Skagfirskar skemmtisögur 6 – Fjörið heldur áfram
Útgáfuár: 2022
Skagfirskar skemmtisögur 6 er síðasta bókin í þessum vinsæla bókaflokki sem Sauðkrækingurinn Björn Jóhann Björnsson hleypti af stokkunum á sínum tíma og heldur enn utan um. Bókin hefst á sögum af Bjarna Har kaupmanni, sem lést í byrjun árs, og er viðeigandi að hann gefi tóninn, enda var vandfundinn annar eins húmoristi. Þá eru hér sögur af Hvata á Stöðinni, Ýtu-Kela, séra Baldri í Vatnsfirði og mörgum öðrum snillingum, sem og glettnar gamanvísur, meðal annars úr orlofsferðum skagfirskra húsmæðra.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Stundum verða stökur til
Útgáfuár: 2022
Bragsnillingurinn Hjálmar Jónsson fer hér á kostum í leiftrandi kveðskap og frásögnum. Skemmtileg atvik og viðburðir verða ljóslifandi og samskipti við fólk í gleði og gáska kitla hláturtaugarnar svo um munar. Einnig er í bókinni dýpri kveðskapur. Rauði þráðurinn er þó alltaf hjartahlýjan og húmorinn.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Skagfirskar skemmtisögur 5
Útgáfuár: 2016
Hér kennir margra grasa. Séra Þórir Stephensen er kallaður til skítverka á Sauðárkróki. Stína Sölva heldur þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera Álftagerðisbræður. Kári Valla makar á sig súkkulaði í sturtunni. Ása Öfjörð klárar messuvínið. Egill Bjarna sendir Sigga Guðjóns út í kjörbúð að kaupa skyr. Það raknar úr garnaflækju hjá Valla Jóns. Jóhann Salberg sýslumaður býður forseta Íslands Ópal. Steingrímur á Silfrastöðum segir kirkjuna rúma heilt helvíti. Andrés Valberg selur sömu hauskúpuna tvisvar. Rúnki predikari bölsótar steinbítnum. Sölvi Helgason hrækir í Hróarsdal og Seðlabankamenn hringja í Hörð á Hofi. Þá er sagt frá ævintýralegum hestaviðskiptum við Stebba á Keldulandi og bókin endar á smásögunni Raunir á Reyðarskeri.
Skagfirskar skemmtisögur 5 er ávísun á taumlausa skemmtun.
Leiðbeinandi verð: 3.280-.