Gústi guðsmaður

Mánudagur 14. nóvember 2016

Það er vert að vekja athygli á því að í endurminningum séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, Vilji er allt sem þarf, er fjallað í þó nokkuð löngu máli um Siglfirðinginn Gústa guðsmann. Hann var einsetukarl og sjómaður, veiddi fisk á báti sínum sem hann réri einn á og gaf andvirði aflans til bágstaddra út um allan heim. Hann var því ekki að skara eld að eigin köku – eins og er svo algengt meðal fólks í dag – heldur lét þá njóta sem minna máttu sín og eiga margir honum mikið að þakka.
Umrædd frásögn er snilldarvel skrifuð, eins og reyndar öll bókin, en því miður hefur Gústi guðsmaður legið óbættur hjá garði fram að þessu.
Svo má bæta því við að sennilega hafa fáir talað í eigin jarðarför – en það gerði Gústi guðsmaður og „hrukku margir kirkjugesta við þegar hann hóf upp raust sína“.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar, Grafarvogur, Reykjavík, Siglufjörður

Jólabækurnar 2016

Sunnudagur 30. október 2016

Jólabækur Bókaútgáfunnar Hóla eru að koma út um þessar mundir. Bestu barnabrandararnir – meiriháttar, Spurningabókin 2016, Fótboltaspurningarnar 2016, Leynilíf gæludýranna, Öeindirnar, alheimurinn, lífið – og Guð, Sigurðar sögur dýralæknis, Djúpmannatal 1801-2011 og Flugsaga fara í búðirnar seinni hlutann í þessari viku og í byrjun þeirrar næstu bætast við Skagfirskar skemmtisögur 5 og Héraðsmannasögur. Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar bætast svo við um miðjan nóvember. Áður útkomnar á árinu eru: Pétrísk-íslensk orðabók, Fjöllin í Grýtubakkahreppi og Lars Lagerbäck og íslenska landsliðið.

Rétt er að vekja athygli á því að auðvitað er hægt að panta bækurnar beint frá Hólum í netfanginu holar@holabok.is eða í síma 587-2619.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Séra Vigfús Þór sjötugur

Föstudagur 26. febrúar 2016

Þann 6. apríl nk. verður séra Vigfús Þór Árnason sjötugur. Af því tilefni réðust vinir hans og velunnarar í það mikla verk að láta skrifa um hann bók og verður hún hvort tveggja í senn, endurminningar hans og afmælisrit. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur séð um ritunina og mun bókin koma út á haustdögum. Hún verður bráðskemmtileg eins og þeirra félaga er von og vísa, en snertir einnig hina viðkvæmu strengi í brjóstum okkar.

Aftast í bókinni verður heillaóskaskrá (Tabula gratulatoria) og þar geta þeir sem gerast áskrifendur að bókinni – og heiðra um leið séra Vigfús Þór á þessum tímamótum – fengið nafn sitt skráð. Eru þeir beðnir að hafa samband í netfangið holar@holabok.is (og taka þá fram fullt nafn þess eða þeirra sem á að skrá + heimilisfang og kennitölu) eða í síma 557-5270. Verð bókarinnar verður kr. 6.980- og greiðist fyrirfram.

 

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Jólabækurnar

Laugardagur 7. nóvember 2015

Jólabækurnar frá Bókaútgáfunni Hólum streyma nú út úr prentsmiðjunum og kennir þar ýmissa grasa. Endilega kynnið ykkur úrvalið á heimasíðunni og auðvitað eru margar af eldri bókunum enn fáanlegar, en talsvert hefur verið pantað af þeim á þessu ári.

 

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Umsögn um Kveikjur

Föstudagur 14. ágúst 2015

Bók séra Bolla, Kveikjur, hefur fengið mjög góða dóma og hér er einn þeirra, eftir Gerði Kristnýju, rithöfund:

„Hefur eitthvað hent þig í lífinu sem á sér engar röklegar skýringar? Er hefnd einhvern tímann réttlætanleg? Þetta eru tvær þeirra spurninga sem lagðar eru fram í Kveikjum nýrri bók eftir Bolla Pétur Bollason. Þetta er góð bók. Dæmin sem þar er lagt upp með eru raunsönn og áhugaverð. Þótt margar ímyndaðar persónur segi þar sögu sína tala þær allar með sömu rödd en það skiptir engu því þetta er ekki smásagnasafn, heldur, eins og stendur á bókarkápu, kveikjur. Þeir sem vinna með ungu fólki ættu að hafa hana við höndina og auðvitað allir hinir líka. Takk, Bolli Pétur!“

 

 

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Esjan – ljósmyndasamkeppni

Fimmtudagur 16. apríl 2015

Ferðafélag Íslands stendur fyrir ljósmyndasamkeppni  vegna fyrirhugaðrar útgáfu á gönguleiðabók um Esju sem Bókaútgáfan Hólar gefur út.

Esjan er vinsælasta útivistarsvæði landsins og þar stunda tugþúsundir manna gönguferðir og útiveru ár hvert.

Leitað er eftir  Esjumyndum af öllu tagi;  jafnt að sumri sem og öðrum árstíðum,  bæði af náttúru fjallsins og af fólki í Esjuhlíðum.

Með þátttöku í samkeppninni heimilar ljósmyndari að hans myndir verði notaðar í bókina án endurgjalds en höfunda verður getið og veittar viðurkenningar  fyrir myndir sem birtast munu í bókinni.  Veitt verða sérstök verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar.

Skilafrestur mynda er 25. júní 2015.  Myndum skal skilað á netfangiðesjan@fi.is eða á skrifstofu FÍ.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku – Örnefni í Mjóafirði

Sunnudagur 27. júlí 2014

Þann 20. september næstkomandi  hefði Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði orðið 100 ára.  Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum vandað rit eftir hann, Örnefni í Mjóafirði.  Þar verður að finna á 320 blaðsíðum örnefnaskrá allra jarða við Mjóafjörð, ásamt frásögnum tengdum örnefnunum og öðrum fróðleik. Í bókinni verða einnig  kort,  litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á og fjöldi annarra mynda.

Vilhjálmur stundaði lengi kennslu og búskap í sinni heimabyggð, en þekktastur er hann þó fyrir hin pólitísku störf sín, en hann var lengi alþingismaður fyrir Framsóknar-flokkinn í Austurlandskjördæmi og mennta-málaráðherra 1974-1978.  Þá skrifaði hann fjölda bóka um menn, málefni og heimabyggð sína.

Sú bók sem nefnd er hér að ofan er síðasta ritverk Vilhjálms og hefur enginn á Íslandi staðið fyrir bókaútgáfu svo gamall og raunar bætti hann sífellt á undanförnum árum eigið Íslandsmet hvað þetta varðar.

Þegar byrjað var að búa umrædda bók til prentunar sagði Vilhjálmur svo frá, að „annaðhvort verður þetta afmælisrit eða minningarrit“.  Því miður verður hið síðarnefnda ofan á.

Aftast í bókinni verður Tabula memorialis (minningarskrá) og þar geta þeir sem heiðra vilja minningu Vilhjálms fengið nafnið sitt skráð og um leið gerst áskrifendur að bókinni sem kostar kr. 6.480- m/vsk og sendingargjaldi.

Hægt er að panta bókina fram til 5. ágúst í netfanginu erna@holabok.is eða í símum 690-8595/587-2619.

F.h. Bókaútgáfunnar Hóla

Erna Ýr Guðjónsdóttir

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Vilhjálmur fallinn frá

Mánudagur 14. júlí 2014

Vilhjálmur Hjálmarsson lést í morgun á Brekku í Mjóafirði.  Hann hefði orðið 100 ára þann 20. september næstkomandi og stóð til að bókin Örnefni í Mjóafirði eftir hann sjálfan yrði afmælisrit hans.  Reyndar hafði Vilhjálmur ávallt sagt að annaðhvort yrði bókin afmælisrit eða minningarrit og því miður varð hið síðarnefnda ofan á.  Hann hafði hlakkað mikið til útgáfu hennar, enda mikið í lagt, og hafði þegar verið safnað nokkrum áskrifendum að henni.  Áfram skal haldið á þeirri braut og munu nöfn þeirra sem skrá sig sem áskrifendur verða birt undir fyrirsögninni Tabula memorialis (í stað Tabula gratulatoria).

Vilhjálmur var bóndi, kennari, alþingismaður og ráðherra, sem og stórtækur rithöfundur í seinni tíð og liggja eftir hann fjölmargar bækur.  Þær síðustu voru gefnar út af Bókaútgáfunni Hólum og áttum við margt og skemmtilegt spjallið vegna þeirra, bæði yfir kaffibolla og eins símleiðis.  Fyrir það vil ég þakka að leiðarlokum og sendi jafnframt börnum hans og öðrum ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðjón Ingi Eíríksson

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku 100 ára

Föstudagur 11. júlí 2014

Þann 20. september næstkomandi verður Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði 100 ára.  Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum vandað afmælisrit eftir afmælisbarnið sjálft, Örnefni í Mjóafirði.  Þar verður að finna á 320 blaðsíðum örnefnaskrá allra jarða við Mjóafjörð, ásamt frásögnum tengdum örnefnunum og öðrum fróðleik. Í bókinni verða einnig  kort,  litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á og fjöldi annarra mynda.

Vilhjálmur stundaði lengi kennslu og búskap í sinni heimabyggð, en þekktastur er hann þó fyrir hin pólitísku störf sín, en hann var lengi alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Austurlandskjördæmi og menntamálaráðherra 1974-1978.  Þá hefur hann skrifað fjölda bóka um menn, málefni og heimabyggð sína.  Sú bók sem nefnd er hér að ofan verður síðasta ritverk hans og hefur enginn á Íslandi staðið fyrir bókaútgáfu svo gamall og raunar hefur hann á undanförnum árum sífellt bætt eigið Íslandsmet hvað þetta varðar.

Aftast í bókinni verður Tabula gratulatoria (heillaóskaskrá) og þar geta þeir sem vilja sýna Vilhjálmi heiður á þessum tímamótum og óska honum til hamingju með áfangann skráð nafn sitt og um leið gerst áskrifendur að bókinni sem kostar kr. 6.480- m/vsk og sendingargjaldi.

Hægt er að panta bókina í netfanginu erna@holabok.is eða í síma. 587-2619.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Sigurður dýralæknir – afmælisrit

Fimmtudagur 10. apríl 2014

Vísindamaðurinn, sagnamaðurinn og gleðimaðurinn, í góðri merkingu þess orðs, Sigurður Sigurðarson, dýralæknir frá Keldum, verður 75 ára þann 2. október næstkomandi.  Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum seinni bindið af æviminningum Sigurðar og er það jafnframt afmælisrit hans.  Þar segir hann frá lífshlaupi sínu, allt frá dýralæknanáminu í Noregi til þessa dags, og dregur fram í dagsljósið ógrynni sagna af skemmtilegu fólki og skemmtilegum viðburðum, þótt vissulega hafi hann fengið sinn skerf af mótlæti og meðal annars verið hótað lífláti. Þá er vísum vitaskuld varpað fram, enda liggur kveðskapur honum létt á tungu og yrkir hann næstum jafnhratt og aðrir menn tala.

Í fyrrnefndum afmælisriti verður að sjálfsögðu heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og býður útgefandi öllum þeim sem sýna vilja Sigurði sóma að skrá nafn sitt þar og eignast um leið bókina. Verð hennar verður kr. 6.480- m/sendingargjaldi og er tekið við áskrifendum í netfanginu brynjar@holabok.is og í síma 698-6919.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is