
Hormónar og fleira fólk – Missannar sögur frá síðustu öld
Útgáfuár: 2023
Hallgrímur „redbody“ Hallgrímsson, stúdent við Kaupmannahafnarháskóla í byrjun síðustu aldar, kemst að alvarlegum afleiðingum áfengisdrykkju þegar kviknar í næturgagninu.
Ólafur Þ. Halldórsson er ráðinn dómtúlkur í eigin máli þegar hann er fundinn sekur um innflutning á tveimur pottflöskum af viskíi á bannárunum.
Líki þarf að koma á Hólmavíkurrútuna og Osvald Eyvindsson útfararstjóri fær aðstoð frá bókarhöfundi, Halldóri Ólafssyni, við flutninginn á dimmum vetrarmorgni.
Malarnám í Grábrók er stöðvað með vopnavaldi og fortölum jarðfræðinganna Tómasar Tryggvasonar og Sigurðar Þórarinssonar.
Beitilönd „astronauta“ á miðhálendinu eru könnuð og Guðmundur E. Sigvaldason jarðfræðingur kemur „hormóni“ frá Ameríku.
Þetta er bara örlítið brot af því sem lesa má um í þessari bráðskemmtilegu bók Halldórs Ólafssonar sem starfaði lengi sem tæknimaður á Norrænu eldfjallastöðinni og þar áður í allmörg ár hjá Olíuverslun Íslands. Störf hans fólu í sér ferðalög vítt og breitt um landið og leiddu til kynna af fjölmörgu fólki sem sumt kemur hér við sögu.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Skagfirskar skemmtisögur 6 – Fjörið heldur áfram
Útgáfuár: 2022
Skagfirskar skemmtisögur 6 er síðasta bókin í þessum vinsæla bókaflokki sem Sauðkrækingurinn Björn Jóhann Björnsson hleypti af stokkunum á sínum tíma og heldur enn utan um. Bókin hefst á sögum af Bjarna Har kaupmanni, sem lést í byrjun árs, og er viðeigandi að hann gefi tóninn, enda var vandfundinn annar eins húmoristi. Þá eru hér sögur af Hvata á Stöðinni, Ýtu-Kela, séra Baldri í Vatnsfirði og mörgum öðrum snillingum, sem og glettnar gamanvísur, meðal annars úr orlofsferðum skagfirskra húsmæðra.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Ég verð að segja ykkur – Ingvar Viktorsson lætur gamminn geisa
Útgáfuár: 2022
Hér lætur Ingvar Viktorsson, fyrrum kennari, bæjarstjóri og íþróttafrömuður, gamminn geisa og sögurnar eru óteljandi. Guðjón Ingi Eiríksson ritstýrði bókinni, en í ritnefnd voru auk hans Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Geirsson og Orri Þórðarson. Og það má alveg láta það fylgja með að ritstjórnin þurfti að beita Ingvar hörðu til að fá hann til að fallast á að segja okkur frá viðburðaríkri ævi sinni, en það tókst þó og ættu margir að hafa fróðleik og skemmtun af frásögn hans. Rétt er að láta eina sögu úr bókinni fylgja hér með:
Einu sinni ætlaði ég að fá vin minn og félaga, Þóri heitinn Jónsson, með mér í golfið og við fórum út á Hvaleyri. Ég stillti upp bolta og bað Þóri að fylgjast með. Ég valdi kylfu og sló, en hitti ekki boltann, reyndi aftur og það sama gerðist, ég hitti ekki boltann. Þegar mér hafði mistekist ætlunarverk mitt í þriðja skiptið missti Þórir þolinmæðina og sagði: „Þetta er helvíti sniðugt, en til hvers er boltinn?“
Leiðbeinandi verð: 7.680-.
Líkið er fundið – sagnasamtíningur af Jökuldal
Útgáfuár: 2022
Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sér „draug“. Kolbeinn Arason flýgur með lík. Gunnar á Fossvöllum fullyrðir að Akureyrardeildin í Helvíti sé full. Þuríður Hallgrímsdóttir á Brú fær bréf frá hatursmanni sínum. Jón í Möðrudal auglýsir eftir ráðskonu. Séra Sigurjón Jónsson býr til nýtt Faðirvor. Reiðhestur úr Hrafnkelsdal stendur á haus inni við Kárahnjúka. Baldur Pálsson frá Aðalbóli segir frá eðlisfræðitilraunum og Haukur á Hauksstöðum fer sér til hressingar á Heilsuhælið í Hveragerði en fær þá óvænt skeyti frá Hákoni Aðalsteinssyni.
Í þessari bók er ógrynni skemmtilegra sagna og vísna, enda eru Jökuldælingar þekktir fyrir létta lund langt aftur í ættir og leyfa nú öðrum að njóta þess með sér.
Leiðbeinandi verð: 6.580-.
Fimmaurabrandarar 4
Útgáfuár: 2022
Hvaða fiska er erfiðast að koma auga á? Þokulúður. – Kunningi minn sér um að efnagreina þvagprufur á Landsspítalanum. Hann er svokallaður hlandkönnuður. – Sokkar eru alltaf á tilboðinu 2 fyrir 1. – Ég keypti mér snjódekk um daginn, en um leið og það kom hláka bráðnuðu þau bara.
Þetta er bara brot af snilldinni sem leynist í þessari gríðarskemmtilegu bók.
Leiðbeinandi verð: 2.980.-
Brandarar, gátur og þrautir 2
Útgáfuár: 2022
Þetta er bók fyrir fólk á öllum aldri og hentar bæði einstaklingum og hópum hvar og hvenær sem er. Brandararnir eru sprenghlægilegir, gáturnar leyna á sér og þrautirnar eru bæði þrælþungar og laufléttar. Því ættu allir að geta haft gagn og gaman af þessari smellnu bók.
Leiðbeinandi verð: 1.790-.
Fimmaurabrandarar 3
Útgáfuár: 2021
Þegar Aðalbjörg svarar ekki í símann hringi ég í Varabjörgu. * Ein af flugvélum Icelandair er svo gömul að hún er með útikamar. * Ef ég villist á leiðinni að Heilsuhælinu í Hveragerði er ég þá hælisleitandi. * Ég fékk mér bjór í gærkvöldi. Í morgun var hann búinn að naga alla girðinguna. * Hvort er útrunnið eitur hættulegra eða hættuminna? * Í gær ætlaði ég að segja góðan brandara um IKEA en ég er enn að setja hann saman.
Í þessari bráðskemmtilegu bók er hvert gullkornið af öðru, en hún byggir á bröndurum af Facebook-síðu Fimmaurabrandara-fjelagsins sem nýtur mikilla vinsælda og ekki að ástæðulausu.
Leiðbeinandi verð: 2.680-.
Brandarar, gátur og þrautir
Útgáfuár: 2021
Brandarar, gátur og þrautir er bók fyrir fólk á öllum aldri og hentar bæði einstaklingum og hópum hvar og hvenær sem er. Brandararnir eru sprenghlægilegir, gáturnar leyna á sér og þrautirnar eru bæði þrælþungar og laufléttar. Tvímælalaust „ferðalagabókin“ 2021!
Leiðbeinandi verð: 1.690-.
Fimmaurabrandarar 2
Útgáfuár: 2020
Getur feitt fólk fylgst grannt með fréttum?
Laddi er – án gríns – ekkert fyndinn.
Ég keypti klósettbursta fyrir viku síðan … en er nú búinn að skipta aftur yfir í klósettpappír.
Ég var á leiðinni í búðina, svo konan bað mig um að setja tómatsósu á innkaupalistann … og nú get ég ekki lesið neitt á honum,.
Hvað kallast lúsmý sem treðst framfyrir? Skjúsmý!
Í hvers konar fötum gengur starfsfólk Sorpu? Í ruslafötum.
Þetta og margt fleira í þessari bráðskemmtilegu bók sem gleður hvert einasta mannshjarta.
Leiðbeinandi verð: 2.380-.