Nýjasta útgáfa Hóla



Spurningabókin 2023

Um hvaða klaufa hefur Jeff Kinney skrifað fjölmargar bækur?

Hvar má ekki pissa eftir því sem fram kemur í „Laginu um það sem er bannað“?

Við hvaða aldur verða krókódílar kynþroska?

Hvernig eru íslensku varðskipin  á litinn?

Hvers konar æði greip um sig í Alaska skömmu fyrir aldamótin 1900 og varði í um 30 ár?

Í þessari bók, SPURNINGABÓKINNI 2023, er spurt um allt milli himins og jarðar og því má nýta hana hvar og hvenær sem er.

Leiðbeinandi verð: 1.790-.

Útgáfuár: 2023

Fótboltaspurningar 2023

Hér er farið um víðan völl og auðvitað lætur enginn knattspyrnuunnandi þessa bók fram hjá sér fara.

Hver af þessum knattspyrnustjórum ber millinafnið Norbert: David Moyes, Jürgen Klopp eða Eddie Howe?

FHL er skammstöfun fyrir kvennalið á Austurlandi, en að baki því standa þrjú félög. Hvaða félög eru það?

Fyrir hvað stendur Pep í nafni pep Guardiola?

Hvaða ár fæddist Cristiano Ronaldo?

Hvaða þýska lið er stundum kallað „Gladbach“?

Þetta og margt, margt fleira í þessari bráðskemmtilegu bók, FÓTBOLTASPURNINGARNAR 2023.

Leiðbeinandi verð: 1.790-.

Útgáfuár: 2023

Hringferð um Gjögraskaga – Leiðarlýsing

Hér er á ferðinni traustur og skemmtilegur leiðarvísir gönguleiðarinnar um Fjörður og Látraströnd á Gjögraskaga. Til viðbótar við ljóslifandi, beinharða leiðarlýsingu þá er bókin hafsjór af fróðleik bæði frá fyrri tíð og eins hvað varðar staðhætti og örnefni. Hringferð um Gjögraskaga er prýdd fjölda ljósmynda auk landakorta og gsp hnita á þýðingarmiklum stöðum. Til að öllum henti þá er gönguleiðinni lýst bæði réttsælis og rangsælis.

Leiðbeinandi verð: 6.680-.

Útgáfuár: 2023

Hormónar og fleira fólk – Missannar sögur frá síðustu öld

Hallgrímur „redbody“ Hallgrímsson, stúdent við Kaupmannahafnarháskóla í byrjun síðustu aldar, kemst að alvarlegum afleiðingum áfengisdrykkju þegar kviknar í næturgagninu.

Ólafur Þ. Halldórsson er ráðinn dómtúlkur í eigin máli þegar hann er fundinn sekur um innflutning á tveimur pottflöskum af viskíi á bannárunum.

Líki þarf að koma á Hólmavíkurrútuna og Osvald Eyvindsson útfararstjóri fær aðstoð frá bókarhöfundi, Halldóri Ólafssyni, við flutninginn á dimmum vetrarmorgni.

Malarnám í Grábrók er stöðvað með vopnavaldi og fortölum jarðfræðinganna Tómasar Tryggvasonar og Sigurðar Þórarinssonar.

Beitilönd „astronauta“ á miðhálendinu eru könnuð og Guðmundur E. Sigvaldason jarðfræðingur kemur „hormóni“ frá Ameríku.

Þetta er bara örlítið brot af því sem lesa má um í þessari bráðskemmtilegu bók Halldórs Ólafssonar sem starfaði lengi sem tæknimaður á Norrænu eldfjallastöðinni og þar áður í allmörg ár hjá Olíuverslun Íslands. Störf hans fólu í sér ferðalög vítt og breitt um landið og leiddu til kynna af fjölmörgu fólki sem sumt kemur hér við sögu.

Leiðbeinandi verð: 6.480-.

Útgáfuár: 2023

Skagfirskar skemmtisögur 6 – Fjörið heldur áfram

Skagfirskar skemmtisögur 6 er síðasta bókin í þessum vinsæla bókaflokki sem Sauðkrækingurinn Björn Jóhann Björnsson hleypti af stokkunum á sínum tíma og heldur enn utan um. Bókin hefst á sögum af Bjarna Har kaupmanni, sem lést í byrjun árs, og er viðeigandi að hann gefi tóninn, enda var vandfundinn annar eins húmoristi. Þá eru hér sögur af Hvata á Stöðinni, Ýtu-Kela, séra Baldri í Vatnsfirði og mörgum öðrum snillingum, sem og glettnar gamanvísur, meðal annars úr orlofsferðum skagfirskra húsmæðra.

Leiðbeinandi verð: 3.980-.

Útgáfuár: 2022

Ég verð að segja ykkur – Ingvar Viktorsson lætur gamminn geisa

Hér lætur Ingvar Viktorsson, fyrrum kennari, bæjarstjóri og íþróttafrömuður, gamminn geisa og sögurnar eru óteljandi. Guðjón Ingi Eiríksson ritstýrði bókinni, en í ritnefnd voru auk hans Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Geirsson og Orri Þórðarson. Og það má alveg láta það fylgja með að ritstjórnin þurfti að beita Ingvar hörðu til að fá hann til að fallast á að segja okkur frá viðburðaríkri ævi sinni, en það tókst þó og ættu margir að hafa fróðleik og skemmtun af frásögn hans. Rétt er að láta eina sögu úr bókinni fylgja hér með:
Einu sinni ætlaði ég að fá vin minn og félaga, Þóri heitinn Jónsson, með mér í golfið og við fórum út á Hvaleyri. Ég stillti upp bolta og bað Þóri að fylgjast með. Ég valdi kylfu og sló, en hitti ekki boltann, reyndi aftur og það sama gerðist, ég hitti ekki boltann. Þegar mér hafði mistekist ætlunarverk mitt í þriðja skiptið missti Þórir þolinmæðina og sagði: „Þetta er helvíti sniðugt, en til hvers er boltinn?“

Leiðbeinandi verð: 7.680-.

Útgáfuár: 2022

Knattspyrnubærinn – 100 ára knattspyrnusaga Akraness

Knattspyrnufélagið Kári var stofnað af nokkrum ungum drengjum árið 1922. Stofnunin markar upphaf knattspyrnusögu Akraness. Knattspyrnuæði greip um sig meðal bæjarbúa og ekki sér enn fyrir endann á því. Skagamenn unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1951 og var það í fyrsta sinn sem Íslandsbikarinn yfirgaf höfðuborgina. Titlarnir komu á færibandi næstu áratugina og fljótlega varð Akranes þekkt sem knattspyrnubærinn. Þremur áratugum síðar hófu konur á Akranesi að keppa í knattspyrnu. Fyrsta Íslandsmót kvenna fór fram innanhúss árið 1971 og urðu Skagamenn fyrstu Íslandsmeistarar kvenna.

Hér er að finna sögur af forgöngumönnum knattspyrnunnar á Akranesi, baráttu Kára og Knattspyrnufélags Akraness, úttroðnum hrútspungum sem voru notaðir sem boltar, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli, bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem er samofin fótboltanum.

Leiðbeinandi verð: 8.980-.

Útgáfuár: 2022

Órói – Krunk hrafnanna

Hér er á ferðinni kynngimögnuð unglingabók, þar sem aðalpersónan, Svandís, flækist inn í spennuþrunginn ævintýraheim álfa, skuggafólks, kynjaskepna og drauga og auðvitað bankar ástin á dyrnar. Raunheimar og hulduheimar renna saman og það stefnir í blóðugan bardaga – en milli hverra?

Leiðbeinandi verð: 5.280-.

Útgáfuár: 2022

Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934-1966

Stofnun Ungmennafélagsins Sindra var mikil lyftistöng fyrir félagslíf ungs fólks á Höfn í Hornafirði. Saga félagsins ber vott um drifkraft og áræðni, það efndi til skemmtiferða, hélt sund- og íþróttanámskeið og starfrækti unglingaskóla í tvo vetur. Einnig reistu félagsmenn fyrsta samkomuhúsið á Höfn.

Leiðbeinandi verð: 6.980-.

Útgáfuár: 2022

Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin

Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson – Hrafna-Flóka – upp að Íslandsströndum. Ýmislegt fréttist af þessum blakka spekingi eftir það, löngum tengdist hann myrkravöldunum, var til dæmis sagður iðulega á flugi við inngang Vítis, sem átti að vera í þeirri eldspúandi Heklu, og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. En hann átti sér líka marga vini á fyrri tíð, sem gaukuðu að honum matarbita í vetrarhörkum og elskuðu hann og dáðu. Á því hefur engin breyting orðið.

Krummi er sagður vita lengra nefi sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja. Hann er eftirherma mikil og þjóðtrúin segir hann aukinheldur geta orðið 900 ára. Það er ekki lítið.

Í þessari bók er hrafninn skoðaður frá mörgum hliðum og víða leitað fanga og niðurstaðan er sú, að hann er engum líkur.

Fjöldi glæstra mynda eru í bókinni.

Leiðbeinandi verð: 12.480-.

Útgáfuár: 2022
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is