Siddi gull – æviminningar Sigmars Ó. Maríussonar gullsmiðs

Útgáfuár: 2020

Siddi gull kápaÍ þessari bók segir Þistilfirðingurinn Sigmar Ó. Maríusson – Siddi gull – fá viðburðaríkri ævi sinni. Ríflega tvítugur að aldri missti hann báða fæturna í bílslysi á Heiðarfjalli á Langanesi og hafði þá ýmislegt dunið á honum áður og átti enn eftir að gera.  En … hann hefur aldrei gefist upp, sama hvað á hefur bjátað, og ávallt horft á björtu hliðarnar, sama hversu dökkt útlitið var í rauninni. Þessu eru öllu gerð skil í frásögn sem spannar allt frá mesta draugagangi á Íslandi, Hvammsundrunum svokölluðu, til hins ofdekraða Samma.

Fjölmargir hafa í gegnum tíðina sótt í félagsskap Sigmars, einkum þegar hann rak verslun sína, Modelskartgripi, við Hverfisgötu. Létt lund hans laðaði að og þar áttu margur, sem telja mátti til utangarðsmanna í þjóðfélaginu, athvarf í dagsins önn. Má þar nefna Hemma túkall, Pétur Hoffmann og listmálarann Stefán Jónsson frá Möðrudal, sjálfan Stórval. Sigmar rekur kynni sín af þessum mönnum, en auk þess er í bókinni fjöldi gamansagna af hinum síðarnefnda. Þá segir af stórtækum skartgripaþjófi, sem fór ránshendi víða í verslunum og var gómaður á undraverðan hátt. Er þá fátt upp talið.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Íslenskur fróðleikur, Þingeyjarsýslur

Hvítabirnir á Íslandi

Útgáfuár: 2018

HvítabirnirStórmerkileg bók um komu hvítabjarna til Íslands, allt frá landnámsöld til okkar daga, með  viðkomu í sögum og sögnum um þessar ógnvekjandi skepnur. Og þetta voru engir aufúsugestir:

„Fréttin um hvítabjörninn barst í einu vetfangi um alla eyjuna og komu allir byssufærir menn saman von bráðar.  Þrjú bæli sáust í hlíðinni og var álitið í fyrstu að dýrin væru fleiri en eitt.  Lagt var af stað upp hlíðina móti vindáttinni.  Menn voru vel undir viðureignina búnir og meira að segja var hákarlaskálm ein mikil með í förinni.  Atlagan hófst. Menn skipuðu sér í hálfhring í kring um híðið og komu sér fyrir í skotstöðu í um það bil 20 feta fjarlægð.  Björninn hafði lítið bært á sér til þessa en nú tók hann að óróast. Hann rak vígalegan hausinn út um munna grenis síns og þegar hann sá mennina lét ófriðlega í honum …“

Þetta er brot úr frásögn frá Grímsey árið 1969.  Og frásagnirnar eru margar og sumar óhugnanlegar.

Höfundurinn, Rósa Rut Þórisdóttir, byggir bókina að miklu leyti á gögnum sem faðir hennar, Þórir heitinn Haraldsson, lengi náttúrufræðikennari við MA, hafði safnað saman og er þetta mikla ritverk tileinkað minningu hans.

Leiðbeinandi verð: 7.980-.

Efnisflokkun: Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Náttúrufræði, Sagnfræði

130 vísnagátur

Útgáfuár: 2018

130 vísnagátur.jpegÍ þessari bráðsmellnu bók eru 130 vísnagátur, sumar léttar, aðrar erfiðari, en allar eru þær skemmtilegar.  Hver vísa felur í sér eitt orð og eru vísbendingar um það að finna í hverri ljóðlínu. Dæmi:

Þessar hýsir herra mús,

hún í tönn er mesti blús.

Lítil, hrörleg íbúð er,

og í götu því er ver.

Já, hvaða orð skyldi leynast þarna?

Leiðbeinandi verð: 2.980-.

Efnisflokkun: Bækur, Gátubækur, Íslenskur fróðleikur, Ljóð og listir

Grafningur og Grímsnes

Útgáfuár: 2014

Grafningur.kapaHér er fjallað um Grafning, sögu og mannlíf, á árunum 1890-2012 og Grímsnes að hluta til, þ.e.a.s. sem tekur einkum til Sogsvirkjana og Ljósafossskóla.  Hverri jörð er lýst í knöppu máli og í ábúendatali er þráðurinn rakinn bæ frá bæ eftir hinni gömlu boðleið og grein gerð fyrir ábúendum og niðjum þeirra. Mikið ítarefni er hluti af verkinu sem lýtur m.a. að staðfræði, atvinnuháttum, sögu og sögnum, þjóðfræði og þjóðháttum. Fjöldi ljósmynda prýðir verkið sem er mikilsvert innlegg í sunnlenska byggðasögu.

Leiðbeinandi verð: 7.980-.

Efnisflokkun: Ættfræði, Bækur, Íslenskur fróðleikur

Örnefni í Mjóafirði

Útgáfuár: 2014

örnefniVilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði hafði lengi fyrirhugað að Örnefni í Mjóafirði yrði síðasta bók hans og var ætlunin að hún kæmi út á 100 ára afmæli hans, þ. 20. september 2014.  Reyndar hafði hann sjálfur sagt að annaðhvort yrði þetta afmælisrit eða minningarrit og því miður fór það svo að hið síðarnefnda varð niðurstaðan. Vilhjálmur lést 14. júní, eða rúmlega tveimur mánuðum fyrir aldarafmæli sitt.  Þá hafði hann nýlokið við að fara yfir síðustu próförkina af bókinni og því gat hann farið nokkuð nærri um endanlega útkomu.

Umrædd bók, Örnefni í Mjóafirði, kemur út á fyrrnefndri dagsetningu, þ.e. þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu Vilhjálms, og verður vafalítið fróðleiksbrunnur öllum þeim sem sækja Mjóafjörð heim og dvelja þar um lengri og skemmri tíma.  Einnig þeim sem áhuga hafa á íslenskri náttúru og sögnum sem henni tengjast.  Meginefni bókarinnar er vönduð örnefnaskrá heimabyggðar hans, sem og þjóðsögur, frásagnir af ýmsu tagi svo og fróðleikur sem tengist örnefnunum.  Örnefnaskránni fylgja 30 litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á, auk fjölda annarra mynda.

Örnefni í Mjóafirði er sannarlega glæstur endapunktur á hinu mikla starfi sem Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku vann í þágu Mjóafjarðar sem og þjóðfræði í víðum skilningi þess orðs.

Leiðbeinandi verð: 6.480-.

Efnisflokkun: Austurland, Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur

Hraun í Öxnadal

Útgáfuár: 2014

Hraun i Oxnadal frontHraun í Öxnadal er ein af nafnkunnustu bújörðum á landinu.  Það er ekki síst vegna þess hve fagurt er þar heim að líta, en Drangafjall og Hraundrangi gnæfa í baksýn.  Einnig er Hraun í Öxnadal nafnkunnugt vegna þess að þar fæddist árið 1807 þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson.

Bók þessi fjallar mest um umhverfi og náttúru Öxnadals og þá aðallega náttúru jarðarinnar Hrauns, bæði jarðfræði og lífverur. Meginhluti bókarinnar fjallar þó um 18 gönguleiðir á svæðinu.  Fjölmörg kort og margar ljósmyndir prýða bókina sem er 286 blaðsíður að lengd.

Höfundur bókarinnar er Bjarni E. Guðleifsson en hann hefur áður skrifað fjölmargar útivistar- og náttúrubækur, m.a. Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll.

Leiðbeinandi verð: 5.680-.

Efnisflokkun: Handbækur og bækur almenns eðlis, Heilsa, lífstíll og forvarnir, Íslenskur fróðleikur

Brot úr byggðarsögu – mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár

Útgáfuár: 2013

Brot úr byggðarsögur-kapa

Bók þessi skiptist í átta hluta: Um hreppinn og stjórn hans, einkum á þeim tíma þegar framfærslumálin vógu þyngst. Búnaðarbálkurinn er fyrirferðarmestur, bændur tóku hlutverk sitt alvarlega og stofnuðu Framfarafélag 1867 og Nautgriparæktarfélag 1904. Í kafla um samgöngur segir frá fyrstu gerð vega og brúa, upphafi bílaaldar í hreppnum, pósti og síma en í þessum hreppi var einmitt lagður fyrsti sveitasími á Íslandi árið 1897. Í kafla um rafmagn segir frá fyrstu heimarafstöðvum og hvernig fólk lýsti upp hús sín með vindrellum og bensínmótorum og fleiru fram að komu Laxárrafmagns 1956. Læknum og ljósmæðrum er tileinkaður sérstakur kafli en Höfðahverfislæknishérað var stofnað 1894. Verslunarkaflinn er litríkur og skólasagan ekki síður. Síðasti kaflinn fjallar um félagasamtök margs konar. Bókina prýðir hátt á fimmta hundrað mynda.

Leiðbeinandi verð: 8.980-.

Efnisflokkun: Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur

Eigi víkja

Útgáfuár: 2013

Eigi víkja_kápa

Í þessu riti, Jóns Sigurðssonar fyrrum rektors Samvinnuháskólans á Bifröst og ráðherra, er fjallað um mörg viðfangsefni. Meðal annars: Hverjar eru forsendur íslenskrar þjóðvitundar og þjóðerniskenndar? Hvenær litu Íslendingar fyrst á sjálfa sig sem þjóð? Hvernig myndast þjóðir í Evrópu? Hvað eru þjóð og þjóðerni? Hver var þjóðmálastefna og verkefnaskrá Jóns forseta? Hver er hlutur Johanns Gottfried von Herder í sögu Íslendinga? Hverju máli skiptir Nikolaj Frederik Severin Grundtvig í sögu Íslendinga? Hvert var hlutverk Þórhalls Bjarnarsonar í sögu Íslendinga? Hvernig má skilgreina íslenskt þjóðerni? Hvernig má skilgreina þjóðhyggju og þjóðernisstefnu? Er þjóðmálastefna falin í kvæðinu um Dísu í dalakofanum? Og:  Hverjar eru samfélagsforsendur Bjarts í Sumarhúsum?

Enginn áhugamaður um sögu Íslands og Íslendinga lætur þessa bók framhjá sér.

Leiðbeinandi verð: 3.980-.

Uppseld.

Efnisflokkun: Bækur, Íslenskur fróðleikur

Fjör og manndómur

Útgáfuár: 2011

fjor og manndómur-kápaÍ þessari tuttugustu og fyrstu bók sinni snertir sagnameistarinn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku fjölmarga strengi í samfélagi liðinnar tíðar.  Fjallað er um nítján leiðir sem liggja um háfjallaskörð milli Mjóafjarðar og nágrannabyggðarlaganna og hrakninga þar – sem ekki enduðu allir vel.  Þá beinist athygli sögumanns mjög að hlutverki kvenna og líkur bókinni á æviþætti konu sem ekki mátti sín mikils, en lifði langa ævi og dó á tíræðisaldri – án þess að hafa í eitt einasta skipti leitað til læknis, utan augnlæknis einu sinni.

Leiðbeinandi verð: 5.480-.

Efnisflokkun: Austurland, Bækur, Íslenskur fróðleikur

Á afskekktum stað

Útgáfuár: 2011

Á afskekktum stað

Bókin Á afskekktum stað er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga. Bókinni er ætlað að gefa lesendum tilfinningu fyrir sögu og þróun mannlífs í Austur-Skaftafellssýslu frá því á árunum milli stríða fram til dagsins í dag. Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.

Leiðbeinandi verð: 3.500-.

Uppseld.

Tengsl: Efnisflokkun: Austurland, Bækur, Handbækur og bækur almenns eðlis, Íslenskur fróðleikur, Sagnfræði
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is