Örnefni í Mjóafirði
Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði hafði lengi fyrirhugað að Örnefni í Mjóafirði yrði síðasta bók hans og var ætlunin að hún kæmi út á 100 ára afmæli hans, þ. 20. september 2014. Reyndar hafði hann sjálfur sagt að annaðhvort yrði þetta afmælisrit eða minningarrit og því miður fór það svo að hið síðarnefnda varð niðurstaðan. Vilhjálmur lést 14. júní, eða rúmlega tveimur mánuðum fyrir aldarafmæli sitt. Þá hafði hann nýlokið við að fara yfir síðustu próförkina af bókinni og því gat hann farið nokkuð nærri um endanlega útkomu.
Umrædd bók, Örnefni í Mjóafirði, kemur út á fyrrnefndri dagsetningu, þ.e. þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu Vilhjálms, og verður vafalítið fróðleiksbrunnur öllum þeim sem sækja Mjóafjörð heim og dvelja þar um lengri og skemmri tíma. Einnig þeim sem áhuga hafa á íslenskri náttúru og sögnum sem henni tengjast. Meginefni bókarinnar er vönduð örnefnaskrá heimabyggðar hans, sem og þjóðsögur, frásagnir af ýmsu tagi svo og fróðleikur sem tengist örnefnunum. Örnefnaskránni fylgja 30 litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á, auk fjölda annarra mynda.
Örnefni í Mjóafirði er sannarlega glæstur endapunktur á hinu mikla starfi sem Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku vann í þágu Mjóafjarðar sem og þjóðfræði í víðum skilningi þess orðs.
Leiðbeinandi verð: 6.480-.
Útgáfuár: 2014