Anna – Eins og ég er

Útgáfuár: 2017

Anna 2017Frá blautu barnsbeini vissi Anna K. Kristjánsdóttir vélfræðingur að hún hefði fæðst í röngum líkama. Hún ólst upp í Höfðaborginni en varði stórum hluta æskunnar á barnaheimilum. Ung að árum ákvað hún að berjast gegn erfiðum tilfinningum sínum og gerast sjómaður en sjómennskan var nánast herskylda í fjölskyldu hennar. Hún stóð við það; fór á sjóinn, settist síðar í Vélskólann, gifti sig og eignaðist þrjú börn. Anna lék hlutverk sitt sem harður sjómaður þar til hún gat ekki meira og ákvað að berjast fyrir tilveru sinni sem kona. Saga hennar er ekki einungis forvitnileg, heldur einnig mikilvæg heimild um viðburðaríka tíma og ævi.

Leiðbeinandi verð: 7.280-.

Efnisflokkun: Ævisögur og endurminningar, Bækur, Reykjavík

Gústi guðsmaður

Mánudagur 14. nóvember 2016

Það er vert að vekja athygli á því að í endurminningum séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, Vilji er allt sem þarf, er fjallað í þó nokkuð löngu máli um Siglfirðinginn Gústa guðsmann. Hann var einsetukarl og sjómaður, veiddi fisk á báti sínum sem hann réri einn á og gaf andvirði aflans til bágstaddra út um allan heim. Hann var því ekki að skara eld að eigin köku – eins og er svo algengt meðal fólks í dag – heldur lét þá njóta sem minna máttu sín og eiga margir honum mikið að þakka.
Umrædd frásögn er snilldarvel skrifuð, eins og reyndar öll bókin, en því miður hefur Gústi guðsmaður legið óbættur hjá garði fram að þessu.
Svo má bæta því við að sennilega hafa fáir talað í eigin jarðarför – en það gerði Gústi guðsmaður og „hrukku margir kirkjugesta við þegar hann hóf upp raust sína“.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar, Grafarvogur, Reykjavík, Siglufjörður

Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar

Útgáfuár: 2016

vilji-er-allt-sem-tharf

Séra Vigfús Þór Árnason lét af störfum fyrr á þessu ári eftir að hafa þjónað sem sóknarprestur í 40 ár, fyrst á Siglufirði og seinni hluta starfsævinnar í Grafarvogi. Vigfús Þór hefur oft farið ótroðnar slóðir og segir hér sögu sína hispurslaust og af hreinskilni, gædda því einstaka skopskyni sem honum er svo eðlislægt að beita.

Hér segir meðal annars frá:

  • giftingu í sandkassa,
  • sögulegri heimsókn „lyktandi“ guðfræðinema til Færeyja,
  • ýmsum atburðum í lögreglunni,
  • jarðarför Gústa guðsmanns sem sjálfur hóf upp raustina í eigin kveðjustund,
  • sáttafundum hjóna í ræstikompu,
  • fyrstu klukknahringingunni í Grafarvogskirkju – sem ekki var af mannavöldum,
  • óvæntri diskóljósamessu.

VILJI ER ALLT SEM ÞARF er bæði bráðskemmtileg og fróðleg bók; kitlar hláturtaugarnar og veitir lesandanum jafnframt innsýn í starf prestsins, sem er fjölbreyttara en margur heldur.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Efnisflokkun: Afmælisrit, Ævisögur og endurminningar, Bækur, Grafarvogur, Reykjavík, Siglufjörður

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is