
Nýjasta útgáfa Hóla
Vísnagátur
Í þessari bók eru 120 vísnagátur. Í hverri gátu er sama lausnarorðið í öllum línum en með fjórum mismunandi merkingum, þó í örfáum tilfellum þremur eða fimm. Tökum örlétt dæmi:
Stjörnumerki á himni há,
heiti líka manni á,
heyið flytur heim í tótt,
í honum barnið sefur rótt.
Hér er lausnarorðið vagn, Karlsvagn, sérnafnið Vagn, heyvagn og barnavagn.
Gáturnar eru í þessum dúr – skemmtileg heilaleikfimi fyrir alla fjölskylduna og auk þess fræðandi um íslenskt mál.
Leiðbeinandi verð: 2.480-.
Útgáfuár: 2012KenKen-talnaþrautir 1 og 2
KenKen-talnaþrautirnar voru fundnar upp af japanska stærðfræðikennaranum Tetsuya Miyamoto. Þrautirnar eru miserfiðar, sumar laufléttar, aðrar býsna strembnar. KenKen-talnaþrautirnar hafa náð miklum vinsældum um allan heim og henta jafnt ungum sem gömlum. Í bók nr. 1 eru léttari þrautir, en verða þó nokkuð erfiðar þegar aftar í bókina kemur, en í þeirri nr. 2 eru þær býsna erfiðar. Hvor bók um sig inniheldur 100 þrautir.
Leiðbeinandi verð hvorrar bókar er. 1.980-.
Útgáfuár: 2012Glettur og gamanmál
Vilhjálmur Hjálmarsson, Villi á Brekku, er bæði góður sögumaður og mikill húmoristi. Í þessari bók fer hann á kostum eins og svo oft áður og segir gamansögur af sér og samferðafólki sínu og stíga hér margir fram á sviðið, jafnt stjórnmálamenn sem aðrir. Hér kemur ein saga úr bókinni:
Það átti að vígja nýtt skólahús í Vík í Mýrdal kl. 14:00 á laugardegi auðvitað. Við Ágúst bílstjóri tókum daginn snemma. Ég hafði krotað niður kvöldið áður það sem ég ætlaði að segja. Við vorum komnir austur um hádegi og settumst inn á Víkurskála að fá okkur hressingu. En brátt er ég kvaddur í síma.
Í símanum er Jón Einarsson skólastjóri. Hann kvaðst hafa heyrt að ég væri kominn í plássið. Segist vera að vinna í nýja húsinu og spyr hvort ég hafi ekki gaman af að líta inn. Jú, ég játa því. Svo þurfi ég nú að fara heim með honum og snyrta mig fyrir vígsluna.
Jón svaraði og heldur seint að nógur tími væri að tala um það – hún væri áformuð eftir hálfan mánuð!
Mér brá hroðalega og þótti þetta flan mitt hið versta mál. Á leiðinni fram í matsal kom ég þó auga á ljósan punkt í stöðunni – verri hefði hún getað orðið! Margrét kona mín hafði neitað að koma með. Það var skárra! Ég spurði Ágúst hvort hann hefði nokkurn tíma farið með forvera mína, Gylfa Þ. og Magnús Torfa, fyrir boðaðan tíma. Hann hugsaði sig um og svaraði: „Ekki svona langt.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Lán í óláni
Hér slær Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri, á léttu nóturnar og útkoman er vægast sagt bráðfyndin. Vísurnar eru gjarnan tengdar atburðum og umræðuefnum í samfélaginu og þá bent á spaugilegan flöt málanna til að gera tilveruna agnarlítið skemmtilegri.
Leiðbeinandi verð: 2.480-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Pétrísk-íslensk orðabók – með alfræðiívafi
Séra Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins og æskulýðsfulltrúi á Grund, hefur um árabil samið og safnað saman skrýtnum og skemmtilegum orðum til að setja í stað hinna hversdagslegu og litlausu. Hvað ætli þessi orð merki hjá séra Pétri: Afbökun? Bakflæði? Einvígi? Landafundir? Óefni? Þú færð svörin við þessu í Pétrísk-íslensku orðabókinni sem að sjálfsögðu er með alfræðiívafi.
Leiðbeinandi verð: 2.280-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Úr hugarheimi – í gamni og alvöru
Í þessari bók er að finna safn hugleiðinga Bjarna E. Guðleifssonar, náttúrufræðings og göngugarpa á Möðruvöllum í Hörgárdal, um margvísleg efni svo sem tímann, frelsið, meðalmennskuna, fegurð, erfðir, menningu og girðingar. Sumar þeirra eru alvarlegar, aðrar í léttari kantinum og vafalítið finnur margur þarna eitthvað við sitt hæfi. Ritið er jafnframt afmælisrit Bjarna, en hann varð sjötugur í sumar.
Leiðbeinandi verð: 3.890-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Handknattleiksbókin I-II
Í þessu glæsilega tveggja binda verki er rakin saga handknattleiksins á Íslandi. Ævintýrið hófst árið 1920 og spannar bókin yfir 90 ár, eða til 2010. Fjallað er rækilega um upphaf þessarar íþróttagreinar, sem ávallt hefur snert sterkar taugar í þjóðarsálinni, og þá menn sem mörkuðu fyrstu sporin. Íslandsmótinu eru gerð góð skil sem og bikarkeppninni og Evrópuleikjum félagsliðanna. Og vitaskuld fer feikimikið púður í landsliðin okkar sem borið hafa hróður lands og þjóðar víða um heim.
Handknattleiksbókina I-II ættu allir unnendur handknattleiks sem og íþrótta almennt að lesa.
Leiðbeinandi verð: 18.900-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Dauðinn í Dumbshafi – kilja
Þá er hin vinsæla bók, Dauðinn í Dumbshafi, eftir Magnús Þór Hafsteinsson, komin í kilju. Hún hefur vægast sagt fengið frábæra dóma og er skemmst að minnast umsagnar Kolbrúnar Bergþórsdóttur, Páls Baldvins Baldvinssonar og Egils Helgasonar um bókina í Kiljunni sl. janúar.
Hvað efnisþætti bókarinnar varðar þá er vísað til kaflans hér að neðan.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2012Dauðinn í Dumbshafi
Viðfang þessarar bókar, skipalestir, sem fluttu vopn og vistir frá Vesturveldunum yfir Atlantshaf og austur með íshafsströnd Evrasíu til sovéskra hafna, er merkur kafli í sögu síðari heimsstyrjaldar ‒ og í sögu Íslands:
Hinn 23. júní 1941 réðst þýski herinn fyrirvaralaust inn í Sovétríkin, og sóttist hratt í leifturstríði framan af, svo jafnvel var búist við endanlegum sigri yfir Rússlandi vestan Úralfjalla um eða fyrir veturinn. Þannig hefðu Þjóðverjar komist yfir gífurlegar auðlindir, þar með olíu í Kákasus, sem hefði eflt hernaðarmátt þeirra til muna og að sama skapi veikt stöðu Breta og bandamanna þeirra.
Vesturveldin sáu þá leið vænlegasta til að styrkja Sovétmenn, og létta um leið álagi af eigin herjum og borgurum, að senda þessum nýju bandamönnum sem mest af nauðsynjum sem nýttust þeim í baráttu við sameiginlegan óvin ‒ vopn, tæknibúnað, málma og önnur hráefni til iðnaðar, lyf og eldsneyti. Langskilvirkasta leiðin fyrir þannig sendingar var sjóleiðin austur með strönd Norður-Íshafs til rússneskra hafna, Arkhangelsk, þegar íslaust var, en annars til Múrmansk.
Þetta var samt afar hættuleg leið, en svo mikilvæg að menn sættu sig við veruleg afföll. Á aðra hönd var siglt hjá norðurströnd Noregs, þar sem Þjóðverjar höfðu flugvelli með flugvélum, sem báru sprengjur og tundurskeyti, og skipalægi með kafbátum og herskipum. Skammt undan lágu í norsku fjörðunum við festar öflug herskip, allt upp í Tirpitz, stærsta og voldugasta herskip heims, systurskip Bismarcks. Að norðan var svo heimskautsísinn. Á sumrin var bjart mestallan eða allan sólarhringinn, svo auðratað var að stórum skipalestum eða jafnvel stökum skipum, en á veturna var ísröndin svo nærri landi að langfleygar sprengjuflugvélar gátu athafnað sig á öllu siglingasvæðinu. Við þetta bætist að þar voru veður oft válynd, svo jafnvel á friðartímum var leiðin lítt fýsileg og sjór svo kaldur að fáir sem í hann féllu lifðu lengi.
Ísland kemur hér mjög við sögu. Farmskipin, frá Bandaríkjunum og Kanada eða frá Bretlandseyjum, söfnuðust yfirleitt saman í herskipalægi Bandamanna í Hvalfirði, og þaðan lá leiðin norður og austur með Íslandi yfir Atlantshaf og með norðurströnd Skandinavíu og Rússlands til Arkangelsk eða Múrmansk. Breski flotinn tók við hervernd skipalestanna í Hvalfirði, þótt oft væru bandarísk herskip í fylgd með þeim. Íslendingar voru í áhöfnum sumra skipanna, og fórust sumir en aðrir komust af.
Sáralítið hefur til þessa verið ritað um þessa sögu á íslensku, og raunar hefur sumt sem hér verður greint frá verið falið í leyndarskjölum þar til nýlega og hefur ekki heldur birst almenningi víða erlendis.
Það á til dæmis við um frægar hrakfarir stórrar skipalestar, PQ17, sem að skipan bresku herstjórnarinnar var látin dreifa sér úti fyrir Noregi og öll herskipin sem áttu að verja hana kölluð til annarra starfa, svo verulegur hluti skipanna varð flota og flugher Þjóðverja að bráð, og fórust með þeim allur farmur og margir farmenn.
Frá þessu og ýmsu öðru er greint í bókinni, sem ber réttnefnið Dauðinn í Dumbshafi. Höfundurinn, Magnús Þór Hafsteinsson, er sjómaður og menntaður sjólíffræðingur í norskum háskóla. Ritið ber það með sér að höfundur hefur sótt efni í ókjör heimilda, sem tilgreindar eru í bókarlok.
Enginn Íslendingur, sem vill kynnast sögu síðari heimsstyrjaldar og hlut Íslands í þeirri sögu, ætti að leiða þetta rit hjá sér.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2011Sigurður dýralæknir
Sigurður dýralæknir Sigurðarson frá Keldum er sögumaður góður og kann margar óborganlegar sögur af mönnum og málefnum. Hér segir af uppvexti hans á Sigurðarstöðum í Bárðardal, Keldum á Rangárvölum, Selalæk og Hemlu; einnig námsárum hans í Héraðsskólanum á Skógum og Menntaskólanum á Akureyri, daglaunavinnu sem pakkhúskarl á Rauðalæk og slátrari á Hellu svo að nokkuð sé nefnt. Ennfremur er sagt frá mönnum og málleysingjum sem orðið hafa á vegi hans, skrýtnum og skemmtilegum karakterum, eins og hann er sjálfur, kyndugum körlum og kerlingum, bændum og búaliði, prestum og kvenleysingjum og kvennamönnum víða um land. Hér segir líka meðal annars af hlöðunni sem var dregin yfir heyið, reimleikum á Rauðalæk, ófúnu líki í kirkjugarðinum á Keldum, íhaldskoppinum og úthrópuðum rottuskítssala á Landi og í Holtum.
Leiðbeinandi verð: 5.980-.
Útgáfuár: 2011