá sér.

Leiðbeinandi verð: 7.380-.

Efnisflokkun: Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Náttúrufræði

Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin

Útgáfuár: 2020

Íslensku fuglarnirÍ þessari bók, sem er afrakstur 25 ára heimildasöfnunar, eru teknir til skoðunar allir íslenskir, reglubundnir varpfuglar, í hérlendri og erlendri þjóðtrú. Auk þess eru birt ljóð og annað forvitnilegt efni sem þeim tengist, að ógleymdum ríflega 1000 alþýðuheitum. Jafnframt er hérað finna vel á þriðja hundrað mynda, sem og útbreiðslukort hverrar tegundar fyrir sig.

• Íslensk þjóðtrú hefur ýmislegt af keldusvíninu að segja. Vegna undarlegra hátta sinna var það talið mikil furðuskepna, jafnvel yfirnáttúruleg, hálfur ormur og í beinu sambandi við þann í neðra. Þess vegna sóttust galdramenn líka mjög eftir að komast í tæri við það og nota við kukl sitt.

• Á Horni í Sléttuhreppi boðaði það rigningu, ef lómurinn stóð á öðrum fæti og skrækti.

• Þegar haftyrðillinn var að finnast rekinn á land í stórum hópum áður fyrr, ímynduðu menn
sér að þetta væri undrafyglið halkíon, en samkvæmt grískum sögnum átti það að vera með
hreiður sitt úti á rúmsjó.

• Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir forn ráð við gulu. Eitt var það að hræra arnarheila út í
þremur mörkum af víni og drekka svo. Annað, að drekka vatn af arnarkló og „pissa strax í
eld“.

• Í Heklu átti að vera bústaður hrafna með glóandi klær og nef úr járni.

• Vegna smæðar, litar og atferlis, eða með öðrum orðum vegna þess hversu jarðbundinn hann
er og gjarn á að skjótast í felur í holum og gjótum eða þéttu kjarri, í stað þess að bjarga sér á
flugi, var músarrindillinn löngum talinn skyldari mús en fugli.

Leiðbeinandi verð: 12.980-.

Efnisflokkun: Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Náttúrufræði, Sagnfræði

Vestmannaeyjar – af fólki, fuglum og ýmsu fleiru

Útgáfuár: 2020

kapa-prent.inddSagnameistarinn Sigurgeir Jónsson fer hér á kostum eins og oft áður í bókum sínum. Nú fjallar hann um æskuslóðir sínar í byggðinni fyrir ofan hraun í Vestmannaeyjum, búskaparhætti og fólkið sem þar bjó; rifjar upp kynni sín af sérstæðum persónum eins og séra Halldóri Kolbeins, Nýju í Suðurgarði og Munda í Draumbæ. Þau Sigurgeir og Katrín, kona hans, reistu sér reyndar hús í þessari byggð fyrir tveimur áratugum, og hafa frá þeim tíma átt í miklum samskiptum við góða og fiðraða nágranna, einkum tjald og stelk, sem sumir hverjir hafa þó reynt nokkuð á þolinmæði þeirra.

Þá fjallar Sigurgeir um fjóra eftirminnilega félaga sína, þá Bjarnhéðin Elíasson, Sævar í Gröf, Ása í Bæ og Guðmund kantor og segir af þeim sögur. Ýmis sérkenni Vestmannaeyinga á fyrri tíð eru líka tíunduð hér, til dæmis vatnsbúskapurinn í Eyjum áður en vatnsleiðsla var lögð þangað ofan af landi, auk þess sem rifjaðar eru upp minningar frá fyrstu vikum eldgossins 1973.

Sigurgeir segir ennfremur frá nokkrum minnisstæðum atvikum í lífi sínu, svo sem brúðkaupsferðalagi þeirra hjóna og stærðfræðikennslu sem hann á skólaárum sínum í Kennaraskólanum fékk hjá vistmanni á Kleppi. Svo plataði hann mann og annan í gervi ljóðskáldsins Jóns Kára og segir vitaskuld frá því.

Leiftrandi frásagnargáfa Sigurgeirs, hlý kímni hans sem hvarvetna glampar á og meistaralegar lýsingar á fjölda fólks sem við sögu kemur, ásamt næmri innsýn í sálir og hátterni manna og dýra gera lestur þessarar bókar eftirminnilegan og mannbætandi og skiptir þar engu máli hvort lesandinn á rætur að rekja til Vestmannaeyja eða ekki!

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Íslenskur fróðleikur, Sagnfræði
Eldra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is