Nýjasta útgáfa Hóla
Skagfirskar skemmtisögur 6 – Fjörið heldur áfram
Skagfirskar skemmtisögur 6 er síðasta bókin í þessum vinsæla bókaflokki sem Sauðkrækingurinn Björn Jóhann Björnsson hleypti af stokkunum á sínum tíma og heldur enn utan um. Bókin hefst á sögum af Bjarna Har kaupmanni, sem lést í byrjun árs, og er viðeigandi að hann gefi tóninn, enda var vandfundinn annar eins húmoristi. Þá eru hér sögur af Hvata á Stöðinni, Ýtu-Kela, séra Baldri í Vatnsfirði og mörgum öðrum snillingum, sem og glettnar gamanvísur, meðal annars úr orlofsferðum skagfirskra húsmæðra.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Útgáfuár: 2022Ég verð að segja ykkur – Ingvar Viktorsson lætur gamminn geisa
Hér lætur Ingvar Viktorsson, fyrrum kennari, bæjarstjóri og íþróttafrömuður, gamminn geisa og sögurnar eru óteljandi. Guðjón Ingi Eiríksson ritstýrði bókinni, en í ritnefnd voru auk hans Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Geirsson og Orri Þórðarson. Og það má alveg láta það fylgja með að ritstjórnin þurfti að beita Ingvar hörðu til að fá hann til að fallast á að segja okkur frá viðburðaríkri ævi sinni, en það tókst þó og ættu margir að hafa fróðleik og skemmtun af frásögn hans. Rétt er að láta eina sögu úr bókinni fylgja hér með:
Einu sinni ætlaði ég að fá vin minn og félaga, Þóri heitinn Jónsson, með mér í golfið og við fórum út á Hvaleyri. Ég stillti upp bolta og bað Þóri að fylgjast með. Ég valdi kylfu og sló, en hitti ekki boltann, reyndi aftur og það sama gerðist, ég hitti ekki boltann. Þegar mér hafði mistekist ætlunarverk mitt í þriðja skiptið missti Þórir þolinmæðina og sagði: „Þetta er helvíti sniðugt, en til hvers er boltinn?“
Leiðbeinandi verð: 7.680-.
Útgáfuár: 2022Knattspyrnubærinn – 100 ára knattspyrnusaga Akraness
Knattspyrnufélagið Kári var stofnað af nokkrum ungum drengjum árið 1922. Stofnunin markar upphaf knattspyrnusögu Akraness. Knattspyrnuæði greip um sig meðal bæjarbúa og ekki sér enn fyrir endann á því. Skagamenn unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1951 og var það í fyrsta sinn sem Íslandsbikarinn yfirgaf höfðuborgina. Titlarnir komu á færibandi næstu áratugina og fljótlega varð Akranes þekkt sem knattspyrnubærinn. Þremur áratugum síðar hófu konur á Akranesi að keppa í knattspyrnu. Fyrsta Íslandsmót kvenna fór fram innanhúss árið 1971 og urðu Skagamenn fyrstu Íslandsmeistarar kvenna.
Hér er að finna sögur af forgöngumönnum knattspyrnunnar á Akranesi, baráttu Kára og Knattspyrnufélags Akraness, úttroðnum hrútspungum sem voru notaðir sem boltar, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli, bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem er samofin fótboltanum.
Leiðbeinandi verð: 8.980-.
Útgáfuár: 2022Órói – Krunk hrafnanna
Hér er á ferðinni kynngimögnuð unglingabók, þar sem aðalpersónan, Svandís, flækist inn í spennuþrunginn ævintýraheim álfa, skuggafólks, kynjaskepna og drauga og auðvitað bankar ástin á dyrnar. Raunheimar og hulduheimar renna saman og það stefnir í blóðugan bardaga – en milli hverra?
Leiðbeinandi verð: 5.280-.
Útgáfuár: 2022Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934-1966
Stofnun Ungmennafélagsins Sindra var mikil lyftistöng fyrir félagslíf ungs fólks á Höfn í Hornafirði. Saga félagsins ber vott um drifkraft og áræðni, það efndi til skemmtiferða, hélt sund- og íþróttanámskeið og starfrækti unglingaskóla í tvo vetur. Einnig reistu félagsmenn fyrsta samkomuhúsið á Höfn.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Útgáfuár: 2022Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin
Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson – Hrafna-Flóka – upp að Íslandsströndum. Ýmislegt fréttist af þessum blakka spekingi eftir það, löngum tengdist hann myrkravöldunum, var til dæmis sagður iðulega á flugi við inngang Vítis, sem átti að vera í þeirri eldspúandi Heklu, og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. En hann átti sér líka marga vini á fyrri tíð, sem gaukuðu að honum matarbita í vetrarhörkum og elskuðu hann og dáðu. Á því hefur engin breyting orðið.
Krummi er sagður vita lengra nefi sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja. Hann er eftirherma mikil og þjóðtrúin segir hann aukinheldur geta orðið 900 ára. Það er ekki lítið.
Í þessari bók er hrafninn skoðaður frá mörgum hliðum og víða leitað fanga og niðurstaðan er sú, að hann er engum líkur.
Fjöldi glæstra mynda eru í bókinni.
Leiðbeinandi verð: 12.480-.
Útgáfuár: 2022Jólasveinarnir í Esjunni
Lalli er nýkominn úr erfiðum fótboltaleik og nennir ekki að fara með foreldrum sínum og Dísu systur sinni á Esjuna að honum loknum. Hann er dauðþreyttur en fer þó samt og sér ekki eftir því. Þetta stórskemmtilega ævintýri gerist að stórum hluta í heimkynnum jólasveinanna – sjálfri Esjunni. Þar fáum við að kynnast þeim nánar og auðvitað Grýlu og Leppalúða sem eru kannski ekki eins og flestir halda.
Bókin byggir að stórum hluta á ævintýri, sem varð til í huga Lárusar Hauks Jónssonar – Lalla – fyrir mörgum árum. Guðjón Ingi Eiríksson færði það síðan í letur og bætti við hér og þar. Útkomann úr samstarfi þeirra félaga er þessi frábæra bók sem skartar teikningum hins snjalla listamanns, Haralds Péturssonar.
Hver af jólasveinunum skyldi annars hafa mikinn áhuga á fótbolta?
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Útgáfuár: 2022Líkið er fundið – sagnasamtíningur af Jökuldal
Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sér „draug“. Kolbeinn Arason flýgur með lík. Gunnar á Fossvöllum fullyrðir að Akureyrardeildin í Helvíti sé full. Þuríður Hallgrímsdóttir á Brú fær bréf frá hatursmanni sínum. Jón í Möðrudal auglýsir eftir ráðskonu. Séra Sigurjón Jónsson býr til nýtt Faðirvor. Reiðhestur úr Hrafnkelsdal stendur á haus inni við Kárahnjúka. Baldur Pálsson frá Aðalbóli segir frá eðlisfræðitilraunum og Haukur á Hauksstöðum fer sér til hressingar á Heilsuhælið í Hveragerði en fær þá óvænt skeyti frá Hákoni Aðalsteinssyni.
Í þessari bók er ógrynni skemmtilegra sagna og vísna, enda eru Jökuldælingar þekktir fyrir létta lund langt aftur í ættir og leyfa nú öðrum að njóta þess með sér.
Leiðbeinandi verð: 6.580-.
Útgáfuár: 2022Fótboltaspurningar 2022
Hvaða lið spilar heimaleiki sína á Hásteinsvelli?
Hvaða íslenska knattspyrnukona, sem er fædd árið 1985, á þennan knattspyrnuferil með félagsliðum: FH, KR, FH, Þróttur R,m Valur, 1. FC Saarbrücken, Kristianstads DFF og Selfoss?
Frá hvaða liði keypti Liverpool framherjann Darwin Nunez?
Hver var knattspyrnustjóri Manchester United þegar Marcus Rashford lék fyrsta leik sinn fyrir félagið?
Hver var númer 4 í íslenska kvennalandsliðinu á Evrópumótinu 2022?
Þetta og margt fleira er að finna í þessari bráðskemmtilegu bók, sem enginn knattspyrnuunnandi lætur fram hjá sér fara.
Leiðbeinandi verð: 1.790-.
Útgáfuár: 2022Stundum verða stökur til
Bragsnillingurinn Hjálmar Jónsson fer hér á kostum í leiftrandi kveðskap og frásögnum. Skemmtileg atvik og viðburðir verða ljóslifandi og samskipti við fólk í gleði og gáska kitla hláturtaugarnar svo um munar. Einnig er í bókinni dýpri kveðskapur. Rauði þráðurinn er þó alltaf hjartahlýjan og húmorinn.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Útgáfuár: 2022