Samsærið gegn Bandaríkjunum

samsaerid

Lykilatburðum er jafnan gefið mikið vægi í mannkynssögunni, rétt eins og í frásögnum og sögum. Einstaklingsörlög eru þannig tvinnuð saman við almenn örlög; söguhetjan ræður eða er látin ráða gangi sögunnar/Sögunnar. Hending hlýtur því að leika stórt hlutverk í mannkynssögunni og lítill atburður (jafnvel vængjasláttur fiðrildis?) getur leitt af sér gjörbreytta niðurstöðu eða ástand.

Í Samsærinu gegn Bandaríkjunum breytir höfundurinn gangi sögunnar með því að hnika til einum kosningaúrslitum í Bandaríkjunum í upphafi seinni heimstyrjaldar, nánar tiltekið í forsetakosningunum í nóvember 1940. Þessar kosningar vann frambjóðandi demókrataflokksins með yfirburðum og Franklin Delano Roosevelt (FDR) varð því fyrsti Bandaríkjaforseti til að sitja þrjú tímabil á valdastóli. Roosevelt lýsti eins og kunnugt er stríði á hendur Þjóðverjum og öxulveldunum og þátttaka Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöld kom þar með í veg fyrir sigur nasista.

En hvað ef…? Hvað ef fulltrúi Repúblikanaflokksins hefði unnið téðar kosningar? Þar í flokki voru ýmsir hreint ekki fráhverfir röggsemi Hitlers; flokkurinn talaði í það minnsta gegn þátttöku í stríðinu. Það má því velta því fyrir sér hvort sigur þeirra í kosningunum 1940 hefði breytt gangi stríðsins. Hefðu fasískar einræðisstjórnir orðið ríkjandi stjórnarform í hinum vestræna heimi?

Í stað FDR kemur Roth, forsetaefni Repúblikana, í Hvíta húsið. Þetta er enginn annar en Charles A. Lindbergh flugkappi sem fyrstur flaug yfir Atlantshafið, frá New York til Parísar, á einþekjunni Spirit of St. Louis. Höfundur lætur s.s. Lindbergh mæta á hárréttri stundu á kosningafund Repúblikana í miðri frambjóðendakreppu; menn geta ekki komið sér saman um nokkurn frambjóðanda gegn FDR. Þá birtist Lindbergh, gengur inn salinn í fullum skrúða flugkappans og heillar fundinn (án þess að segja orð) gjörsamlega, frelsarinn kominn: „Lindy! Lindy! Lindy!“

Sagan í bókinni gerist fyrir rúmum 60 árum og er að mestu æskuminningar sögupersónunnar Philips Roths en sá er meira en lítið skyldur höfundinum (þetta er ekki í fyrsta sinn sem Roth setur sjálfan sig eða nafna sína á svið í skáldsögu). Sagan byggir á sannsögulegum atburðum og raunverulegum persónum, þekktum sem minna þekktum. Eins og áður segir þá hnikar Roth til atburðum til annars konar veraldarsögu. Í stuttu máli: Lindbergh (sem í raun dáði Hitler, þáði orðu þriðja ríkisins og var þekktur gyðingahatari) verður forseti og Bandaríkin fara nærri því að verða fasistaríki og gyðingaofsóknir hefjast af fullum krafti.

Samsærið gegn Bandaríkjunum er forvitnileg saga sem greinir frá fordómum, einkum gegn gyðingum. Sagan býður upp á skemmtilegar vangaveltur um sögulega atburði. En hún er líka umsögn um stjórnmálalegt ástand í heiminum í dag og sérstaklega um ástandið í Bandaríkjunum. Þessa stundina situr þar við stjórn maður sem er ekki minni lýðskrumari en Lindbergh í skáldsögunni, maður sem er hættulegur friði í heiminum og sem hefur þegar att fíflum á forað í Írak – kollegum sínum (t.d. forsætisráðherra Bretlands) og taglhnýtingum (t.d. f.v. forsætisráðherrum Íslands).

Leiðbeinandi verð: 4.380-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2006
Efnisflokkun: Bækur, Skáldsögur

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is