Á tímum nauðsynlegrar hreyfingar!
Þriðjudagur 6. mars 2012
Læknirinn minn sagði mér að byrja á líkamsræktaræfingum – smátt og smátt. Átakið hjá mér hófst í dag, þá keyrði ég framhjá búð sem selur íþróttafatnað.
Einn góður!
Föstudagur 2. mars 2012
Unga fallega kennslukonan hafði áhyggjur af 11 ára nemanda sínum. Hún dró hann afsíðis einn daginn og sagði við hann:
„Viktor minn, ég hef tekið eftir því að þér gengur illa í skólanum þessa dagana. Viltu segja mér hvað amar að þér?“
„Ég á svo erfitt með að einbeita mér,“ svaraði Viktor. „Ég er ástfanginn.“
„Er það virkilega?“ sagði kennslukonan og reyndi að fela bros. „Hver er sú heppna?“
„Þú,“ var svarið.
„Já, en Viktor,“ kallaði kennslukonan upp yfir sig, ánægð en breytti ekki um svip. „Auðvitað langar mig að eignast eiginmann einhvern daginn en ég hafði ekki hugsað mér barn.“
„Hafðu ekki áhyggjur,“ sagði Viktor. „Mig langar heldur ekki í barn strax.“
Einn léttur!
Fimmtudagur 23. febrúar 2012
Stundum þegar þú grætur sér engin tár þín.
Stundum þegar þú hefur áhyggjur tekur enginn eftir vanlíðan þinni.
Stundum þegar þú ert að springa úr hamingju sér þig enginn brosa.
En ef þú prumpar …
Bókamarkaðurinn
Fimmtudagur 23. febrúar 2012
Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda hefst í Perlunni á morgun, föstudaginn 25. febrúar, og verður á fullu dampi alveg fram yfir þriðju helgi héðan í frá. Þarna er hægt að gera feikilega góð kaup, m.a. eru bækurnar frá Hólum á mjög góðu verði. Einnig Fótboltaspilið.
Dauðinn í Dumbshafi á Kiljunni
Fimmtudagur 26. janúar 2012
DAUÐINN Í DUMBSHAFI var til umfjöllunar í Kiljunni í gær og fóru Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson mjög lofsamlegum orðum um bókina sem þess utan hefur fengið frábærar viðtökur og rokseldist fyrir jólin. Þeir sem vilja hlusta á umfjöllunina á Kiljunni geta farið á þessa slóð: http://www.youtube.com/watch?v=3mkb4pqxPgo
Gleðileg jól
Föstudagur 23. desember 2011
Ágæta bókafólk og aðrir landsmenn.
Bókaútgáfan Hólar þakkar fyrir frábærar viðtökur á bókum sínum þessi jólin og óskar öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Læt svo fylgja með smáskop úr Bylgjufréttunum í dag:
-Almannavarnir vara við veðurspá Veðurstofunnar….
Lifið heil,
Guðjón Ingi
Hólabækurnar renna út
Föstudagur 9. desember 2011
Það er gaman að segja frá því að bækurnar frá Bókaútgáfunni Hólum renna út þessa dagana. Nýjasta afkvæmið, Dauðinn í Dumbshafi, selst grimmt og 1. prentun er uppseld (2. prentun á leiðinni). Skagfirskar skemmtisögur stoppa ekki og 3. prentun af þeirri bráðsmellnu bók er væntanlegt eftir helgina. Af Elfríði er 2. prentun á leið í búðirnar og þá er 3. prentun af Sigurði dýralækni skammt undan. Þessar bækur eru í gríðarmikilli sölu og einnig Á afskekktum stað, Fjör og manndómur og Svarfaðardalsfjöll. Þá hefur Fótboltaspilið tekið mikinn kipp að undanförnu.
Já, bækurnar frá Hólum sem og Fótboltaspilið eru að slá í gegn.
Dauðinn í Dumbshafi
Fimmtudagur 1. desember 2011
Þá er hún loksins komin út: Dauðinn í Dumbshafi, eftir Magnús Þór Hafsteinsson – mögnuð bók um skipalestirnar sem fóru frá Hvalfirði til Rússlands í seinni heimsstyrjöldinni með vopn, vistir, lyf og sitthvað fleira handa Rússum. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fékk afhent fyrsta eintak bókarinnar á Bessastöðum í gær, fimmtudaginn 30. nóv., og má sjá myndir af því á slóðinni www.magnusthor.blog.is og eins af frétt um bókina og viðfangsefni hennar sem birtist í Kastljósinu, þriðjudaginn 28. nóv. og vakti mikil viðbrögð.
Útgáfuteiti
Fimmtudagur 1. desember 2011
Útgáfuteiti vegna útkomu bókarinnar Sigurður dýralæknir verður haldið í Eymundsson á Skólavörðustíg kl. 17 á morgun, föstudaginn 2. desember. Þarna verður vafalítið mikið fjör, Sigurður mun fara á kostum eins og hans er von og vísa og ekki mun Gunnar Finnsson, sem hélt utan um skrif hans, liggja á liði sínu.
Allir velkomnir.
Upplestur Sigurðar dýralæknis
Laugardagur 26. nóvember 2011
Þeir sem vilja hlusta á Sigurð Sigurðarson lesa upp kafla úr ævisögu sinni, Sigurður dýralæknir, geta farið inn á þessa slóð:
http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1206739/