Handknattleikssagan

Með vorinu kemur út mikið glæsiverk, Handknattleiksbókin, eftir Steinar J. Lúðvíksson.  Þar er rakin er saga  handknattleiksíþróttarinnar á Íslandi allt frá því að hún nam hér land upp úr 1920 og fram til ársins 2011. Fjallað er um alla þætti þessarar óformlegu þjóðaríþróttar okkar enda af nógu að taka í litríkri sögu hennar.  Fyrirferðarmestu kaflar bókarinnar fjalla um Íslandsmótið í handknattleik og um landsleiki sem Íslendingar hafa leikið frá fyrstu tíð.

Í kaflanum um Íslandsmótið er sagt frá mótum karla og kvenna, inni og úti, frá því það var fyrst haldið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940. Greint er frá gangi mála í mótinu frá ári til árs og sagt frá eftirminnilegum leikjum og leikmönnum. Einkum er fjallað um efstu deild en einnig sagt frá keppni í öðrum deildum.

Í kaflanum um landsleikina er sagan rakin frá því að Íslendingar léku fyrst landsleik árið 1950. Fjallað er um leikina frá ári til árs, greint frá öllum leikjum karla og kvenna svo og ungmennaliða þegar þeim tókst best til. Staldrað er sérstaklega við mót, svo sem EM, HM og Ólympíuleika og sagt frá eftirminnilegum atburðum einstakra leikja.

Handknattleiksbókin verður í tveimur bindum, alls á níunda hundrað blaðsíður.  Fjöldi mynda prýðir þetta mikla verk og hafa margar þeirra ekki birst á opinberum vettvangi.

Þeir sem vilja tryggja sér Handknattleiksbókina í áskrift (á 16.900 í stað 19.000 – og skipta má greiðslunum í allt að átta hluta án aukakostnaðar) og það á kynningarverði er bent að hafa samband við Ólaf Hrólfsson í s. 861-9407 eða senda honum póst í netfang olibok@simnet.is

Mánudagur 2. apríl 2012
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is