Samsærið gegn Bandaríkjunum
Útgáfuár: 2006
Lykilatburðum er jafnan gefið mikið vægi í mannkynssögunni, rétt eins og í frásögnum og sögum. Einstaklingsörlög eru þannig tvinnuð saman við almenn örlög; söguhetjan ræður eða er látin ráða gangi sögunnar/Sögunnar. Hending hlýtur því að leika stórt hlutverk í mannkynssögunni og lítill atburður (jafnvel vængjasláttur fiðrildis?) getur leitt af sér gjörbreytta niðurstöðu eða ástand.
Í Samsærinu gegn Bandaríkjunum breytir höfundurinn gangi sögunnar með því að hnika til einum kosningaúrslitum í Bandaríkjunum í upphafi seinni heimstyrjaldar, nánar tiltekið í forsetakosningunum í nóvember 1940. Þessar kosningar vann frambjóðandi demókrataflokksins með yfirburðum og Franklin Delano Roosevelt (FDR) varð því fyrsti Bandaríkjaforseti til að sitja þrjú tímabil á valdastóli. Roosevelt lýsti eins og kunnugt er stríði á hendur Þjóðverjum og öxulveldunum og þátttaka Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöld kom þar með í veg fyrir sigur nasista.
En hvað ef…? Hvað ef fulltrúi Repúblikanaflokksins hefði unnið téðar kosningar? Þar í flokki voru ýmsir hreint ekki fráhverfir röggsemi Hitlers; flokkurinn talaði í það minnsta gegn þátttöku í stríðinu. Það má því velta því fyrir sér hvort sigur þeirra í kosningunum 1940 hefði breytt gangi stríðsins. Hefðu fasískar einræðisstjórnir orðið ríkjandi stjórnarform í hinum vestræna heimi?
Í stað FDR kemur Roth, forsetaefni Repúblikana, í Hvíta húsið. Þetta er enginn annar en Charles A. Lindbergh flugkappi sem fyrstur flaug yfir Atlantshafið, frá New York til Parísar, á einþekjunni Spirit of St. Louis. Höfundur lætur s.s. Lindbergh mæta á hárréttri stundu á kosningafund Repúblikana í miðri frambjóðendakreppu; menn geta ekki komið sér saman um nokkurn frambjóðanda gegn FDR. Þá birtist Lindbergh, gengur inn salinn í fullum skrúða flugkappans og heillar fundinn (án þess að segja orð) gjörsamlega, frelsarinn kominn: „Lindy! Lindy! Lindy!“
Sagan í bókinni gerist fyrir rúmum 60 árum og er að mestu æskuminningar sögupersónunnar Philips Roths en sá er meira en lítið skyldur höfundinum (þetta er ekki í fyrsta sinn sem Roth setur sjálfan sig eða nafna sína á svið í skáldsögu). Sagan byggir á sannsögulegum atburðum og raunverulegum persónum, þekktum sem minna þekktum. Eins og áður segir þá hnikar Roth til atburðum til annars konar veraldarsögu. Í stuttu máli: Lindbergh (sem í raun dáði Hitler, þáði orðu þriðja ríkisins og var þekktur gyðingahatari) verður forseti og Bandaríkin fara nærri því að verða fasistaríki og gyðingaofsóknir hefjast af fullum krafti.
Samsærið gegn Bandaríkjunum er forvitnileg saga sem greinir frá fordómum, einkum gegn gyðingum. Sagan býður upp á skemmtilegar vangaveltur um sögulega atburði. En hún er líka umsögn um stjórnmálalegt ástand í heiminum í dag og sérstaklega um ástandið í Bandaríkjunum. Þessa stundina situr þar við stjórn maður sem er ekki minni lýðskrumari en Lindbergh í skáldsögunni, maður sem er hættulegur friði í heiminum og sem hefur þegar att fíflum á forað í Írak – kollegum sínum (t.d. forsætisráðherra Bretlands) og taglhnýtingum (t.d. f.v. forsætisráðherrum Íslands).
Leiðbeinandi verð: 4.380-.
Uppseld.
Svik
Útgáfuár: 2005
Tilnefnd sem besta sænska glæpasagan 2003. Engin er snjallari Alvtegen í að spinna vef óvæntra atburða. „Þetta er bók fyrir spennufíkla,“ sagði Dagbladet og Expressen skrifaði: „Svik lætur hárin rísa“. Lesið og sannfærist.
Uppseld.
Týnd
Útgáfuár: 2004
Týnd fékk Glerlykilinn sem besta norræna glæpasagan árið 2000. Sibylla Forsenström er ekki til. Hún er utangarðsmanneskja. Einn daginn er hún á röngum stað á röngum tíma. Maður er myrtur á hrottalegan hátt og grunur fellur á Sibyllu og hún leggur á flótta. Ótrúleg spenna.
Uppseld.
Musterisriddarinn
Útgáfuár: 2004
Árni Magnússon er krossfari í Landinu helga. Í munni heiðingjanna er hann Al Ghouti, maðurinn sem þeir virða en óttast í senn. Hinn mikli Saladin, er óvinur hans. Musterisriddarinn er afar spennandi saga sem gerist í Gaza og Jerúsalem laust fyrir árið 1200. Þetta er sjálfstætt framhald af bókinni Leiðin til Jerúsalem sem út kom í fyrra.
Uppseld.
Leiðin til Jerúsalem
Útgáfuár: 2003
Óhemju spennandi metsölubók. Leiðin til Jerúsalem gerist á 12. öld og segir sögu hins sænska Arna Magnússonar sem elst upp í klaustri undir handarjaðri vopnfimasta krossfarans. Þegar Árni snýr aftur út í heiminn er hann óviðbúinn þeim kaldrana sem mætir honum. Jafnvel faðir hans trúir því um tíma að munkarnir hafi eytt allri karlmennsku úr Árna. En Árni á eftir að koma öllum á óvart. Leiðin til Jerúsalem hefur verið á toppi metsölulista í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
Uppseld.
Vitfirringur keisarans
Útgáfuár: 2002
Hvernig fer fyrir þeim sem segir harðstjóranum sannleikann? Getur verið að keisarinn álíti hann geðveikan? Vitfirringur keisarans er þrungin spennu ástar- og sakamálasögunnar en jafnframt dæmisaga um eðli og afleiðingar valds og harðstjórnar.
Uppseld.
Kona flugmannsins
Útgáfuár: 2001
Kathryn Lyons er vakin upp um miðja nótt. Stór farþegaflugvél hefur farist út af strönd Írlands. Flugmaðurinn er eiginmaður hennar. Talað er um hryðjuverk. Jafnvel að flugmaðurinn sjálfur hafi sprengt vélina. Ekkjan trúir ekki þessum orðrómi en hversu vel þekkti hún eiginmann sinn í raun? Hún tekst á við sorgina, höfnun dóttur sinnar og leyndarmál eiginmanns síns sem hún er staðráðin í að afhjúpa. Anita Shreve á að baki skáldsögur sem hafa notið gríðarlegra vinsælda. Kona flugmannsins, sem var mánuðum saman í efsta sæti á metsölulistum vestan hafs og austan, er fyrsta bók Shreve sem kemur út á Íslandi – og hún svíkur svo sannarlega engan.
Uppseld.
Í órólegum takti
Útgáfuár: 2000
Í órólegum takti er djörf saga Margrétar Hannesdóttur. Fyrir tilviljun tekur hún að sér landflótta Kúrda, smyglar honum inn í landið og berst harðri baráttu við íslenska embættismannakerfið til að koma í veg fyrir að hann verði sendur til síns heima í Tyrklandi þar sem honum er bráður bani búinn. Um leið neyðist Margrét til að endurskoða tilveru sína. Hún leiðist út í ástarsamband við ráðherra og hjónaband beggja stendur tæpt.
Í órólegum takti er skáldsaga sem tekur á ýmsum viðkvæmum málum samtímans.
Uppseld.