Útgáfuteiti
Fimmtudagur 24. nóvember 2011
Föstudaginn 25. nóvember verður haldið útgáfuteiti í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi vegna útgáfu fyrra bindinu af ævisögu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis frá Keldum á Rangárvöllum sem ber einfaldlega heitið Sigurður dýralæknir. Teitið hefst klukkan 17 og auðvitað verður þarna mikið fjör eins og Sigurðar er von og vísa.
Láttu sjá þig.
Elfríð
Mánudagur 14. nóvember 2011
Ein af útgáfubókum Hóla þetta árið er Elfríð – ævisaga Elfríðar Pálsdóttur sem fæddist í Þýskalandi og ólst þar upp á stríðsárunum. Margar magnaðar frásagnir eru í bókinni og hér er ein þeirra, lítillega stytt:
Einhverju sinni var ég stödd í Lübeck hjá móðursystur minni þegar Hermann, móðurbróðir minn, kom í frí og það urðu miklir fagnaðarfundir. Hermann var uppáhaldsfrændi minn. Hann átti einn son sem hét líka Hermann, aðeins yngri en ég og var hann með föður sínum og móður í þessari heimsókn. Við frændsystkinin fórum inn í herbergi og dunduðum okkur eitthvað með spil og spjölluðum saman. Mig langaði frekar að hlusta á Hermann, eldri frænda minn, hann var svo skemmtilegur og fyndinn. Mér fannst mjög óréttlátt að senda okkur afsíðis meðan hann var í heimsókn, það var alveg óþarfi að ræða um eitthvað sem krakkar máttu ekki heyra. Ég stakk upp á því við frænda minn, að læðast fram og hlera, ég hef líklega verið tólf eða þrettán ára. En það sem frændi sagði fólkinu var ekki ævintýri né þjóðsaga heldur ekta sakamálasaga.
Frændi var að segja ættingjunum frá ferðalaginu heim og hvað honum liði illa eftir hræðilega upplifun, en hann og nokkrir félagar hans höfðu villst frá herdeildinni í skóginum rétt við landamæri Póllands og þeir reikuðu þar um. Frændi minn og félagi hans urðu viðskila við hópinn og eftir langa og erfiða göngu komu þeir á stíg sem lá að afskekktum bóndabæ þar sem fullorðin kona rak greiðasölu. Þeim fannst þetta hin vingjarnlegasta frú og báðu hana um að færa sér eitthvað að snæða. Þegar þeir voru mettir fundu þeir til þreytu og ákváðu að hvíla sig áður en lengra væri haldið. Kerling bauð þeim félögum herbergi með tvíbreiðu rúmi og hölluðu þeir sér strax útaf, dauðþreyttir eftir gönguna. Þegar þeir voru búnir að liggja smástund og svefninn alveg að sigra þá, varð Hermann frændi órólegur og spurði félaga sinn hvort hann fyndi ekki einkennilega lykt inn í herberginu, eins konar rotnunarþef. Þeir ákváðu að rannsaka málið og þegar þeir opnuðu fataskápinn blasti við þeim hræðileg sjón, tveir hermenn lágu í skápnum klæddir þýska búningnum og voru þeir báðir skornir á háls. Þeim félögum brá illilega en þeir þurftu að taka til sinna ráða. Þeir tóku líkin tvö og lögðu í rúmið með þeim ummerkjum að það var eins og þeir svæfu í fletinu. Svo slökktu þeir á ljóstýrunum og létu sig hafa að fara inn í skápinn, þeir fundu ekki fyrir þreytu lengur, voru of skelkaðir af þessum óhugnaði sem þeir höfðu séð. Eftir töluvert langan tíma urðu þeir varir við að dyrnar voru opnaðar mjög gætilega. Þeir fylgdust með í gegnum rifu á skápnum og frá skímu af ganginum sem barst inn í herbergið sáu þeir kerlinguna læðast inn með rakhníf í hendi. Þegar hún beygði sig yfir rúmið stukku þeir út úr skápnum og gátu yfirbugað kerlinguna. Þessi kona eða öllu heldur norn í mannsmynd var búin að drepa fjöldann allan af þýskum hermönnum og voru þeir grafnir út í garði.
Skagfirskar skemmtisögur
Föstudagur 11. nóvember 2011
Ein af jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla í ár er Skagfirskar skemmtisögur sem Björn Jóhann Björnsson hefur tekið saman. Eftirfarandi sögur eru úr henni:
Kaupmaðurinn Bjarni Har. hefur löngum bjargað bæjarbúum og ferðamönnum um brýnustu nauðsynjar og verið til þjónustu reiðubúinn allan sólarhringinn ef því er að skipta. Hann getur jafnframt verið hrekkjóttur, ekki síst ef um pólitíska andstæðinga er að ræða.
Eitt sinn var haldinn félagsfundur á laugardegi hjá gamla Alþýðubandalaginu í Villa Nova, skammt frá verslun Bjarna. Var þetta rétt fyrir kosningar á Króknum. Uppgötvaðist þá að ekkert var til með kaffinu og voru menn sendir í innkaupaferð til Bjarna, sem tók vel á móti þeim og fór að tína saman drykki og eitthvað snarl með kaffinu í poka. Lét ekki þar við sitja heldur sagði að hann mætti til með að bæta smá lítilræði við og fór niður í kjallara. Kom þaðan upp með pokann fullan af veitingum og afhenti þeim félögum. Þeir tóku við pokanum, þökkuðu fyrir viðskiptin og sneru aftur til fundarins í Villa Nova. Veitingarnar voru teknar upp úr pokanum og neðst sáu þeir pakkann sem Bjarni hafði bætt við. Opnuðu þeir pakkann og kom þá í ljós að Bjarni hafði sent þeim smáfuglafóður!
*
Í gegnum tíðina hefur Bjarni haft ýmsa aðstoðarmenn og bensíntitti starfandi í versluninni. Einn veturinn kom ungur piltur frá Hofsósi til starfa, Pálmi Rögnvaldsson, síðar bankaútibússtjóri á Hofsósi. Fyrsta daginn hjá Pálma kom gömul kona snemma morguns inn í verslunina og spurði:
,,Áttu drullusokk, Bjarni minn?“
Bjarni benti þá á Pálma og sagði:
,,Já, bara þennan, en má ekki missa hann!“
*
Löngu síðar leit Pálmi við í versluninni hjá Bjarna Har., skömmu fyrir jól, og fór að rifja upp að nú væru 40 ár liðin frá því að hann aðstoðaði hann í versluninni.
,,Já, eru 40 ár liðin,“ sagði Bjarni, ,,þá hefði ég nú flaggað í hálfa væri stöngin ekki brotin!“
Sögur af Villa Þór
Föstudagur 21. október 2011
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson – Villi rakari – var jarðsettur í dag. Hann var mikill húmoristi og í bókinni Íslenskar gamansögur 2 er að finna nokkrar sögur sem ættaðar eru frá honum. Hér koma tvær þeirra:
Sæmundur heitinn Guðvinsson blaðamaður var fastur viðskiptavinur hjá Villa Þór árum saman. Eitt sinn kom hann í klippingu og vildi líka fá hárþvott og þar sem hann sat og hallaði sér afturábak yfir vaskinn fékk rakarinn flugu í höfuðið; greip skærin og klippti bindi Sæmundar í sundur rétt neðan við hnútinn. Sæmundur rak upp stór augu en Villi útskýrði þetta á sama hátt og Þorgeir Hávarsson útskýrði dráp smalamannsins í Fóstbræðrasögu – að það hefði staðið svo vel til höggs.
Villi Þór gaf Sæmundi tvö bindi í sárabætur en upp frá þessu kom Sæmundur aldrei í klippingu til Villa öðruvísi en með þverslaufu.
*
Villi Þór var knattspyrnudómari um langt skeið. Eitt sinn var hann að dæma knattspyrnuleik í Vestmannaeyjum og með honum voru að sjálfsögðu tveir línuverðir eða aðstoðardómarar eins og þeir kallast nú. Snemma í leiknum kom upp atvik þar sem Villa grunaði að um rangstöðu væri að ræða og leit hann því til þess línuvarðar sem átti að fylgjast með þeim vallarhelmingi. Þar var hins vegar litla hjálp að fá því umræddur línuvörður sneri baki í völlinn. Svipað atvik kom aftur fyrir skömmu síðar og í leikhléinu spurði Villi línuvörðinn nokkuð höstuglega hvað hann væri eiginlega að hugsa.
-Fyrirgefðu, stundi línuvörðurinn, – en ég hef bara aldrei áður komið til Vestmannaeyja og það er svo margt að sjá hérna.
Villi Þór látinn
Miðvikudagur 12. október 2011
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, hársnyrtir, er látinn 58 ára að aldri. Villi Þór var einn af þessum persónuleikum sem auðga mannlífið; hann var iðulega kátur og hress og með gamanyrði á vörum, þótt hann hefði mátt þola margt hin síðari ár. Sárastur var missir dóttur hans, Ástu Lovísu, sem lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein, en fleiri urðu áföllin og fékk hann svo sannarlega sinn skerf af þeim – og ríflega það.
Lífsreynslusaga Villa Þórs, Meðan hjartað slær, sem kom út fyrir þremur árum hjá Bókaútgáfunni Hólum, vakti mikla athygli. Þá bók, sem Sigurður Þór Salvarsson skráði, ættu allir að lesa. Þar kemur glögglega í ljós hversu sterkur persónuleiki Villi Þór var, sama hvað á gekk. Hann bognaði, en brotnaði aldrei og hefði svo sannarlega átt skilið að fá að njóta margra eftirlaunaára eftir allt sem á undan var gengið. En honum er greinilega ætlað annað hlutverk.
Blessuð sé minning hins ljúfa og skemmtilega drengs, Villa Þórs.
Guðjón Ingi Eiríksson
Smágrín
Mánudagur 10. október 2011
Maður bauð dömu í bíó um daginn, Hangover part 2 í Smárabíói. Hann sótti hana eins og herramanni sæmir, opnaði hurðina fyrir henni og hún sest inn. Þau leggja af stað en þá snýr hún sér að honum og segir:
-Ég vil bara að þú vitir að ég fer ekki alla leið á fyrsta deiti.
Svo hann lét hana út á Dalveginum …
Fótboltaspilið
Föstudagur 9. september 2011
Mig langar til að vekja athygli ykkar á nýju spili sem kemur út um mánaðarmótin. Það heitir FÓTBOLTASPILIÐ og er eftir knattspyrnuspekinginn Guðjón Inga Eiríksson. Það inniheldur 1800 fótboltaspurningar í sex flokkum, en þeir eru: Enski boltinn, Íslenski boltinn, Evrópuboltinn, Landsliðin, Út um víðan völl og 1 X 2. Spilið er fyrir alla sem fylgjast með fótbolta, jafnt unga sem aldna, en allt að sex geta spilað í einu (auðvitað geta verið fleiri en einn i liði). Það verður í fallegum kassa og leikspjaldið afar flott.
Leiðbeinandi verð spilsins verður kr. 7.980-, en ykkur býðst nú að kaupa það í forsölu á kr. 6.980. Hægt er að panta spilið á netfanginu holar@holabok.is, en einnig í símum 557-5270 og 587-2619. Ganga þarf frá greiðslu um leið og það er pantað, t.d. gefa upp greiðslukortanúmer + gildistíma þess og kennitölu viðkomandi (það verður ekki tekið út af kortinu fyrr en spilið hefur verið sent viðkomandi kaupanda). Einnig er hægt að greiða upphæðina inn á reikning Bókaútgáfunnar Hóla (þá gefur viðkomandi upp netfang sitt og hann verður svo látinn vita þegar spilið er tilbúið og leggur þá inn fyrir því).
Þetta er tvímælalaust jólagjöfin í ár fyrir knattspyrnuáhugafólkið.
Einn léttur!
Föstudagur 9. september 2011
-Ég ætla að skrifa upp á pillur fyrir þig, sagði læknirinn við offitusjúklinginn. -Þú átt ekki að taka þær inn. Fleygðu þeim bara í gólfið tvisvar á dag og taktu þær upp, eina í einu.
Einn stuttur – en góður!
Föstudagur 29. júlí 2011
Fjórir menn á níræðisaldri voru að leika golf. Einn þeirra kvartaði yfir því að hæðirnar væru of háar, annar að sandgryfjurnar væru of djúpar og sá þriðji sagði að of langt væri á milli holanna.
„Þegið þið bara!“ sagði sá fjórði. „Við erum að minnsta kosti réttum megin við grasið.“
Einn góður!
Miðvikudagur 20. júlí 2011
Prentarinn bilaði og Kalli fór með hann í viðgerð á tölvuverkstæðið. Í ljós kom að það þurfti að hreinsa gripinn og það kostaði 5.000 krónur. Vingjarnlegur viðgerðarmaður benti Kalla á að ef hann læsi vel upplýsingabæklinginn sem fylgdi prentaranum gæti hann líklega hreinsað hann sjálfur.
„Veit yfirmaður þinn af þessu? Það er ekki oft sem maður fær svona ráðleggingar,“ sagði Kalli.
„Ja, þetta er nú eiginlega hugmynd eigandans,“ sagði afgreiðslumaðurinn feimnislega. „Við græðum nefnilega miklu meira á viðgerðum þegar fólk er sjálft búið að reyna að gera við hlutina sína.“