Ég verð að segja ykkur – Ingvar Viktorsson lætur gamminn geisa

Útgáfuár: 2022

Hér lætur Ingvar Viktorsson, fyrrum kennari, bæjarstjóri og íþróttafrömuður, gamminn geisa og sögurnar eru óteljandi. Guðjón Ingi Eiríksson ritstýrði bókinni, en í ritnefnd voru auk hans Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Geirsson og Orri Þórðarson. Og það má alveg láta það fylgja með að ritstjórnin þurfti að beita Ingvar hörðu til að fá hann til að fallast á að segja okkur frá viðburðaríkri ævi sinni, en það tókst þó og ættu margir að hafa fróðleik og skemmtun af frásögn hans. Rétt er að láta eina sögu úr bókinni fylgja hér með:
Einu sinni ætlaði ég að fá vin minn og félaga, Þóri heitinn Jónsson, með mér í golfið og við fórum út á Hvaleyri. Ég stillti upp bolta og bað Þóri að fylgjast með. Ég valdi kylfu og sló, en hitti ekki boltann, reyndi aftur og það sama gerðist, ég hitti ekki boltann. Þegar mér hafði mistekist ætlunarverk mitt í þriðja skiptið missti Þórir þolinmæðina og sagði: „Þetta er helvíti sniðugt, en til hvers er boltinn?“

Leiðbeinandi verð: 7.680-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Gamansögur, Hafnarfjörður, Íþróttir

Látra-Björg

Útgáfuár: 2020

Látra-BjörgLátra-Björg (1716-1784), kraftaskáld, sjómaður, flökkukona – goðsögn í lifanda lífi og ráðgáta eftir að hún lést á vergangi í Móðuharðindunum. Samtíðarmenn hennar óttuðust hana. Með kvæðum sínum var hún sögð geta flutt til fjöll, laðað að sér fisk og deytt menn eða fært þeim gæfu.

Í þessari bók eru saman komin öll helstu kvæði Látra-Bjargar og um leið skýringar Helga Jónssonar frá Þverá í Dalsmynni og samantekt hans á æviferli hennar, en Helgi var einhver dularfyllsti rithöfundur Íslandssögunnar.

Í sérstökum viðauka er svo að finna Látrabréfið sem líkur eru á að sé eini varðveitti prósatextinn eftir Látra-Björgu, einhver kynngimagnaðasti orðagaldur sem um getur, sagður hafa fundist á skemmuvegg á Látrum árið 1740.

Leiðbeinandi verð: 5.780-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Ljóð og listir

Vestmannaeyjar – af fólki, fuglum og ýmsu fleiru

Útgáfuár: 2020

kapa-prent.inddSagnameistarinn Sigurgeir Jónsson fer hér á kostum eins og oft áður í bókum sínum. Nú fjallar hann um æskuslóðir sínar í byggðinni fyrir ofan hraun í Vestmannaeyjum, búskaparhætti og fólkið sem þar bjó; rifjar upp kynni sín af sérstæðum persónum eins og séra Halldóri Kolbeins, Nýju í Suðurgarði og Munda í Draumbæ. Þau Sigurgeir og Katrín, kona hans, reistu sér reyndar hús í þessari byggð fyrir tveimur áratugum, og hafa frá þeim tíma átt í miklum samskiptum við góða og fiðraða nágranna, einkum tjald og stelk, sem sumir hverjir hafa þó reynt nokkuð á þolinmæði þeirra.

Þá fjallar Sigurgeir um fjóra eftirminnilega félaga sína, þá Bjarnhéðin Elíasson, Sævar í Gröf, Ása í Bæ og Guðmund kantor og segir af þeim sögur. Ýmis sérkenni Vestmannaeyinga á fyrri tíð eru líka tíunduð hér, til dæmis vatnsbúskapurinn í Eyjum áður en vatnsleiðsla var lögð þangað ofan af landi, auk þess sem rifjaðar eru upp minningar frá fyrstu vikum eldgossins 1973.

Sigurgeir segir ennfremur frá nokkrum minnisstæðum atvikum í lífi sínu, svo sem brúðkaupsferðalagi þeirra hjóna og stærðfræðikennslu sem hann á skólaárum sínum í Kennaraskólanum fékk hjá vistmanni á Kleppi. Svo plataði hann mann og annan í gervi ljóðskáldsins Jóns Kára og segir vitaskuld frá því.

Leiftrandi frásagnargáfa Sigurgeirs, hlý kímni hans sem hvarvetna glampar á og meistaralegar lýsingar á fjölda fólks sem við sögu kemur, ásamt næmri innsýn í sálir og hátterni manna og dýra gera lestur þessarar bókar eftirminnilegan og mannbætandi og skiptir þar engu máli hvort lesandinn á rætur að rekja til Vestmannaeyja eða ekki!

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Íslenskur fróðleikur, Sagnfræði

Siddi gull – æviminningar Sigmars Ó. Maríussonar gullsmiðs

Útgáfuár: 2020

Siddi gull kápaÍ þessari bók segir Þistilfirðingurinn Sigmar Ó. Maríusson – Siddi gull – fá viðburðaríkri ævi sinni. Ríflega tvítugur að aldri missti hann báða fæturna í bílslysi á Heiðarfjalli á Langanesi og hafði þá ýmislegt dunið á honum áður og átti enn eftir að gera.  En … hann hefur aldrei gefist upp, sama hvað á hefur bjátað, og ávallt horft á björtu hliðarnar, sama hversu dökkt útlitið var í rauninni. Þessu eru öllu gerð skil í frásögn sem spannar allt frá mesta draugagangi á Íslandi, Hvammsundrunum svokölluðu, til hins ofdekraða Samma.

Fjölmargir hafa í gegnum tíðina sótt í félagsskap Sigmars, einkum þegar hann rak verslun sína, Modelskartgripi, við Hverfisgötu. Létt lund hans laðaði að og þar áttu margur, sem telja mátti til utangarðsmanna í þjóðfélaginu, athvarf í dagsins önn. Má þar nefna Hemma túkall, Pétur Hoffmann og listmálarann Stefán Jónsson frá Möðrudal, sjálfan Stórval. Sigmar rekur kynni sín af þessum mönnum, en auk þess er í bókinni fjöldi gamansagna af hinum síðarnefnda. Þá segir af stórtækum skartgripaþjófi, sem fór ránshendi víða í verslunum og var gómaður á undraverðan hátt. Er þá fátt upp talið.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Íslenskur fróðleikur, Þingeyjarsýslur

Gústi – alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn

Útgáfuár: 2019

GústiGústi guðsmaður er að líkindum þekktasti sjómaður 20. aldar, að öðrum ólöstuðum. Hann var orðinn hálfgerð þjóðsagnapersóna meðan hann lifði og ekki dró úr því eftir að hann lést. Hann þekkti hafið eins og fingurna á sér og óttaðist ekkert af því að hann var að eigin sögn aldrei einn.  Guð var þar líka. Gústi var annálað hraustmenni, kjarnyrtur og bölvaði út í eitt og ragnaði, en betra hjarta var ekki til. Hann studdi fátæk börn úti í heimi til náms og gaf til þess nánast allt sem hann aflaði á litlu trillunni sinni. Hann var engill í dulargervi.  Þetta er saga hans. Einstök á allan hátt.

Leiðbeinandi verð: 8.380-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Siglufjörður

Alli Rúts – siglfirski braskarinn, skemmtikrafturinn og prakkarinn

Útgáfuár: 2017

Alli Rúts

Saga Alla Rúts er óvenjuleg.  Lesblindur drengur flosnar upp úr námi á Siglufirði og verður einn mesti braskarinn á Íslandi; rekur hér stærstu bílasöluna, flytur út hesta í tugatali og kemur sér í og úr vandræðum eins og honum væri borgað fyrir það.  Kannski var það líka reyndin, hver veit.

Voveiflegir atburðir verða Fljótum. Stórtækur sprúttsali útvegar mönnum guðaveigar eftir að hafa fengið sér af þeim áður. Landsþekktur danskennari fær að kenna á hrekkjum frænda síns. Jeppi er pikkfastur í Meyjarhafti. Tunnuverksmiðjan brennur. Rangur brandari er sagður á réttum stað. Bílar og hestar eru seldir og gengur stundum á ýmsu. Bankastjóri þiggur mútur. Laumast er í gervi læknis inn á gjörgæsludeildina. Þjófóttur Rúmeni heimsækir landið. Hauskúpa veldur uppþoti í tollinum. Forsætisráðherrann segir ósatt. Gjaldþrot verður og ekki bara eitt. Túristar eru vaktir með brunabjöllu og svona mætti lengi telja.

Hér er skyggnst inn í heim sem fáir þekkja til; heim Alla Rúts sem fékk ódrepandi sjálfstraust og dugnað í vöggugjöf og lætur ekkert buga sig. Hann kemur við á mörgum sviðum mannlífsins, tekur stundum dýfur, en lendir þó alltaf standandi.

Leiðbeinandi verð: 6.980-.

Uppseld.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur

Magni – Æviminningar Magna Kristjánssonar skipstjóra frá Neskaupstað

Útgáfuár: 2017

MAGNI-kapa, jpegMagni Kristjánsson var árum saman skipstjóri á bátum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Eftir að hann hætti til sjós gerðist hann hótelhaldari og verslunarmaður. Í bókinni segir frá mörgum eftirminnilegum uppákomum. Þar má nefna:

-síldarævintýri í Mjóafirði
-áflog um borð í síðutogara
-ríflega 50 daga siglingu heim frá Japan
-torkennilegan kapal á grunnslóðinni
-æsileg átök í Þorskastríðinu
-uppreisn á loðnuflotanum
-þróunarstarf á Grænhöfðaeyjum
-örnefni á hafsbotni
-eftirminnilegan fund hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu
-sögulegar hreindýraveiðar
-sviptingar í pólitík og margt fleira.

Magni segir frá af hispursleysi og hreinskilni. Hann var mikill áhugamaður um kolmunnaveiðar, kenndi sjómönnum ýmis fræði, kom á fót söfnum í heimabyggð sinni og svo mætti lengi telja. Þá tóku Norðmenn feil á honum og sjónvarpshetju sinni, sjálfum Fleksnes, og var hann ekkert að leiðrétta þá.

Leiðbeinandi verð: 7.680-.

Efnisflokkun: Austurland, Ævisögur og endurminningar, Bækur, Sjávarútvegur

Anna – Eins og ég er

Útgáfuár: 2017

Anna 2017Frá blautu barnsbeini vissi Anna K. Kristjánsdóttir vélfræðingur að hún hefði fæðst í röngum líkama. Hún ólst upp í Höfðaborginni en varði stórum hluta æskunnar á barnaheimilum. Ung að árum ákvað hún að berjast gegn erfiðum tilfinningum sínum og gerast sjómaður en sjómennskan var nánast herskylda í fjölskyldu hennar. Hún stóð við það; fór á sjóinn, settist síðar í Vélskólann, gifti sig og eignaðist þrjú börn. Anna lék hlutverk sitt sem harður sjómaður þar til hún gat ekki meira og ákvað að berjast fyrir tilveru sinni sem kona. Saga hennar er ekki einungis forvitnileg, heldur einnig mikilvæg heimild um viðburðaríka tíma og ævi.

Leiðbeinandi verð: 7.280-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Reykjavík

Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar

Útgáfuár: 2016

vilji-er-allt-sem-tharf

Séra Vigfús Þór Árnason lét af störfum fyrr á þessu ári eftir að hafa þjónað sem sóknarprestur í 40 ár, fyrst á Siglufirði og seinni hluta starfsævinnar í Grafarvogi. Vigfús Þór hefur oft farið ótroðnar slóðir og segir hér sögu sína hispurslaust og af hreinskilni, gædda því einstaka skopskyni sem honum er svo eðlislægt að beita.

Hér segir meðal annars frá:

  • giftingu í sandkassa,
  • sögulegri heimsókn „lyktandi“ guðfræðinema til Færeyja,
  • ýmsum atburðum í lögreglunni,
  • jarðarför Gústa guðsmanns sem sjálfur hóf upp raustina í eigin kveðjustund,
  • sáttafundum hjóna í ræstikompu,
  • fyrstu klukknahringingunni í Grafarvogskirkju – sem ekki var af mannavöldum,
  • óvæntri diskóljósamessu.

VILJI ER ALLT SEM ÞARF er bæði bráðskemmtileg og fróðleg bók; kitlar hláturtaugarnar og veitir lesandanum jafnframt innsýn í starf prestsins, sem er fjölbreyttara en margur heldur.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Afmælisrit, Ævisögur og endurminningar, Bækur, Grafarvogur, Reykjavík, Siglufjörður

Þetta var nú bara svona

Útgáfuár: 2015

Þetta var nú bara svona

Þetta var nú bara svona er ævisaga Jóns Magnússonar, skipstjóra og athafnamanns á Patreksfirði, skráð af Jóhanni Guðna Reynissyni. Þetta er baráttu saga manns sem var ekki hugað líf fljótlega eftir fæðingu, hætti að reykja 12 ára gamall og hefur farið sínar eigin leiðir í lífinu og berst þá ekki alltaf með straumnum.

Jón er landsþekktur skipstjóri og aflamaður en fyrstu árin voru þyrnum stráð þar sem fyrir kom til dæmis að móðir pilts, sem hann vildi fá með sér á sjóinn, mætti þessum unga skipstjóra í dyragættinni með hnífinn á lofti.

Þau hjónin, Jón og Lilja Jónsdóttir, hafa rekið Odda hf. og Vestra ehf. á Patreksfirði um árabil og aldrei selt eitt aukatekið kílógramm af kvóta frá útgerðum sínum. Starfseminni er fyrst og fremst ætlað að afla byggðarlaginu lífsbjargar og veita fólkinu þar eins trygga atvinnu og auðið er.

Viðtal við höfund bókarinnar er að finna hér (undir flipanum Jólabækur):  http://www.utvarpsaga.is/eldri-thaettir-2.html

Leiðbeinandi verð: 6.480-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur
Eldra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is