Drottningin í Dalnum
Útgáfuár: 2024
Samhliða frásögnum af Guðrúnu Margréti er hér að finna lýsingu á sveitasamfélaginu í 140 ár, frá 1800 til 1940, eða þangað til það var að líða undir lok og samfélag þéttbýlis að taka við. Sagt er í meginþáttum frá gamla landbúnaðarsamfélaginu; híbýlum, j-örðum, jarðeigendum, leiguliðum, vinnufólki og ómögum, ásamt lýsingu á helstu efnahagslegu þáttum þjóðfélagsins á þessu tímabili. Í lok bókarinnar er fjallað um samferðarfólk Guðrúnar Margrétar og sona hennar í Vatnsdal árin 1890-1940.
Hér er um að ræða einstakt heimildarrit sem bregður ljósi á hag- og samfélagssögu Íslendinga í tæplega eina og hálfa öld. Fjöldi mynda og korta prýða bókina.
Leiðbeinandi verð: 8.790-.
Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands – fyrstu 40 árin
Útgáfuár: 2024
Í þessari bók er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.
Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.
Leiðbeinandi verð: 7.480-.
Völvur á Íslandi
Útgáfuár: 2023
Frá elstu tímum eru til sagnir um konur, sem vissu lengra nefi sínu. Þekktastar eru tvímælalaust völvurnar. Þær nutu mikillar virðingar, stundum reyndar óttablandinnar, enda voru þær á mörkum tveggja heima og höfðu vitneskju um það, sem flestum ððrum var hulið. Sumum þeirra fylgja magnaðar sögur og þær finnur þú í þessari einstöku bók.
Þetta er sannkallað stórvirki og var lengi í smíðum.
Leiðbeinandi verð: 9.480-.
Björn Pálsson – Flugmaður og þjóðsagnapersóna
Útgáfuár: 2023
Björn Pálsson var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi. Hann vann marga hetjudáðina og var kallaður „bjargvættur landsbyggðarinnar“ en hann var oft eina lífsvon sjúkra og slasaðra úti á landi. Hann fór í loftið þótt veðurútlitið væri allt annað en gott til flugs, svo ekki sé nú minnst á lendingarstaðina sem sumir voru varla meira en „lófastærð“. Þetta er vægast sagt einstök lesning um einstakan mann og ekki seinna vænna að halda minningu hans á lofti.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.
VESTURBÆRINN – Húsin, fólkið, sögurnar
Útgáfuár: 2023
Vesturbærinn á sér um margt sérstaka sögu. Hér er lítillega tæpt á nokkrum þáttum hennar og sjaldnast er fólkið í hverfinu langt undan. Margir eru kallaðir til; innfæddir, brottfluttir og aðfluttir Vesturbæingar og eflaust vakna einhvers staðar sterkar endurminningar. Vesturbærinn er fróðlega bók og fyndin og sannarlega þess virði að lesa.
Látum eina sögu úr bókinni fylgja hér með og þar er enginn annar en Bjarni Felixson í aðalhlutverkinu:Bjarni Felixson og Álfheiður Gísladóttir höfðu ákveðið að halda brúðkaup sitt síðasta sunnudaginn í maí 1962. Þá breyttist niðurröðun leikja í Íslandsmótinu á þann veg að KR-ingum var gert að mæta til leiks á Ísafirði þá helgi. Þess skal getið að tveir bræður Bjarna, Gunnar og Hörður, léku þá einnig með KR. Yfir til þín, Bjarni: „Mér varð ekki um sel að þurfa að missa af leik fyrir vikið og vildi helst láta fresta giftingunni. Þótti mér leikmissirinn varla nógu haldgóð rök fyrir slíkum aðgerðum og voru nú góð ráð dýr. Eftir mikil heilabrot datt mér þó snjallræði nokkurt í hug: Það gerði ekkert til þó að ég yrði af leiknum, en hitt þætti mér súrt í broti, að bræður mínir gætu ekki verið viðstaddir brúðkaupið! Þeim rökum varð ekki á móti mælt og um næstu helgi komst ég loks í höfn hjónabandsins.“
Leiðbeinandi verð: 7.280-.
Knattspyrnubærinn – 100 ára knattspyrnusaga Akraness
Útgáfuár: 2022
Knattspyrnufélagið Kári var stofnað af nokkrum ungum drengjum árið 1922. Stofnunin markar upphaf knattspyrnusögu Akraness. Knattspyrnuæði greip um sig meðal bæjarbúa og ekki sér enn fyrir endann á því. Skagamenn unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1951 og var það í fyrsta sinn sem Íslandsbikarinn yfirgaf höfðuborgina. Titlarnir komu á færibandi næstu áratugina og fljótlega varð Akranes þekkt sem knattspyrnubærinn. Þremur áratugum síðar hófu konur á Akranesi að keppa í knattspyrnu. Fyrsta Íslandsmót kvenna fór fram innanhúss árið 1971 og urðu Skagamenn fyrstu Íslandsmeistarar kvenna.
Hér er að finna sögur af forgöngumönnum knattspyrnunnar á Akranesi, baráttu Kára og Knattspyrnufélags Akraness, úttroðnum hrútspungum sem voru notaðir sem boltar, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli, bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem er samofin fótboltanum.
Leiðbeinandi verð: 8.980-.
Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934-1966
Útgáfuár: 2022
Stofnun Ungmennafélagsins Sindra var mikil lyftistöng fyrir félagslíf ungs fólks á Höfn í Hornafirði. Saga félagsins ber vott um drifkraft og áræðni, það efndi til skemmtiferða, hélt sund- og íþróttanámskeið og starfrækti unglingaskóla í tvo vetur. Einnig reistu félagsmenn fyrsta samkomuhúsið á Höfn.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin
Útgáfuár: 2022
Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson – Hrafna-Flóka – upp að Íslandsströndum. Ýmislegt fréttist af þessum blakka spekingi eftir það, löngum tengdist hann myrkravöldunum, var til dæmis sagður iðulega á flugi við inngang Vítis, sem átti að vera í þeirri eldspúandi Heklu, og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. En hann átti sér líka marga vini á fyrri tíð, sem gaukuðu að honum matarbita í vetrarhörkum og elskuðu hann og dáðu. Á því hefur engin breyting orðið.
Krummi er sagður vita lengra nefi sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja. Hann er eftirherma mikil og þjóðtrúin segir hann aukinheldur geta orðið 900 ára. Það er ekki lítið.
Í þessari bók er hrafninn skoðaður frá mörgum hliðum og víða leitað fanga og niðurstaðan er sú, að hann er engum líkur.
Fjöldi glæstra mynda eru í bókinni.
Leiðbeinandi verð: 12.480-.
Fáskrúðsfjarðarsaga I-III
Útgáfuár: 2022
Fáskrúðfjarðarsaga er gefin út í þremur bindum. Í henni er fjallað um fjölmarga efnisþætti og má þar nefna þróun byggðarinnar, málefni hreppa, sjávarútveg, landbúnað, verslun, starfsemi mikilvægra stofnana og félags- og menningarmál. Um 850 myndir eru í verkinu og eiga þær sinn þátt í því að gera það áhugavert. Þá eru einnig birt kort til skýringar.
Þetta mikla ritverk láta Fáskrúðsfirðingar og áhugamenn um byggðasögu ekki fram hjá sér fara.
Leiðbeinandi verð: 32.900-.
Fáskrúðfjarðarsaga er gefin út í þremur bindum. Í henni er fjallað um fjölmarga efnisþætti og má þar nefna þróun byggðarinnar, málefni hreppa, sjávarútveg, landbúnað, verslun, starfsemi mikilvægra stofnana og félags- og menningarmál. Um 850 myndir eru í verkinu og eiga þær sinn þátt í því að gera það áhugavert. Þá eru einnig birt kort til skýringar.
Þetta mikla ritverk láta Fáskrúðsfirðingar og áhugamenn um byggðasögu ekki fram hjá sér fara.
Leiðbeinandi verð: 32.90
Ljósmæðrafélag Íslands í 100 ár
Útgáfuár: 2021
Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað árið 1919. Í þessari bók er saga félagsins rakin í máli og myndum allt frá þeim tíma til okkar daga. Þá er hér einnig að finna ljósmæðratal fyrir útskrifaðar ljósmæður á árunum 1984-2019, auk nokkurra sem útskrifuðust fyrr, en áður var komið út stéttartal ljósmæðra og náði það fram til útskriftar 1983.
Leiðbeinandi verð: 14.980-.