Papa Jazz allur

Um miðjan þennan mánuð lést Guðmundur Steingrimsson – Papa Jazz. Hann var afar snjall trommuleikari og einn af brautryðjendum djassins hér á landi; lék með fjölda hljómsveita og kenndi ýmsum þá list sem vandaður trommuleikur er.

Árið 2009 kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum ævisaga Guðmundar og ber hún einfaldlega heitið Papa Jazz. Það var Árni Matthíasson sem skráði og má fullyrða hér og nú að samvinna þeirra félaga hafi orðið til þess að margvíslegur fróðleikur um tónlistarlífið á Íslandi varðveitist um ókomin ár og þá ekki síst það sem snýr að jazzinum.

Undirritaður kynntist Guðmundi vel á þessum árum og ræddum við um heima og geima, meira að segja um knattspyrnu, en Papa Jazz var stuðningsmaður Leeds og fylgdist ágætlega með boltasparkinu. Þess utan var hann mikill sögubrunnur um menn og málefni og var virkilega gaman að hlusta á hann segja frá. Hann kunni óteljandi sögur, fæstar máttu auðvitað fara eitthvað lengra, en hann sagði þær og aðrar einnig af slíkri snilld að unun var af.

Blessuð sé minning Papa Jazz.

Guðjón Ingi Eiríksson.

Sunnudagur 18. apríl 2021
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is