
Nýjasta útgáfa Hóla
Lán í óláni
Hér slær Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri, á léttu nóturnar og útkoman er vægast sagt bráðfyndin. Vísurnar eru gjarnan tengdar atburðum og umræðuefnum í samfélaginu og þá bent á spaugilegan flöt málanna til að gera tilveruna agnarlítið skemmtilegri.
Leiðbeinandi verð: 2.480-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Pétrísk-íslensk orðabók – með alfræðiívafi
Séra Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins og æskulýðsfulltrúi á Grund, hefur um árabil samið og safnað saman skrýtnum og skemmtilegum orðum til að setja í stað hinna hversdagslegu og litlausu. Hvað ætli þessi orð merki hjá séra Pétri: Afbökun? Bakflæði? Einvígi? Landafundir? Óefni? Þú færð svörin við þessu í Pétrísk-íslensku orðabókinni sem að sjálfsögðu er með alfræðiívafi.
Leiðbeinandi verð: 2.280-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Úr hugarheimi – í gamni og alvöru
Í þessari bók er að finna safn hugleiðinga Bjarna E. Guðleifssonar, náttúrufræðings og göngugarpa á Möðruvöllum í Hörgárdal, um margvísleg efni svo sem tímann, frelsið, meðalmennskuna, fegurð, erfðir, menningu og girðingar. Sumar þeirra eru alvarlegar, aðrar í léttari kantinum og vafalítið finnur margur þarna eitthvað við sitt hæfi. Ritið er jafnframt afmælisrit Bjarna, en hann varð sjötugur í sumar.
Leiðbeinandi verð: 3.890-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Af hverju?
Af hverju…
… er aldrei á tali þegar maður hringir í rangt númer?
… er fólk með athyglisbrest alltaf látið taka á móti pöntunum á TAKE AWAY stöðum?
… virka pikköpplínur bara á ljótar stelpur?
… fékk Íslendingurinn sem sigraði í nektarhlaupinu á Hróarskelduhátiðinni 2012 ekki orðu frá forsetanum eins og strákarnir okkar í handboltalandsliðinu sem unnu þó bara silfrið á ólympíuleikunum í Peking?
… þurfti Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur að vera faðir drengsins sem Kristrún Ösp fæddi árið 2012 en ekki Dwight Yorke, fyrrum knattspyrnumaður hjá Manchester United?
… er s í smámæltur?
… er lesblinda ekki styttra orð?
… gleymist það alltaf í allri megrunarumræðu að feita fólkið er öllu jöfnu mun glaðværara en horrenglurnar?
Mánudagur 27. ágúst 2012Íslandsmet!
Ein af jólabókum Hóla þetta árið verður Glettur og gamanmál eftir Vilhjálm Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði. Próförkin af henni er tilbúin og prentun framundan. Bókin inniheldur gamansögur og vafalítið falla þær víða í góðan jarðveg enda bráðsmellnar.
Þess má ennfremur geta að Vilhjálmur verður 98 ára síðar á þessu ári og er hann elstur allra á Íslandi til að skrifa bók. Það má einnig nefna að hann er klár með handrit að bók fyrir árið 2013 og einnig fyrir 2014. Geri aðrir betur.
Fimmtudagur 26. júlí 2012Handknattleiksbókin I-II
Í þessu glæsilega tveggja binda verki er rakin saga handknattleiksins á Íslandi. Ævintýrið hófst árið 1920 og spannar bókin yfir 90 ár, eða til 2010. Fjallað er rækilega um upphaf þessarar íþróttagreinar, sem ávallt hefur snert sterkar taugar í þjóðarsálinni, og þá menn sem mörkuðu fyrstu sporin. Íslandsmótinu eru gerð góð skil sem og bikarkeppninni og Evrópuleikjum félagsliðanna. Og vitaskuld fer feikimikið púður í landsliðin okkar sem borið hafa hróður lands og þjóðar víða um heim.
Handknattleiksbókina I-II ættu allir unnendur handknattleiks sem og íþrótta almennt að lesa.
Leiðbeinandi verð: 18.900-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Einn léttur!
Morguninn eftir brúðkaupsnóttina fór eiginmaðurinn hljóðlega á fætur, læddist niður í eldhús og bjó til frábæran morgunverð sem hann færði konu sinni. Hún varð himinlifandi.
„Tókstu eftir því sem ég gerði fyrir þig?“ spurði maðurinn.
„Hverju smáatriði,“ malaði frúin alsæl.
„Gott, svona vil ég nefnilega fá morgunverðinn minn á hverjum morgni.“
Mánudagur 21. maí 2012Bjarni E. Guðleifsson sjötugur
Þótt ótrúlegt megi virðast verður Bjarni E. Guðleifsson, náttúrufræðingur og fjallgöngugarpur á Möðruvöllum, sjötugur þann 21. júní næstkomandi. Hann hefur lengst af unnið sem sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), en síðustu árin hefur hann gegnt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá hefur hann skrifað fjölmargar greinar um náttúruvísindi og önnur hugðarefni í blöð og tímarit og ennfremur staðið að nokkrum bókum um þau efni. Einnig hefur Bjarni, sem er mikill áhugamaður um fjallgöngur og hollt og heilbrigt líferni, skrifað tvær fjallgöngubækur, Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll, sem báðar hlutu góðar viðtökur en eru nú uppseldar.
Vegna fyrrgreindra tímamóta í lífi Bjarna ákvað Bókaútgáfan Hólar að gefa út afmælisrit honum til heiðurs og mun það nefnast Úr hugarheimi – í gamni og alvöru. Mun bókin, sem verður í kilju, innihalda 30 pistla eftir afmælisbarnið sem eru bæði fræðandi og skemmtilegir, eins og við má búast.
Í bókinni verður heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og þar verða skráð nöfn þeirra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana sem vilja senda Bjarna E. Guðleifssyni afmæliskveðju og jafnframt gerast áskrifendur að bókinni, en hún mun kosta kr. 4.380 m/sendingargjaldi og er áskriftarverðið innheimt fyrirfram.
Hægt er að gerast áskrifandi að bókinni og skrá sig á heillaóskaskrána í síma 587-2619 og í netfangi holar@holabok.is
Þriðjudagur 8. maí 2012Einn léttur í sumarbyrjun
Þrír ungir piltar fengu lélegar einkunnir í kynfræðslu. Jói fékk D+, Gummi D- og Nonni fékk F.
„Einn daginn fær tíkin sko að finna fyrir því,“ sagði Jói bálreiður og var að tala um Guðríði kennslukonu.
„Já, við náum henni og klæðum hana úr öllum fötunum,“ sagði Nonni.
„Já, og svo skulum við sparka í punginn á henni,“ sagði Gummi.
Fimmtudagur 19. apríl 2012Einn góður!
Unga móðirin var hjá geðlækninum.
„Þú hefur allt of miklar áhyggjur af barninu þínu,“ sagði hann. „Ég ætla að skrifa upp á róandi lyf sem þú þarft að taka tvisvar á dag. Komdu svo til mín aftur í næstu viku.“
Viku seinna kom konan og geðlæknirinn spurði:
„Hafa lyfin haft einhver áhrif?“
„Já,“ svaraði konan. „Þau hafa gert algjört kraftaverk.“
„Og hvernig hefur svo barnið þitt það?“
„Hverjum er ekki sama!“
Þriðjudagur 10. apríl 2012