
Það er gott að búa í Kópavogi! Gamansögur af Kópavogsbúum
Útgáfuár: 2015
Gunnar I. Birgisson mátar buxur, Sigurður Geirdal sendir Guðmundi Oddssyni kveðskap, Finnbogi Rútur lofar vatni, Kristján H. Guðmundsson kaupir koníak, Einar Þorvarðarson er hætt kominn í flugvél, Hildur Hálfdanardóttir mætir hölt í vinnuna, Pétur Þ. Sveinsson blæs í þokulúður, allt er steindautt í vinnunni hjá Arnóri L. Pálssyni og Þórður á Sæbóli selur blóm. Hér koma margir við sögu og það er öruggt mál að lesendurnir eiga góðar stundir með þessa bráðskemmtilegu bók í höndunum.
Sýnishorn úr bókinni: http://issuu.com/gunnarkr/
Leiðbeinandi verð: 3.280-.
Hersetan á Ströndum og Norðvesturlandi
Útgáfuár: 2015
Hér er greint frá umsvifum og dvalarstöðum setuliðsins á stríðsárunum, reynslu og kynnum liðsmanna og heimamanna, hermennskulífi, loftárásum, mannskæðum slysförum og vofveifilegum atburðum. Margar áður óbirtar ljósmyndir prýða bókina og fjallað er um braggabúðir, búnað og farartæki sem komust í hendur Íslendinga.
Viðal við höfundinn, Friðþór Eydal, er hér (undir flipanum Morgunútvarpið – 2. hluti):
http://www.utvarpsaga.is/
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Spurningabókin 2015
Útgáfuár: 2015
Í hvaða landi eru flugeldar aðallega framleiddir? Hvað heitir heimildarmyndin um Ólaf Stefánsson handboltakappa? Hver er aðalsöguhetjan í Family Guy? Hvað gleypa krókódílar til að auðvelda sér að kafa? Þetta og margt fleira til í þessari bráðsmellnu bók sem grípa má til hvar og hvenær sem er.
Leiðbeinandi verð: 1.390-.
Kveikjur
Útgáfuár: 2015
Kveikjur eftir séra Bolla Pétur Bollason, fyrrum prest í Seljakirkju og nú sóknarprest í Laufási, var að koma út. Innihald bókarinnar eru 40 smásögur og í þeim er tæpt á þjóðfélagsmálum á borð við fátækt, einelti, ofbeldi í ýmsum myndum, einsemd og siðferðisbrestum, siðferðilegum álitamálum, tilvistar- og tilgangsspurningum, sorginni, gleðinni, kærleikanum, samskiptum fólks og endalokunum.
Það er öllum hollt að lesa þessa bók og velta fyrir sér efni hennar. Hún hentar jafnt unglingum sem hinum eldri og sögurnar mega vel nýtast sem ísbrjótar fyrir samtal og sameiginlegar vangaveltur.
Ljósmyndir prýða bókina og eru þær eftir Völund Jónsson.
Leiðbeinandi verð: 3.480-.
Biblíumatur – uppskriftir frá landi mjólkur og hungangs
Útgáfuár: 2014
Í þessari bók, eftir séra Svavar Alfreð Jónsson sóknarprest í Akureyrarkirkju, rekur hver gómsætur rétturinn annan. Í henni er að finna girnilegar og hollar mataruppskriftir og bera sumar þeirra forvitnileg heiti eins og t.d. Spínatsúpa faraós, Baunasalat Hebreams, Kvöldskattur tollheimtumannsins og Lambakjötsréttur Rebekku.
Hér getur þú, lesandi góður, fræðst aðeins meira um bókina: http://www.n4.is/is/thaettir/file/bibliumatur-sr-svavars
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Hreindýraskyttur – Líflegar og fræðandi frásagnir af hreindýraveiðum
Útgáfuár: 2014
Í bókinni segja Axel Kristjánsson, Gunnar A. Guttormsson, Guttormur Sigbjarnarson, Sigrún Aðalsteinsdóttir, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Þorgils Gunnlaugsson, María B. Gunnarsdóttir, Pálmi Gestsson, Sæunn Marinósdóttir og Sigurður Aðalsteinsson frá ævintýrum sínum á hreindýraveiðum á Íslandi og í Grænlandi. Auk þess er rakin saga hreindýraveiða hér á landi. Bókin er prýdd kortum og fjölda mynda.
Hægt er að sjá örlítið sýnihorn úr bókinni hér: http://issuu.com/gunnarkr/docs/hreind__raskyttur/0
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Örnefni í Mjóafirði
Útgáfuár: 2014
Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði hafði lengi fyrirhugað að Örnefni í Mjóafirði yrði síðasta bók hans og var ætlunin að hún kæmi út á 100 ára afmæli hans, þ. 20. september 2014. Reyndar hafði hann sjálfur sagt að annaðhvort yrði þetta afmælisrit eða minningarrit og því miður fór það svo að hið síðarnefnda varð niðurstaðan. Vilhjálmur lést 14. júní, eða rúmlega tveimur mánuðum fyrir aldarafmæli sitt. Þá hafði hann nýlokið við að fara yfir síðustu próförkina af bókinni og því gat hann farið nokkuð nærri um endanlega útkomu.
Umrædd bók, Örnefni í Mjóafirði, kemur út á fyrrnefndri dagsetningu, þ.e. þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu Vilhjálms, og verður vafalítið fróðleiksbrunnur öllum þeim sem sækja Mjóafjörð heim og dvelja þar um lengri og skemmri tíma. Einnig þeim sem áhuga hafa á íslenskri náttúru og sögnum sem henni tengjast. Meginefni bókarinnar er vönduð örnefnaskrá heimabyggðar hans, sem og þjóðsögur, frásagnir af ýmsu tagi svo og fróðleikur sem tengist örnefnunum. Örnefnaskránni fylgja 30 litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á, auk fjölda annarra mynda.
Örnefni í Mjóafirði er sannarlega glæstur endapunktur á hinu mikla starfi sem Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku vann í þágu Mjóafjarðar sem og þjóðfræði í víðum skilningi þess orðs.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Hraun í Öxnadal
Útgáfuár: 2014
Hraun í Öxnadal er ein af nafnkunnustu bújörðum á landinu. Það er ekki síst vegna þess hve fagurt er þar heim að líta, en Drangafjall og Hraundrangi gnæfa í baksýn. Einnig er Hraun í Öxnadal nafnkunnugt vegna þess að þar fæddist árið 1807 þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson.
Bók þessi fjallar mest um umhverfi og náttúru Öxnadals og þá aðallega náttúru jarðarinnar Hrauns, bæði jarðfræði og lífverur. Meginhluti bókarinnar fjallar þó um 18 gönguleiðir á svæðinu. Fjölmörg kort og margar ljósmyndir prýða bókina sem er 286 blaðsíður að lengd.
Höfundur bókarinnar er Bjarni E. Guðleifsson en hann hefur áður skrifað fjölmargar útivistar- og náttúrubækur, m.a. Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll.
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Brot úr byggðarsögu – mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár
Útgáfuár: 2013
Bók þessi skiptist í átta hluta: Um hreppinn og stjórn hans, einkum á þeim tíma þegar framfærslumálin vógu þyngst. Búnaðarbálkurinn er fyrirferðarmestur, bændur tóku hlutverk sitt alvarlega og stofnuðu Framfarafélag 1867 og Nautgriparæktarfélag 1904. Í kafla um samgöngur segir frá fyrstu gerð vega og brúa, upphafi bílaaldar í hreppnum, pósti og síma en í þessum hreppi var einmitt lagður fyrsti sveitasími á Íslandi árið 1897. Í kafla um rafmagn segir frá fyrstu heimarafstöðvum og hvernig fólk lýsti upp hús sín með vindrellum og bensínmótorum og fleiru fram að komu Laxárrafmagns 1956. Læknum og ljósmæðrum er tileinkaður sérstakur kafli en Höfðahverfislæknishérað var stofnað 1894. Verslunarkaflinn er litríkur og skólasagan ekki síður. Síðasti kaflinn fjallar um félagasamtök margs konar. Bókina prýðir hátt á fimmta hundrað mynda.
Leiðbeinandi verð: 8.980-.
100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa
Útgáfuár: 2013
Kaupfélag Héraðsbúa, sem stofnað var árið 1909, á sér merka sögu. Það var á löngu tímabili burðarás í austfirsku atvinnulífi með mikla starfsemi bæði á Héraði og niðri á fjörðum en með breyttum viðskiptaháttum og samfélagsþróun í lok 20. aldar tók að fjara undan því. Hér rekur Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra, aldarsögu þessa merkilega samvinnufélags og tekur ýmsa króka til að gera frásögnina jafnt skemmtilega sem fræðandi.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.