Nýjasta útgáfa Hóla
Árdagsblik
Skáldsagan Árdagsblik mun vafalítið koma lesendum á óvart, bæði vegna efnistöku og sögusviðs. Þar er fjallað um fólk af ólíkum uppruna sem ákveður að skapa sér framtíð í nýju landi, af bjartsýni og dugnaði; tilveru án ófriðar og valdagræðgi. Getur slíkur draumur orðið að veruleika?
Ævintýrablær og sagnfræði, ástir og átök blandast hér saman með skemmtilegum hætti í sögu sem sækir í sannar heimildir en fer að öðru leyti frjálslega með efni og aðstæður.
Leiðbeinandi verð: 3.980-.
Biblíumatur – uppskriftir frá landi mjólkur og hungangs
Í þessari bók, eftir séra Svavar Alfreð Jónsson sóknarprest í Akureyrarkirkju, rekur hver gómsætur rétturinn annan. Í henni er að finna girnilegar og hollar mataruppskriftir og bera sumar þeirra forvitnileg heiti eins og t.d. Spínatsúpa faraós, Baunasalat Hebreams, Kvöldskattur tollheimtumannsins og Lambakjötsréttur Rebekku.
Hér getur þú, lesandi góður, fræðst aðeins meira um bókina: http://www.n4.is/is/thaettir/file/bibliumatur-sr-svavars
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Útgáfuár: 2014Hreindýraskyttur – Líflegar og fræðandi frásagnir af hreindýraveiðum
Í bókinni segja Axel Kristjánsson, Gunnar A. Guttormsson, Guttormur Sigbjarnarson, Sigrún Aðalsteinsdóttir, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Þorgils Gunnlaugsson, María B. Gunnarsdóttir, Pálmi Gestsson, Sæunn Marinósdóttir og Sigurður Aðalsteinsson frá ævintýrum sínum á hreindýraveiðum á Íslandi og í Grænlandi. Auk þess er rakin saga hreindýraveiða hér á landi. Bókin er prýdd kortum og fjölda mynda.
Hægt er að sjá örlítið sýnihorn úr bókinni hér: http://issuu.com/gunnarkr/docs/hreind__raskyttur/0
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Útgáfuár: 2014Grafningur og Grímsnes
Hér er fjallað um Grafning, sögu og mannlíf, á árunum 1890-2012 og Grímsnes að hluta til, þ.e.a.s. sem tekur einkum til Sogsvirkjana og Ljósafossskóla. Hverri jörð er lýst í knöppu máli og í ábúendatali er þráðurinn rakinn bæ frá bæ eftir hinni gömlu boðleið og grein gerð fyrir ábúendum og niðjum þeirra. Mikið ítarefni er hluti af verkinu sem lýtur m.a. að staðfræði, atvinnuháttum, sögu og sögnum, þjóðfræði og þjóðháttum. Fjöldi ljósmynda prýðir verkið sem er mikilsvert innlegg í sunnlenska byggðasögu.
Leiðbeinandi verð: 7.980-.
Útgáfuár: 2014Klénsmiðurinn á Kjörvogi
Þorsteinn Þorleifsson (1824-1882) fæddist og ólst upp í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu en bjó síðustu 24 árin í Strandasýslu, lengst af á Kjörvogi í Árneshreppi. Hann lærði járnsmíði og stundaði iðn sína alla tíð. Samhliða smíðum starfaði hann við sjómennsku og búskap. Einnig var hann liðtækur við lækningar og tók á móti börnum. Saga hans er því svo sannarlega forvitnileg.
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Uppseld.
Fótboltaspurningar
Í þessari bók er í orðsins fyllstu merkingu farið út um víðan völl og þá auðvitað fótboltavöll. Spurt er um íslensk lið og leikmenn, stórstjörnur, knattspyrnustjóra og lið hér og þar í heiminum – og fleira til. Hvert var fyrsta atvinnumannalið Gylfa Þórs Sigurðssonar? Með hvaða liði lék Daniel Sturridge áður en hann var seldur til Liverpool? Hverrar þjóðar er Edison Cavani? Hvert af landsliðunum á HM 2014 er oft kallað Prinsarnir frá Persíu? Hvers konar fugl má finna í merki Norwich? Hvaðan er Einherji? Þetta og margt fleira fyrir knattspyrnuunnendur og hina líka, eða hvað?
Leiðbeinandi verð: 1.190-.
Útgáfuár: 2014Spurningabókin 2014
Hér er spurt um allt milli himins og jarðar. Hvað kallast þurrkuð plóma? Hvaða stjörnumerki er hvorki dýr eða maður? Hver eru grimmustu farartækin? Hvaða mynd frá Disney var auglýst með þeim orðum að hún myndi „brenna hjarta þitt“? Þetta og margt fleira til í þessari bráðskemmtilegu bók sem ætti að vera til á hverju heimili og í hverjum skóla.
Leiðbeinandi verð: 1.290-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2014Bestu barnabrandararnir-frábærlega fyndnir
Nítjánda bókin í þessum geysivinsæla bókaflokki er komin út. Í henni eru brjálæðislega góðir brandarar sem henta hvar og hvenær sem er og spyrja ekki að aldri, enda hafa hinir eldri ekki síður þörf fyrir eitthvað skoplegt og uppörvandi en þau sem yngri eru.
Leiðbeinandi verð: 1.290-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2014Örnefni í Mjóafirði
Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði hafði lengi fyrirhugað að Örnefni í Mjóafirði yrði síðasta bók hans og var ætlunin að hún kæmi út á 100 ára afmæli hans, þ. 20. september 2014. Reyndar hafði hann sjálfur sagt að annaðhvort yrði þetta afmælisrit eða minningarrit og því miður fór það svo að hið síðarnefnda varð niðurstaðan. Vilhjálmur lést 14. júní, eða rúmlega tveimur mánuðum fyrir aldarafmæli sitt. Þá hafði hann nýlokið við að fara yfir síðustu próförkina af bókinni og því gat hann farið nokkuð nærri um endanlega útkomu.
Umrædd bók, Örnefni í Mjóafirði, kemur út á fyrrnefndri dagsetningu, þ.e. þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu Vilhjálms, og verður vafalítið fróðleiksbrunnur öllum þeim sem sækja Mjóafjörð heim og dvelja þar um lengri og skemmri tíma. Einnig þeim sem áhuga hafa á íslenskri náttúru og sögnum sem henni tengjast. Meginefni bókarinnar er vönduð örnefnaskrá heimabyggðar hans, sem og þjóðsögur, frásagnir af ýmsu tagi svo og fróðleikur sem tengist örnefnunum. Örnefnaskránni fylgja 30 litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á, auk fjölda annarra mynda.
Örnefni í Mjóafirði er sannarlega glæstur endapunktur á hinu mikla starfi sem Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku vann í þágu Mjóafjarðar sem og þjóðfræði í víðum skilningi þess orðs.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Útgáfuár: 2014Hraun í Öxnadal
Hraun í Öxnadal er ein af nafnkunnustu bújörðum á landinu. Það er ekki síst vegna þess hve fagurt er þar heim að líta, en Drangafjall og Hraundrangi gnæfa í baksýn. Einnig er Hraun í Öxnadal nafnkunnugt vegna þess að þar fæddist árið 1807 þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson.
Bók þessi fjallar mest um umhverfi og náttúru Öxnadals og þá aðallega náttúru jarðarinnar Hrauns, bæði jarðfræði og lífverur. Meginhluti bókarinnar fjallar þó um 18 gönguleiðir á svæðinu. Fjölmörg kort og margar ljósmyndir prýða bókina sem er 286 blaðsíður að lengd.
Höfundur bókarinnar er Bjarni E. Guðleifsson en hann hefur áður skrifað fjölmargar útivistar- og náttúrubækur, m.a. Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll.
Leiðbeinandi verð: 5.680-.
Útgáfuár: 2014