Engeyjarætt – útgáfuhátíð

Mánudagur 27. júní 2011

Mánudaginn 4. júlí verður haldin samkoma í Safnaðarheimili Neskirkju vegna útgáfu á Engeyjarætt.  Mikið verk er nú loksins komið á bók og þarna geta áskrifendur nálgast sitt eintak og einnig verður ritið selt þar á tilboðsverði.  Hægt verður að kaupa kaffi og meðlæti á staðnum og vonandi er að sem flestir af Engeyjarætt láti sjá sig og eigi saman notalega kvöldstund.  Útgáfuhátíðin hefst kl. 20 og stendur til 22.  Þeir sem ekki tilheyra ættinni, en hefðu hug á því að eignast bókina, eru að sjálfsögðu velkomnir.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Engeyjarætt

Miðvikudagur 1. júní 2011

Síðari hluta júnímánaðar kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum mikið rit og voldugt, sjálf Engeyjarættin.  Í ritinu er rakið niðjatal hjónanna Péturs Guðmundssonar og Ólafar Snorradóttur og má með sanni segja þetta sé í fyrsta sinn sem sannkölluð Reykjavíkurætt er gefin út.  Hún tengjist mjög Vesturbæ Reykjavíkur, en einnig Seltjarnarnesi og svo er hún allfjölmenn á Austurlandi (Zoëga-fólkið í og frá Neskaupstað og Kröyer-fólkið á og frá Héraði) og á Norðurlandi vestra.

Vafalítið munu margir grúskarar fagna útkomu þessarar bókar sem er í ritstjórn Sigurðar Kristins Hermundarsonar.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn léttur!

Fimmtudagur 5. maí 2011

Guðrún var reiðari en nokkru sinni fyrr.

„Þú ert fífl,“ sagði hún við mann sinn. „Þú hefur alltaf verið fífl og verður alltaf fífl. Ef það væri haldin keppni um það hver væri mesta fíflið myndir þú tvímælalaust lenda í öðru sæti!“

„Hvers vegna í öðru sæti?“ spurði maður hennar.

„Vegna þess að þú ert fífl!“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn í tilefni af sumarkomunni!

Þriðjudagur 26. apríl 2011

Fjóla var að leita sér að flottum sportbíl og fór á bílasöluna. Hún gekk á milli Rollsa og Benza og þegar hún sá guðdómlegan Lexus staðnæmdist hún og strauk yfir hann með hendinni. Um leið leysti hún óvart vind svo glumdi í. Hún leit skömmustuleg í kringum sig og vonaði að enginn hefði heyrt í henni. En þegar hún sneri sér við sá hún að sölumaður stóð fyrir aftan hana.

„Góðan dag, get ég aðstoðað?“ spurði hann kurteislega.

„Hvað kostar þessi … ehhhh … dásamlegi bíll?“ stamaði Fjóla.

„Frú mín góð!“ sagði sölumaðurinn. „Ef þú prumpar við það eitt að snerta hann hvað gerist þá þegar þú heyrir verðið!“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Gleðilegt sumar!

Fimmtudagur 21. apríl 2011

Bókaútgáfan Hólar óskar öllum gleðilegs sumars og reyndar einnig gleðilegra páska, því örstutt er í þá.  Og af því að nú er gaman, þá flýtur hér einn laufléttur með:

Ibn Saud ben Alekh var virtur og mikils metinn maður í þorpinu sínu. Dag nokkurn var hann viðstaddur kameldýrauppboð á torginu þegar hann fékk afar sáran magaverk. Áður en hann vissi af hafði hann leyst vind með miklum látum. Hávaðinn var mikill og lyktin það megn að þorpsbúar færðu sig fjær og störðu í forundran á hann. Ibn Saud skammaðist sín svo mikið að hann fór beinustu leið heim, pakkaði niður eigum sínum og yfirgaf æskustöðvarnar. Hann flakkaði um heiminn og þegar aldurinn færðist yfir hann fékk hann löngun til að sjá heimabæ sinn aftur. Hár hans var orðið sítt og grátt og sama mátti segja um skeggið sem náði honum niður á bringu. Hann var viss um að enginn myndi þekkja hann eða tengja hann við þetta auðmýkjandi atvik á torginu. Þegar hann kom inn í þorpið fór hann beint á torgið og sá að þar var búið að byggja stóra og fallega mosku. Ibn Saud stoppaði ungan mann og sagði við hann:

„Friður sé með þér, sonur sæll. Gætir þú sagt mér hvenær þessi moska var fullbyggð?“

„Látum okkur nú sjá,“ sagði maðurinn hugsandi. „Já, það hefur verið sjö árum, fimm mánuðum og tuttugu og tveimur dögum eftir að Ibn Saud rak við á torginu.“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Ný bók!

Mánudagur 18. apríl 2011

Bókaútgáfan Hólar er þessa stundina að fá í hús glænýja bók eftir Arnþór Gunnarsson, sagnfræðing frá Hornafirði.  Bókin heitir Á afskekktum stað og inniheldur frásagnir sex Austur-Skaftfellinga sem segja má að ferðist með okkur í tíma og rúmi.  Sjá nánar um bókina hér til hægri.

Rétt er að geta þess að útgáfuveisla vegna úrkomu bókarinnar verður haldin í Pakkhúsinu á Hornafirði á skírdag og eru allir velkomnir þangað.  Veislan hefst klukkan 14 og þar verður bókin seld á tilboðsverði, kr. 2.500-.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn góður!

Sunnudagur 27. mars 2011

Jæja, elskurnar mínar.  Ég hef stundum laumað gamansögu á þessa síðu og vonandi hefur það mælst vel fyrir.  Hér er ein í safnið:

Unga móðirin var hjá geðlækninum.

„Þú hefur allt of miklar áhyggjur af barninu þínu,“ sagði hann. „Ég ætla að skrifa upp á róandi lyf sem þú þarft að taka tvisvar á dag. Komdu svo til mín aftur í næstu viku.“

Viku seinna kom konan og geðlæknirinn spurði:

„Hafa lyfin haft einhver áhrif?“

„Já,“ svaraði konan. „Þau hafa gert algjört kraftaverk.“

„Hvernig hefur svo barnið þitt það?“

„Hverjum er ekki sama!“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Séra Jón Bjarman látinn

Sunnudagur 20. mars 2011

Séra Jón Bjarman, fanga- og síðar sjúkrahúsprestur, lést 17. mars sl., 78 ára að aldri.  Ævisaga hans, Af föngum og frjálsum mönnum, kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum árið 1999 og var fyrsta ævisagan af mörgum sem Hólar hafa gefið út.  Þá hafa Hólar gefið út tvær ljóðabækur eftir séra Jón, Undir fjallshlíðum og Stef úr steini.

Bókaútgáfan Hólar þakkar séra Jóni Bjarman ánægjulegt samstarf og sendir samúðarkveðjur til eiginkonu hans, Hönnu Pálsdóttur, og annarra ættingja.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn bráðsmellinn

Mánudagur 21. febrúar 2011

Þrír ungir piltar fengu lélegar einkunnir í kynfræðslu. Jói fékk D+, Gummi D- og Nonni fékk F.

„Einn daginn fær tíkin sko að finna fyrir því,“ sagði Jói bálreiður og var að tala um Guðríði kennslukonu.

„Já, við náum henni og klæðum hana úr öllum fötunum,“ sagði Nonni.

„Já, og svo skulum við sparka í punginn á henni,“ sagði Gummi.

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Einn góður!

Sunnudagur 20. febrúar 2011

Flugvél hóf sig til lofts frá Akureyrarflugvelli. Þegar vélin var komin upp í rétta flughæð heyrðist í flugstjóranum:

„Ágætu farþegar. Þetta er flugstjórinn sem talar. Velkomin um borð, ég vona að ferðin til Reykjavíkur verði þægileg. Veðrið er gott og engin ókyrrð í lofti … Ó, NEI!“

Þögn.

Eftir smástund heyrðist aftur í flugstjóranum:

„Ágætu farþegar. Ég vona að ég hafi ekki hrætt ykkur hérna áðan. En á meðan ég var að tala hellti aðstoðarflugmaðurinn heitu kaffi í kjöltuna á mér. Þið ættuð að sjá buxurnar mínar að framan.“

„Það er ekkert,“ tautaði farþegi við sessunaut sinn. „Þú ættir að sjá mínar að aftan.“

Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is