Fjöllin í Grýtubakkahreppi
Útgáfuár: 2024
Kinnar – og Víknafjöll
Útgáfuár: 2024
Í þessari bók lýsir höfundurinn og göngugarpurinn, Hermann Gunnar Jónsson, í máli og myndum fjallgöngum á austanverðum Gjögraskaga/Flateyjarskaga, auk þess leiðum úr Hvalvatnsfirði, austur á Flateyjardal og þaðan til Náttfaravíkna og inn í Kinn. Þessu fylgja fjöldi mynda og korta (m.a. stórt heildarkort af svæðinu), sem og GPS-hnit og QE-kóði af gönguleiðum. Bókin er kjörin ferðafélagi allra þeirra sem ganga um þetta svæði.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Lesum um fugla
Útgáfuár: 2023
Þessi bráðfallega bók er hugsuð fyrir börn sem farin eru að lesa sér til gagns en í henni eru kynntar í stuttu máli um 70 tegundir algengra fugla í íslenskri náttúru og fylgir falleg ljósmynd hverri þeirra. Þá er þetta tilvalin bók fyrir börn og foreldra að lesa og eða skoða saman og ræða um það sem fyrir augu ber á blaðsíðum hennar.
Leiðbeinandi verð: 4.380-.
Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin
Útgáfuár: 2022
Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson – Hrafna-Flóka – upp að Íslandsströndum. Ýmislegt fréttist af þessum blakka spekingi eftir það, löngum tengdist hann myrkravöldunum, var til dæmis sagður iðulega á flugi við inngang Vítis, sem átti að vera í þeirri eldspúandi Heklu, og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. En hann átti sér líka marga vini á fyrri tíð, sem gaukuðu að honum matarbita í vetrarhörkum og elskuðu hann og dáðu. Á því hefur engin breyting orðið.
Krummi er sagður vita lengra nefi sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja. Hann er eftirherma mikil og þjóðtrúin segir hann aukinheldur geta orðið 900 ára. Það er ekki lítið.
Í þessari bók er hrafninn skoðaður frá mörgum hliðum og víða leitað fanga og niðurstaðan er sú, að hann er engum líkur.
Fjöldi glæstra mynda eru í bókinni.
Leiðbeinandi verð: 12.480-.
Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar – FUGLADAGBÓKIN 2022
Útgáfuár: 2021
Þetta er tvímælalaust fallegasta dagbókin sem komið hefur út á Íslandi og þá með fullri virðingu fyrir öðrum, enda er hér um sannkallaða LISTAVERKA-DAGBÓK að ræða – prýdd fjölda glæsilegra ljósmynda af fuglum og margþættum fróðleik um 52 af þeim tegundum af rúmlega 400, sem talið er að hafi sést á Íslandi frá upphafi skráningar. Í bókinni er að finna eyðublað fyrir hverja viku ársins, þar sem m.a. er hægt að skrá niður hvaða fuglategundir sjáist þennan eða hinn daginn, hvernig viðrar og svo framvegis. Auðvitað má svo einnig nota bókina eins og hefðbundna dagbók þar sem fólk skráir eitt og annað hjá sér.
Leiðbeinandi verð: 7.380-.
Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin
Útgáfuár: 2020
Í þessari bók, sem er afrakstur 25 ára heimildasöfnunar, eru teknir til skoðunar allir íslenskir, reglubundnir varpfuglar, í hérlendri og erlendri þjóðtrú. Auk þess eru birt ljóð og annað forvitnilegt efni sem þeim tengist, að ógleymdum ríflega 1000 alþýðuheitum. Jafnframt er hérað finna vel á þriðja hundrað mynda, sem og útbreiðslukort hverrar tegundar fyrir sig.
• Íslensk þjóðtrú hefur ýmislegt af keldusvíninu að segja. Vegna undarlegra hátta sinna var það talið mikil furðuskepna, jafnvel yfirnáttúruleg, hálfur ormur og í beinu sambandi við þann í neðra. Þess vegna sóttust galdramenn líka mjög eftir að komast í tæri við það og nota við kukl sitt.
• Á Horni í Sléttuhreppi boðaði það rigningu, ef lómurinn stóð á öðrum fæti og skrækti.
• Þegar haftyrðillinn var að finnast rekinn á land í stórum hópum áður fyrr, ímynduðu menn
sér að þetta væri undrafyglið halkíon, en samkvæmt grískum sögnum átti það að vera með
hreiður sitt úti á rúmsjó.
• Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir forn ráð við gulu. Eitt var það að hræra arnarheila út í
þremur mörkum af víni og drekka svo. Annað, að drekka vatn af arnarkló og „pissa strax í
eld“.
• Í Heklu átti að vera bústaður hrafna með glóandi klær og nef úr járni.
• Vegna smæðar, litar og atferlis, eða með öðrum orðum vegna þess hversu jarðbundinn hann
er og gjarn á að skjótast í felur í holum og gjótum eða þéttu kjarri, í stað þess að bjarga sér á
flugi, var músarrindillinn löngum talinn skyldari mús en fugli.
Leiðbeinandi verð: 12.980-.
Gljúfrabúar og giljadísir – eyfirskir fossar
Útgáfuár: 2020
Um árabil hefur áhugaljósmyndarinn Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, heimsótt helstu fossa heimahéraðs síns, Eyjafjarðar, og hér gerir hann þeim skil í máli og myndum. Einn tilgangurinn með bókinni er sá að minna á þau ómetanlegu lífsgæði sem felast í því að eiga stutt að fara út í óspjallaða og ægifagra náttúru. Fegurðin er nærri og aðgengilegri en okkur grunar.
Bókin er í senn á íslensku og ensku.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Náttúruþankar … og hennar líf er eilíft kraftaverk
Útgáfuár: 2019
Náttúruþankar feðginanna Bjarna E. Guðleifssonar og Brynhildar, dóttur hans, fjalla um ýmis fyrirbæri í náttúru og umhverfi, stór og smá. Við yfirferð bókarinnar ljúkast upp leyndardómar um margvísleg og margbreytileg fyrirbæri í okkar nánasta umhverfi. Lýst er áhrifum mannlegra athafna á náttúruna, svo sem gróðureyðingu, vatnsmengun. loftlagsbreytingum og orkunýtingu.
Þessari bók er ætlað að örva lesendur til umhugsunar um undur náttúrunnar og stuðla þannig að því að henni verði betur borgið í ólgusjó framtíðarinnar.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Hvítabirnir á Íslandi
Útgáfuár: 2018
Stórmerkileg bók um komu hvítabjarna til Íslands, allt frá landnámsöld til okkar daga, með viðkomu í sögum og sögnum um þessar ógnvekjandi skepnur. Og þetta voru engir aufúsugestir:
„Fréttin um hvítabjörninn barst í einu vetfangi um alla eyjuna og komu allir byssufærir menn saman von bráðar. Þrjú bæli sáust í hlíðinni og var álitið í fyrstu að dýrin væru fleiri en eitt. Lagt var af stað upp hlíðina móti vindáttinni. Menn voru vel undir viðureignina búnir og meira að segja var hákarlaskálm ein mikil með í förinni. Atlagan hófst. Menn skipuðu sér í hálfhring í kring um híðið og komu sér fyrir í skotstöðu í um það bil 20 feta fjarlægð. Björninn hafði lítið bært á sér til þessa en nú tók hann að óróast. Hann rak vígalegan hausinn út um munna grenis síns og þegar hann sá mennina lét ófriðlega í honum …“
Þetta er brot úr frásögn frá Grímsey árið 1969. Og frásagnirnar eru margar og sumar óhugnanlegar.
Höfundurinn, Rósa Rut Þórisdóttir, byggir bókina að miklu leyti á gögnum sem faðir hennar, Þórir heitinn Haraldsson, lengi náttúrufræðikennari við MA, hafði safnað saman og er þetta mikla ritverk tileinkað minningu hans.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.
Fjöllin í Grýtubakkahreppi
Útgáfuár: 2016
Bókin, Fjöllin í Grýtubakkahreppi, er tvískipt. Annars vegar eru ferðasögur höfundar á alla fjallatinda í Grýtubakkahreppi, nokkurs konar dagbókarbrot. Hins vegar er um að ræða 13 gönguleiðalýsingar á valin fjöll á svæðinu, tvær leiðir yfir á Flateyjardal um Skriðurnar og Sandskarð, auk þess sem lýst er hringnum frá Grenivík um Trölladal,Fjörður og Látraströnd.
Yfir 280 ljósmyndir eru í bókinni, 47 kort, þar af eitt stórt af svæðinu og gps-hnit eru til glöggvunar fyrir lesandann. Við skoðun bókarinnar gefst kostur á að kynna sér tignarleg fjöll og eyðidali svæðisins hvort sem setið er heima í stofu eða tekist á við náttúruna í raun.
Höfundur bókarinnar, Hermann Gunnar Jónsson, er sveitastrákur að upplagi og kann útivist vel. Hann ólst upp við hefðbundin landbúnaðarstörf á Hvarfi í Bárðardal og þekkir vel að snúast í kringum kindur bæði á hesti og fæti. Auk þess hefur hann gjarnan brúkað báða þessa ferðamáta til að ferðast um landið og njóta, sérstaklega Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Í seinni tíð hafa fjallgöngurnar þó haft yfirráðin.
Leiðbeinandi verð: 5.980-.
Uppseld.