Elfríð

Ein af útgáfubókum Hóla þetta árið er Elfríð – ævisaga Elfríðar Pálsdóttur sem fæddist í Þýskalandi og ólst þar upp á stríðsárunum.  Margar magnaðar frásagnir eru í bókinni og hér er ein þeirra, lítillega stytt:

Einhverju sinni var ég stödd í Lübeck hjá móðursystur minni þegar Hermann, móðurbróðir minn, kom í frí og það urðu miklir fagnaðarfundir. Hermann var uppáhaldsfrændi minn. Hann átti einn son sem hét líka Hermann, aðeins yngri en ég og var hann með föður sínum og móður í þessari heimsókn. Við frændsystkinin fórum inn í herbergi og dunduðum okkur eitthvað með spil og spjölluðum saman. Mig langaði frekar að hlusta á Hermann, eldri frænda minn, hann var svo skemmtilegur og fyndinn. Mér fannst mjög óréttlátt að senda okkur afsíðis meðan hann var í heimsókn, það var alveg óþarfi að ræða um eitthvað sem krakkar máttu ekki heyra. Ég stakk upp á því við frænda minn, að læðast fram og hlera, ég hef líklega verið tólf eða þrettán ára. En það sem frændi sagði fólkinu var ekki ævintýri né þjóðsaga heldur ekta sakamálasaga.
Frændi var að segja ættingjunum frá ferðalaginu heim og hvað honum liði illa eftir hræðilega upplifun, en hann og nokkrir félagar hans höfðu villst frá herdeildinni í skóginum rétt við landamæri Póllands og þeir reikuðu þar um. Frændi minn og félagi hans urðu viðskila við hópinn og eftir langa og erfiða göngu komu þeir á stíg sem lá að afskekktum bóndabæ þar sem fullorðin kona rak greiðasölu. Þeim fannst þetta hin vingjarnlegasta frú og báðu hana um að færa sér eitthvað að snæða. Þegar þeir voru mettir fundu þeir til þreytu og ákváðu að hvíla sig áður en lengra væri haldið. Kerling bauð þeim félögum herbergi með tvíbreiðu rúmi og hölluðu þeir sér strax útaf, dauðþreyttir eftir gönguna. Þegar þeir voru búnir að liggja smástund og svefninn alveg að sigra þá, varð Hermann frændi órólegur og spurði félaga sinn hvort hann fyndi ekki einkennilega lykt inn í herberginu, eins konar rotnunarþef. Þeir ákváðu að rannsaka málið og þegar þeir opnuðu fataskápinn blasti við þeim hræðileg sjón, tveir hermenn lágu í skápnum klæddir þýska búningnum og voru þeir báðir skornir á háls. Þeim félögum brá illilega en þeir þurftu að taka til sinna ráða. Þeir tóku líkin tvö og lögðu í rúmið með þeim ummerkjum að það var eins og þeir svæfu í fletinu. Svo slökktu þeir á ljóstýrunum og létu sig hafa að fara inn í skápinn, þeir fundu ekki fyrir þreytu lengur, voru of skelkaðir af þessum óhugnaði sem þeir höfðu séð. Eftir töluvert langan tíma urðu þeir varir við að dyrnar voru opnaðar mjög gætilega. Þeir fylgdust með í gegnum rifu á skápnum og frá skímu af ganginum sem barst inn í herbergið sáu þeir kerlinguna læðast inn með rakhníf í hendi. Þegar hún beygði sig yfir rúmið stukku þeir út úr skápnum og gátu yfirbugað kerlinguna. Þessi kona eða öllu heldur norn í mannsmynd var búin að drepa fjöldann allan af þýskum hermönnum og voru þeir grafnir út í garði.

Mánudagur 14. nóvember 2011
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is