Einn léttur!

Föstudagur 25. október 2013

Vitringarnir þrír komu inn í fjárhús þar sem María og Jósef stóðu yfir jötunni þar sem nýfætt barn þeirra lá í reifum. Einn vitringanna var frekar hár í loftinu og var svo óheppinn að reka höfuðið harkalega upp í loftið. Hann greip um höfuð sér og hrópaði upp yfir sig:

„JESÚS KRISTUR!“

Þá hvíslaði Jósef að Maríu:

„Skrifaðu þetta niður, þetta er svo miklu flottara en Haraldur.“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Gullin ský – ævisaga Helenu Eyjólfsdóttur

Föstudagur 25. október 2013

Í tilefni af útkomu æviminninga sinna heldur Helena Eyjólfsdóttir ferilstónleika á Græna hattinum á Akureyri næstkomandi laugardagskvöld.  Hún endurtekur svo leikinn syðra í Súlnasal Hótel Sögu þann 9. nóvember. Allir aðdáendur íslenskrar dægurtónlistar láta að sjálfsögðu sjá sig á tónleikunum og lesa bókina svo á eftir.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Villi á Brekku er engum líkur

Miðvikudagur 23. október 2013

Á morgun, fimmtudaginn 24. október, kemur úr prentsmiðju bókin Allt upp á borðið, eftir Vilhjálm Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði.  Hann er 99 ára að aldri og allra Íslendinga elstur til að senda frá sér bók.  Og það sem meira er: Þetta er ekki síðasta bókin úr smiðju hans.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Sir Alex – heillaóskalisti

Sunnudagur 15. september 2013

Í byrjun nóvember kemur út bókin SIR ALEX – hinn magnaði Ferguson-tími hjá Manchester United 1986-2013.  Í henni er rakin saga þessa stórkostlega kafla í sögu félagsins og farið ofan í saumana á býsna mörgu sem þá gerðist.

Aftast í bókinni verður Heillaóskaskrá (List of Honour) – til heiðurs Sir Alex Ferguson.  Þar geta stuðningsmen Manchester United á Íslandi og aðrir knattspyrnuáhugamenn fengið nafnið sitt skráð gegn því að gerast áskrifendur að bókinni.  Bókin, vonandi með fjölmörgum nöfnum, verður síðan afhent Sir Alex Ferguson.  Verð bókarinnar verður 5.980- og hægt er að gerast áskrifandi (áskriftina þarf að greiða fyrirfram) að henni í netfanginu holar@holabok.is

Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson en hann hefur skrifað fjölmargar vinsælar knattspyrnubækur og er auk þess höfundur hins bráðskemmtilega Fótboltaspils.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn fimmaura!

Miðvikudagur 29. maí 2013

-Veistu hvað Magnús gamli gerði þegar hann missti konuna sína?

-Nei.

-Hann tók hana upp aftur.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Metsölubók!

Fimmtudagur 31. janúar 2013

Það er gaman að segja frá því að bók Sigga á Háeyri um gosið í Heimaey, Undir hraun, varð í efsta sæti á vinsældarlista Eymundsson-búðanna yfir seldar bækur á tímabilinu 22.01.-29.01.  Sannarlega glæsilegt, en viðtökur bókarinnar hafa verið mjög góðar og ber að þakka fyrir það.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Jólakveðja

Mánudagur 24. desember 2012

Bókaútgáfan Hólar óskar samstarfsaðilum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar fyrir frábærar viðtökur á þeim bókum sem hún gaf út á árinu sem er að líða.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Kynningarmyndband og upplestur úr Návígi á norðurslóðum

Laugardagur 8. desember 2012

Á eftirfarandi slóð er hægt að horfa og hlusta á Magnús Þór Hafsteinsson kynna bók sína Návígi á norðurslóðum: https://vimeo.com/55041316 Þarna má finna magnaðar myndaklippur.  Þá er hægt að hlusta á Magnús Þór lesa upp úr bókinni á slóðinni:  https://soundcloud.com/magnusthor/magn-s-r-les-kafla-r-b-k-sinni.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Endurprentanir!

Fimmtudagur 6. desember 2012

Þrír af titlum Bókaútgáfunnar Hóla hafa verið endurprentaðir eða eru á leið í endurprentun.  Glettur og gamanmál, eftir Villa á Brekku, er komin í 2. prentun og rýkur út og sama má segja um bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, Návígi á norðurslóðum.  Þá er von á 2. prentun af Skagfirskum skemmtisögum 2 – Meira fjör – enda hverfur upp úr nokkrum kössum á hverjum degi, svo mikið er hún pöntuð.  Þá hafa Vísnagátur, eftir Pál Jónasson í Hlíð á Langanesi, Lán í óláni, eftir Hjálmar Freysteinsson, lækni á Akureyri, og Pétrísk-íslensk orðabók, eftir séra Pétur Þorsteinsson, runnið mjög vel út. Ennfremur hefur bókin Skórnir sem breyttu heiminum, eftir skódrottninguna Hönnu Guðnýju Ottósdóttur, tekið mikinn kipp að undanförnu enda frábær bók þar á ferð – allt í senn: fræðandi, skemmtileg og falleg.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Vinningshafi!

Sunnudagur 18. nóvember 2012

Vinningshafinn í spurningaleiknum um það frá hverjum séra Pétur Þorsteinsson hafi fengið lánað hárgreiðslurnar sem prýða prestinn framan á nýjustu bók hans, Pétrísk-íslensk orðabók, er Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, Stóru-Mörk 3, 861 Hvolsvelli og fær hún senda umrædda bók.  Hárgreiðslurnar tilheyra: Justin Bieber, Jóni Gnarr og Barack Obama.

Bókaútgáfan Hólar þakkar öllum þeim sem sendu inn lausnir – flest allar voru þær HÁRréttar.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is