Áhugaverð ævisaga Elfríðar

Miðvikudagur 26. janúar 2011

Ein af næstu jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla verður ævisaga Elfríðar Idu Emmu Pálsdóttur sem fædd er í Þýskalandi árið 1930. Hún kynntist hörmungum stríðsáranna 1939 – 1945, en hún missti foreldra sína, þrjá bræður, skyldmenni og vini í stríðinu. Það var erfitt fyrir ungling að horfa upp á tvo bræður og móður deyja úr taugaveiki eða næringarskorti á aðeins fjórum dðgum. Loftárásir voru daglegt brauð og dauðinn var mjög nálægur. Ástandið á þessum tíma var afar bágborið, vöruskortur og lítið fæðuframboð. Í lok stríðsins var Elfríð illa farin af næringaskorti t.d. missti hún hárið og var lengi að jafna sig. Hún ákvað að fara til Íslands árið 1949 eftir að hafa séð auglýsingu, þar sem falast var eftir starfskröftum í landbúnaðarstörf. Eitthvað innra með henni hvatti hana til að söðla um og fara burt frá heimalandinu sem var í sárum eftir allar sprengjuárásirnar.  Hún sótti  um vinnu og var ráðin á sveitabæ til eins árs. Hún kynntist mannsefninu Erlendi Magnússyni á næsta bæ og ástin tók völdin – ekki varð aftur snúið heim.  Elfríð hefur verið ötul að pára niður endurminningar sínar og margir hafa hvatt hana til að gefa efnið út. Dóttir hennar, Helga Erla Erlendsdóttir, tók að sér að skrifa bók um lífshlaup hennar og Guðrún Ásgeirsdóttir, tengdadóttir Elfriðar, verður henni til aðstoðar við það.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Páll Gíslason látinn

Miðvikudagur 5. janúar 2011

Þann 1. janúar sl. lést Páll Gíslason læknir, skátaforingi og borgarfulltrúi, 86 ára að aldri.  Á síðasta ári gaf Bókaútgáfan Hólar út ævisögu hans, Læknir í blíðu og stríðu, skráða af Hávari Sigurjónssyni.  Bókin er í senn bæði skemmtileg og fræðandi og vilja Hólamenn þakka Páli fyrir samstarfið við vinnslu hennar og kynningu og senda jafnframt samúðarkveðjur til ættingja hans.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Krimmi

Fimmtudagur 30. desember 2010

Bókaútgáfan Hólar íhugar nú útgáfu á sakamálaskáldsögu – íslenskri og frumsaminni.  Ef þú lumar á einni slíkri, a.m.k. 150 bls. miðaðar við A-4 stærð, þá sakar ekki að vekja athygli á því á netfanginu holar@holabok.is  Rétt er að taka það fram að ekki er verið að leita eftir smásögum, eða einhverju sem höfundurinn veit að þarf að vinna mun betur.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Gleðileg Jól

Þriðjudagur 21. desember 2010

Gleðileg jól

Bókaútgáfan Hólar þakkar frábærar viðtökur á útgáfubókunum 2010.  Margir titlanna eru á þrotum hjá útgáfunni s.s. Með létt skap og liðugan talanda – lífssaga Margrétar í Dalsmynni, Það reddast – ævisaga Sveins Sigurbjarnarsonar ævintýramanns á Eskifirði, Pétrísk-orðabók, eftir hinn eina og sanna sr. Pétur Þorsteinsson prest í Óháða söfnuðinum, Spurningabókin 2010 og Í ríki óttans – -örlagasaga Þorbjargar Jónsdóttur Schweizer.  Þá er sáralítið eftir af Feimnismálum Vilhjálms Hjálmarssonar, Bestu barnabröndurunum, Sjónhverfingum-ekki er allt sem sýnist, Undir breðans fjöllum – ljóð og lausavísur Þorsteins Jóhannssonar í Svínafelli, Galar hann enn – gamansögur af Norðfirðingum og nærsveitungum, og Læknir í blíðu og stríðu – ævisögu Páls Gíslasonar læknis, skátaforingja og stjórnmálamanns.  Ennfremur gengur hratt á hina stórkostlegu ljóðabók, Fjallaþytur, en hún inniheldur úrval úr kveðskap hins einstaka Hákonar Aðalsteinssonar og var hún þó prentuð í þokkalegu upplagi í byrjun og síðan endurprentuð!

Enn og aftur kærar þakkir fyrir viðtökur bókanna og gleðileg jól til allra nær og fjær!

Efnisflokkun: Barnabækur, Fréttir og tilkynningar

Einn léttur á laugardegi

Laugardagur 16. október 2010

Hér kemur brandari úr bókinni Bestu barnabrandararnir-brjálæðislega góðir, en hún var að koma út og verður send í bókaverslanir eftir helgina:

Einar kom fárveikur heim frá Afríku. Hann fór til læknis sem lét umsvifalaust leggja hann inn á sjúkrahús þar sem hann fór í allar hugsanlegar rannsóknir.

Einn morguninn vaknaði Einar við að síminn við rúmið í einkastofunni hans hringdi.

„Blessaður, þetta er Sigurjón læknir hérna,“ sagði röddin í símanum. „Við vorum að fá niðurstöður rannsóknanna. Þú ert með einstaklega viðurstyggilegan vírus sem er vægast sagt skelfilega smitandi.“

„Almáttugur,“ orgaði Einar skelfdur. „Og hvað gerist svo næst?“

„Þú verður settur á sérfæði sem inniheldur pítsur, pönnukökur og vöfflur,“ sagði læknirinn.

„Mun það lækna mig?“ spurði Einar vongóður.

„Nei, ekkert frekar, en þetta er eini maturinn sem við getum troðið undir dyrnar hjá þér.“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Nýjar bækur!

Fimmtudagur 14. október 2010

Nýjar bækur streyma nú frá Bókaútgáfunni Hólum.  Fyrir stuttu kom út bókin Samstarf á Austurlandi, eftir Smára Geirsson.  Þá voru að renna út úr prentvélunum bækurnar Bestu barnabrandararnir – brjálæðislega góðir, Spurningabókin 2010, Sjónhverfingar – ekki er allt sem sýnist og Galar hann enn! sem eru gamansögur af Norðfirðingum og nærsveitungum í samantekt Elmu Guðmundsdóttur.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Heilsubók í heimsklassa!

Miðvikudagur 8. september 2010

ÞÚ ERT ÞAÐ SEM ÞÚ BORÐAR

Bókaútgáfan Hólar hefur nú endurútgefið hina vinsælu bók dr. Gillian Mckeith, ÞÚ ERT ÞAÐ SEM ÞÚ BORÐAR, en mikil eftirspurn hefur verið eftir bókinni á undanförnum misserum.  Þessi bók hefur hjálpað mörgum til betra lífs og ekki einungis þeim sem þurfa og vilja létta sig.  Þetta er bók fyrir alla, konur og karla, grannt fólk og feitt og allt þar á milli.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Útgáfuhátíð vegna Fjallaþyts

Þriðjudagur 6. júlí 2010

Þann 13. júlí nk. kemur út bókin FJALLAÞYTUR-úrval úr ljóðum Hákonar Aðalsteinssonar.  Þann dag hefði hann orðið 75 ára, en hann lést í mars 2009.  Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður þennan dag efnt til útgáfuhátíðar á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal þar sem gestum býðst meðal annars að sitja í Hákonarstofu og hlýða á ýmsa áheyrilega sögumenn, auk þess sem hagyrðingar munu skemmta viðstöddum.  Hátíðin hefst klukkan 20:00 og eru allir velkomnir.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Jón Bö látinn

Sunnudagur 11. apríl 2010

Á páskadag lést sagnameistarinn og skólamaðurinn Jón Böðvarsson, en hann átti þá aðeins örfáar vikur eftir í áttrætt.  Hann skilur eftir sig stór spor vegna starfa sinna að mennta- og menningarmálum; ekki hvað síst fyrir það að hafa glætt áhuga manna á íslensku fornsögunum.

Fyrir jólin síðustu gaf Bókaútgáfan Hólar út viðtalsbók við Jón, Sá á skjöld hvítan.  Guðrún Guðlaugsdóttir, blaðamaður og rithöfundur, skrifaði bókina og er þar margt skemmtilegt og fróðlegt að finna.

Bókaútgáfafn Hólar þakkar Jóni Böðvarssyni samstarfið við gerð og útgáfu bókarinnar.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Vinningshafi í sjöundu og síðustu spurningalotu Hóla

Miðvikudagur 23. desember 2009

Jæja, þá er sjöundu og síðastu lotunni í JÓLASPURNINGALEIK HÓLA lokið. Vinningshafinn var Kristbjörg Kristmundsdóttir og valdi hún sér bókina FÖNDUR-JÓL. Að auki fékk hún boðsmiða fyrir tvo í Borgarleikhúsið og vonandi hefur það komið sér vel.

Og þá er bara að þakka fyrir frábæra þátttöku í JÓLASPURNINGALEIKNUM!

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is