Nýjasta útgáfa Hóla



Frábær ritdómur!

Eðalbókin, Skagfirskar skemmtisögur 5, fékk frábæran ritdómi í hjá Reyni Traustasyni í Stundinni. Fyrirsögnin var: „Drepfyndnar gamansögur“. Síðan segir m.a. um bókina: „Það leiðist engum lesturinn, hvar svo sem ræturnar liggja. Lesandinn engist á köflum sundur og saman af hlátri.“ Þá er bara að vona að sem flestir geti gripið í bókina.

Laugardagur 3. desember 2016

Útgáfuteiti og Siglfirðingakvöld

Þann 24. nóvember síðastliðinn var haldið útgáfuteiti vegna bókarinnar Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar. Fór það fram í Safnaðarheimili Grafarvogskirkju og mættu þangað um 100 manns. Sama dag, eða öllu heldur þá um kvöldið, var haldið Siglfirðingakvöld og þar sagði séra Vigfús Þór frá bókinni „og fór á kostum“ eins og einn viðstaddra sagði. Fleiri bækur voru þar einnig kynntar en myndir frá „kvöldinu“ má sjá á þessari slóð: http://www.siglfirdingur.is/myndir-fra-siglfirdingakvoldi/

Laugardagur 26. nóvember 2016

Útgáfuteiti þ. 24. nóvember 2016

Nýlega kom út bókin VILJI ER ALLT SEM ÞARF – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur skráð. Af því tilefni verður haldið útgáfuteiti í Safnaðarheimili Grafarvogskirkju fimmtudaginn 24. nóvember kl. 17:00. Þar verður lesið úr bókinni og hún árituð, en einnig verður boðið upp á glæsileg tónlistaratriði: Kór Grafarvogskirkju og Vox Populi munu syngja. Einsöngvarar eru „óperudrottningin“ Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson og kórstjórar þeir Hákon Leifsson og Hilmar Örn Agnarsson.
Ljúffengar veitingar verða í boði. Allir eru velkomnir.

Bókaútgáfan Hólar og ritnefnd bókarinnar

Laugardagur 19. nóvember 2016

Gústi guðsmaður

Það er vert að vekja athygli á því að í endurminningum séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, Vilji er allt sem þarf, er fjallað í þó nokkuð löngu máli um Siglfirðinginn Gústa guðsmann. Hann var einsetukarl og sjómaður, veiddi fisk á báti sínum sem hann réri einn á og gaf andvirði aflans til bágstaddra út um allan heim. Hann var því ekki að skara eld að eigin köku – eins og er svo algengt meðal fólks í dag – heldur lét þá njóta sem minna máttu sín og eiga margir honum mikið að þakka.
Umrædd frásögn er snilldarvel skrifuð, eins og reyndar öll bókin, en því miður hefur Gústi guðsmaður legið óbættur hjá garði fram að þessu.
Svo má bæta því við að sennilega hafa fáir talað í eigin jarðarför – en það gerði Gústi guðsmaður og „hrukku margir kirkjugesta við þegar hann hóf upp raust sína“.

Mánudagur 14. nóvember 2016

Jólabækurnar 2016

Jólabækur Bókaútgáfunnar Hóla eru að koma út um þessar mundir. Bestu barnabrandararnir – meiriháttar, Spurningabókin 2016, Fótboltaspurningarnar 2016, Leynilíf gæludýranna, Öeindirnar, alheimurinn, lífið – og Guð, Sigurðar sögur dýralæknis, Djúpmannatal 1801-2011 og Flugsaga fara í búðirnar seinni hlutann í þessari viku og í byrjun þeirrar næstu bætast við Skagfirskar skemmtisögur 5 og Héraðsmannasögur. Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar bætast svo við um miðjan nóvember. Áður útkomnar á árinu eru: Pétrísk-íslensk orðabók, Fjöllin í Grýtubakkahreppi og Lars Lagerbäck og íslenska landsliðið.

Rétt er að vekja athygli á því að auðvitað er hægt að panta bækurnar beint frá Hólum í netfanginu holar@holabok.is eða í síma 587-2619.

Sunnudagur 30. október 2016

Vilji er allt sem þarf – endurminningar séra Vigfúsar Þórs Árnasonar

vilji-er-allt-sem-tharf

Séra Vigfús Þór Árnason lét af störfum fyrr á þessu ári eftir að hafa þjónað sem sóknarprestur í 40 ár, fyrst á Siglufirði og seinni hluta starfsævinnar í Grafarvogi. Vigfús Þór hefur oft farið ótroðnar slóðir og segir hér sögu sína hispurslaust og af hreinskilni, gædda því einstaka skopskyni sem honum er svo eðlislægt að beita.

Hér segir meðal annars frá:

  • giftingu í sandkassa,
  • sögulegri heimsókn „lyktandi“ guðfræðinema til Færeyja,
  • ýmsum atburðum í lögreglunni,
  • jarðarför Gústa guðsmanns sem sjálfur hóf upp raustina í eigin kveðjustund,
  • sáttafundum hjóna í ræstikompu,
  • fyrstu klukknahringingunni í Grafarvogskirkju – sem ekki var af mannavöldum,
  • óvæntri diskóljósamessu.

VILJI ER ALLT SEM ÞARF er bæði bráðskemmtileg og fróðleg bók; kitlar hláturtaugarnar og veitir lesandanum jafnframt innsýn í starf prestsins, sem er fjölbreyttara en margur heldur.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Útgáfuár: 2016

Héraðsmannasögur – gamansögur af Héraði

heradsmannasogur

Hákon Aðalsteinsson fær próflausan ungling, Sigurð G. Tómasson, til að rúnta með sig um Héraðið.  Hrafn á Hallormsstað útskýrir veru sína í Framsóknarflokknum. Frissi í Skóghlíð segir vel líta út með flug til Vopnafjarðar. Vilhjálmur á Skjöldólfsstöðum kærir lögregluna. Þráinn Jónsson er alls staðar. Aðalsteinn á Vaðbrekku á við sérkennilegt áfangisvandamál að stríða. Baldur Pálsson segir frá eðlisfræðitilraunum á Jökuldal.  Séra Sigurjón á Kirkjubæ verður að halda áfram að jarða þrátt fyrir að vera kominn á eftirlaun og Sigríður Rósa Kristinsdóttir sendir Sverri Hermannssyni tóninn. Eru þá fáir upptaldir af þeim sem koma hér við sögu. Og svo er spurt: Er samvinnuhreyfingin tómt klám?

Leiðbeinandi verð: 3.280-.

Útgáfuár: 2016

Skagfirskar skemmtisögur 5

skagfirsk-5Hér kennir margra grasa. Séra Þórir Stephensen er kallaður til skítverka á Sauðárkróki. Stína Sölva heldur þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera Álftagerðisbræður. Kári Valla makar á sig súkkulaði í sturtunni. Ása Öfjörð klárar messuvínið. Egill Bjarna sendir Sigga Guðjóns út í kjörbúð að kaupa skyr. Það raknar úr garnaflækju hjá Valla Jóns.  Jóhann Salberg sýslumaður býður forseta Íslands Ópal. Steingrímur á Silfrastöðum segir kirkjuna rúma heilt helvíti. Andrés Valberg selur sömu hauskúpuna tvisvar. Rúnki predikari bölsótar steinbítnum.  Sölvi Helgason hrækir í Hróarsdal og Seðlabankamenn hringja í Hörð á Hofi. Þá er sagt frá ævintýralegum hestaviðskiptum við Stebba á Keldulandi og bókin endar á smásögunni Raunir á Reyðarskeri.

Skagfirskar skemmtisögur 5 er ávísun á taumlausa skemmtun.

Leiðbeinandi verð: 3.280-.

Útgáfuár: 2016

Flugsaga

flugsaga

Saga flugsins hefst ekki með flugi Wright-bræðra fyrir liðlega öld — heldur mun fyrr. Hér er hún rakin til þess tíma þegar menn stukku úr turnum eða fram af klettum og fórnuðu margir limum og lífi og vísindamenn teiknuðu framúrstefnuleg loftför sem aldrei flugu, með viðkomu í styrjöldum sem höfðu mikil áhrif á þróun flugvéla og fleira mætti nefna. Þá er hér ágrip af flugsögu Íslands.

Þessa bók lætur enginn flugáhugamaður fram hjá sér fara.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Útgáfuár: 2016

Sigurðar sögur dýralæknis

sigurdar-sogur

Sigurður Sigurðarson dýralæknir frá Keldum er magnaður sagnamaður og lætur hér gamminn geysa eins og honum einum er lagið. Sagðar eru sögur af prestum, stjórnmálamönnum, læknum, sjúklingum og skepnum og örugglega skella margir upp úr við lestur þeirra – svo bráðsmellnar eru þær.

Baldur í Vatnsfirði jarðar framsóknarmenn. Sigurbjörn biskup fer með kvöldbænirnar. Halldóri í Holti er tíðrætt um mykjudreifara og Jón Ísleifsson skiptir um föt.  Ólafur Thors sefur fram eftir, liðmús er á leið upp eftir konu í Eyjafirði og Smali Jónsson ríður berbakt.

Leiðbeinandi verð: 3.480-.

Útgáfuár: 2016
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is