Vornóttin angar
Útgáfuár: 2014
Í þessari bók er að finna safn ljóða eftir Odd Sigfússon frá Krossi í Fellum. Oddur er fljúgandi hagmæltur og hefur næmt eyra fyrir bragnum, orðfær og hugkvæmur. Öll eru ljóðin ort undir hefðbundnum háttum. Ljóð Odds gefa innsýn í líf hans, hann er trésmiður að mennt og hefur starfað sem slíkur en í frístundum hefur hann bæði leikið á harmoniku og sungið í kórum. Helsta ástríða hans felst þó í því að ferðast og skoða sig um, heimsækja fjarlæg lönd og kynnast fjölbreyttri menningu annarra þjóða. Ljóðin túlka tilfinningar hans, reynslu og skoðanir, hér er ort um allt milli himins og jarðar. Mörg ljóðanna lýsa ferðalögum höfundarins og þar eru gjarnan dregnar upp myndir af því sem fyrir augu og eyru ber. Auk þess er víða vísað til samferðamanna Odds, félaga hans og fjölskyldumeðlima eða annarra sem hann hefur hitt eða starfað með á lífsgöngunni. Efni bókarinnar er þannig afar fjölbreytt, bæði hvað varðar bragform og innihald.
Leiðbeinandi verð: 1.980-.
Hreindýraskyttur – Líflegar og fræðandi frásagnir af hreindýraveiðum
Útgáfuár: 2014
Í bókinni segja Axel Kristjánsson, Gunnar A. Guttormsson, Guttormur Sigbjarnarson, Sigrún Aðalsteinsdóttir, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Þorgils Gunnlaugsson, María B. Gunnarsdóttir, Pálmi Gestsson, Sæunn Marinósdóttir og Sigurður Aðalsteinsson frá ævintýrum sínum á hreindýraveiðum á Íslandi og í Grænlandi. Auk þess er rakin saga hreindýraveiða hér á landi. Bókin er prýdd kortum og fjölda mynda.
Hægt er að sjá örlítið sýnihorn úr bókinni hér: http://issuu.com/gunnarkr/docs/hreind__raskyttur/0
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Örnefni í Mjóafirði
Útgáfuár: 2014
Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði hafði lengi fyrirhugað að Örnefni í Mjóafirði yrði síðasta bók hans og var ætlunin að hún kæmi út á 100 ára afmæli hans, þ. 20. september 2014. Reyndar hafði hann sjálfur sagt að annaðhvort yrði þetta afmælisrit eða minningarrit og því miður fór það svo að hið síðarnefnda varð niðurstaðan. Vilhjálmur lést 14. júní, eða rúmlega tveimur mánuðum fyrir aldarafmæli sitt. Þá hafði hann nýlokið við að fara yfir síðustu próförkina af bókinni og því gat hann farið nokkuð nærri um endanlega útkomu.
Umrædd bók, Örnefni í Mjóafirði, kemur út á fyrrnefndri dagsetningu, þ.e. þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu Vilhjálms, og verður vafalítið fróðleiksbrunnur öllum þeim sem sækja Mjóafjörð heim og dvelja þar um lengri og skemmri tíma. Einnig þeim sem áhuga hafa á íslenskri náttúru og sögnum sem henni tengjast. Meginefni bókarinnar er vönduð örnefnaskrá heimabyggðar hans, sem og þjóðsögur, frásagnir af ýmsu tagi svo og fróðleikur sem tengist örnefnunum. Örnefnaskránni fylgja 30 litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á, auk fjölda annarra mynda.
Örnefni í Mjóafirði er sannarlega glæstur endapunktur á hinu mikla starfi sem Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku vann í þágu Mjóafjarðar sem og þjóðfræði í víðum skilningi þess orðs.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa
Útgáfuár: 2013
Kaupfélag Héraðsbúa, sem stofnað var árið 1909, á sér merka sögu. Það var á löngu tímabili burðarás í austfirsku atvinnulífi með mikla starfsemi bæði á Héraði og niðri á fjörðum en með breyttum viðskiptaháttum og samfélagsþróun í lok 20. aldar tók að fjara undan því. Hér rekur Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra, aldarsögu þessa merkilega samvinnufélags og tekur ýmsa króka til að gera frásögnina jafnt skemmtilega sem fræðandi.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.
Allt upp á borðið
Útgáfuár: 2013
Sagnameistarinn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku rifjar hér upp bernsku sína og gerir upp þingmanns- og ráðherraferil sinn í stuttu máli. Þá fjallar hann um Seyðisfjörð og Seyðfirðinga og ekki síst það góða og göfuga starf sem unnið er á heilbrigðisstofnuninni þar í þágu þeirra sem glíma við minnistap.
Leiðbeinandi verð: 4.680-.
Skriðdæla
Útgáfuár: 2013
Í þessari glæsilegu og fróðlegu bók kennir margra grasa um Skriðdal og ábúendur þar í gegnum tíðina. Má þar nefna sveitarlýsingu, örnefni, ábúendatal, veðurfarsyfirlit og sögur af mönnum og málefnum. Hægt er að fylgja þróun verslunar, samgangna og þjónustu við Skriðdælinga fyrr á tímum ásamt breytingum á sveitasamfélaginu.
Þessa bók lætur enginn áhugamaður um þjóðlegan fróðleik fram hjá sér fara og heldur ekki þeir sem tengjast Skriðdal á einn eða annan máta.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.
Uppseld.
Fjör og manndómur
Útgáfuár: 2011
Í þessari tuttugustu og fyrstu bók sinni snertir sagnameistarinn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku fjölmarga strengi í samfélagi liðinnar tíðar. Fjallað er um nítján leiðir sem liggja um háfjallaskörð milli Mjóafjarðar og nágrannabyggðarlaganna og hrakninga þar – sem ekki enduðu allir vel. Þá beinist athygli sögumanns mjög að hlutverki kvenna og líkur bókinni á æviþætti konu sem ekki mátti sín mikils, en lifði langa ævi og dó á tíræðisaldri – án þess að hafa í eitt einasta skipti leitað til læknis, utan augnlæknis einu sinni.
Leiðbeinandi verð: 5.480-.
Á afskekktum stað
Útgáfuár: 2011
Bókin Á afskekktum stað er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga. Bókinni er ætlað að gefa lesendum tilfinningu fyrir sögu og þróun mannlífs í Austur-Skaftafellssýslu frá því á árunum milli stríða fram til dagsins í dag. Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.
Leiðbeinandi verð: 3.500-.
Uppseld.
Það reddast – Sveinn Sigurbjarnarson ævintýramaður á Eskifirði lítur um öxl
Útgáfuár: 2010
Sveinn Sigurbjarnarson ferðafrömuður og ævintýramaður á Eskifirði fer sjaldnast troðnar slóðir – ef þá nokkurn tíma. Hann hefur þvælst um fjöll og firnindi, láglendi og hálendi og hjarnbreiður jöklanna með þúsundir ferðamanna og ævintýrin í þessum ferðum eru mörg og sum býsna skuggaleg. Kappinn lætur sér þó fátt um finnast, enda sagður áræðinn, jafnvel bíræfinn og ennfremur svalur í þess orðs dýpstu merkingu.
Í bók þessari lítur Svenni um öxl og rifjar upp minninagrbrot frá liðinni ævi með aðstoð nokkurra samferðamanna. Yfir þeim er vitaskuld ævintýrablær, enda sannleikurinn oft lyginni líkastur.
Leiðbeinandi verð: 5.980-.
Uppseld.
Feimnismál
Útgáfuár: 2010
Í þessari tuttugustu bók sinni fer Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku víða um. Gluggað er í gömul bréf, kynjamyndir Austfjarðaþokunnar skoðaðar, ferðast er með strandferðaskipum og kynni höfundar af fjölmörgu fólki rifjuð upp, m.a. af Ólafi Thors sem talaði eins vel um framsóknardindlana og hann þorði.
Hvernig fór svo með hvolpinn sem Vilhjálmur neitaði að flytja suður?
Leiðbeinandi verð: 5.480-.
Uppseld.