Nýjasta útgáfa Hóla



Ekki var það illa meint – Ljóð og lausavísur eftir Hjálmar Freysteinsson

Ekki var það illa meintMývetningurinn Hjálmar Freysteinsson (1943-2020), lengi heimilislæknir á Akureyri, var fyrst og fremst skáld hlátursins og gleðinnar. Hann hafði frá fyrstu tíð lag á að sjá hliðar á málum sem aðrir sáu ekki og draga fram sjónarhorn sem kom hressilega á óvart.

Í þessari bók eru 700 lausavísur eftir Hjálmar og um 40 kvæði. Auk þess nótur að tveimur lögum sem hafa verið samin við ljóð eftir hann.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Útgáfuár: 2021

Spurningabókin 2021 – Hvað hafa kanínur margar framtennur?

Spurningabókin 2021Hvaða ávöxtur er einkennismerki tölvurisans Macintosh? Í hvaða sjónvarpsþætti, haustið 2020, fengu áhorfendur að kynnast Bjössa sax? Hverrar þjóðar er knattspyrnumaðurinn Robert Lewandowski? Hvað fær fólk úr kókómjólk ef marka má auglýsinguna?

Þessar spurningar og fjölmargar aðrar eru í þessari stórskemmtilegu bók sem ætti að vera til á hverju heimili, í hverjum skóla og þess vegna bara alls staðar.

Leiðbeinandi verð: 1.690-.

Útgáfuár: 2021

Papa Jazz allur

Um miðjan þennan mánuð lést Guðmundur Steingrimsson – Papa Jazz. Hann var afar snjall trommuleikari og einn af brautryðjendum djassins hér á landi; lék með fjölda hljómsveita og kenndi ýmsum þá list sem vandaður trommuleikur er.

Árið 2009 kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum ævisaga Guðmundar og ber hún einfaldlega heitið Papa Jazz. Það var Árni Matthíasson sem skráði og má fullyrða hér og nú að samvinna þeirra félaga hafi orðið til þess að margvíslegur fróðleikur um tónlistarlífið á Íslandi varðveitist um ókomin ár og þá ekki síst það sem snýr að jazzinum.

Undirritaður kynntist Guðmundi vel á þessum árum og ræddum við um heima og geima, meira að segja um knattspyrnu, en Papa Jazz var stuðningsmaður Leeds og fylgdist ágætlega með boltasparkinu. Þess utan var hann mikill sögubrunnur um menn og málefni og var virkilega gaman að hlusta á hann segja frá. Hann kunni óteljandi sögur, fæstar máttu auðvitað fara eitthvað lengra, en hann sagði þær og aðrar einnig af slíkri snilld að unun var af.

Blessuð sé minning Papa Jazz.

Guðjón Ingi Eiríksson.

Sunnudagur 18. apríl 2021

Svenni látinn

Í dag er til moldar borinn gamall nágranni minn frá Eskifirði, Sveinn Sigurbjarnarson, rútubílstjóri, ferðafrömuður, ævintýramaður og ég veit ekki hvað og hvað. Hann var einstakur maður á margan hátt og því þótti mér mikill fengur í því þegar hann féllst á það að leyfa mér að gefa út ævisögu sína. Það tók samt nokkur samtöl, en bókin heitir ÞAÐ REDDAST, kom út árið 2010 og er skráð af Ingu Rósu Þórðardóttur, sem því miður kvaddi þennan heim nokkrum árum síðar eftir baráttu við sama vágest og Svenni þurfti að lúta í gras fyrir, bölvað krabbameinið.

Skemmst er frá því að segja að bókin rokseldist og þá ekki síst á Austurlandi þar sem Svenni var gríðarlega mikils metinn og ekki af ástæðulausu. Seinna sagði hann mér að einn af kunningjum hans hefði fengið átta eintök af henni í jólagjöf og annar þrjú eintök. Hinn síðarnefndi hefði lesið þau öll og fundist það síðasta best!

Ég sendi öllum ættingjum Sveins Sigurbjarnarsonar samúðarkveðjur um leið og ég þakka honum fyrir fjölmargar rútuferðir í kringum íþróttir og skóla – svo og ekki síst vegna bókarinnar sem mun vafalítið halda nafni hans lengi á lofti.

Guðjón Ingi Eiríksson

Laugardagur 10. apríl 2021

Brandarar, gátur og þrautir

Brandarar, gátur og þrautirBrandarar, gátur og þrautir er bók fyrir fólk á öllum aldri og hentar bæði einstaklingum og hópum hvar og hvenær sem er. Brandararnir eru sprenghlægilegir, gáturnar leyna á sér og þrautirnar eru bæði þrælþungar og laufléttar. Tvímælalaust „ferðalagabókin“ 2021!

Leiðbeinandi verð: 1.690-.

Útgáfuár: 2021

Ljóðasafn Hjálmars Freysteinssonar

Í maí næstkomandi verður gefið út úrval ljóða og lausavísna eftir Hjálmar Freysteinsson. Hann fæddist 18. maí  1943 og lést 6. febrúar 2020 og starfaði sem heimilislæknir, lengst af á Akureyri. Hjálmar var landsþekktur fyrir snjallar vísur. Hann var allra manna fundvísastur á þær hliðar á málum sem vöktu kátínu, gat alltaf séð það spaugilega, aldrei rætinn eða klúr, bara skemmtilegur.

Það er Bókaútgáfan Hólar sem gefa mun bókina út, en Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Höskuldur Þráinsson munu búa hana til prentunar. Í bókinni, sem áætlað er að verði um 200 blaðsíður, verður Tabula Memorialis og þar verða nöfn þeirra sem vilja votta lækninum og hagyrðingnum, Hjálmari Freysteinssyni, virðingu sína, skráð (nema viðkomandi kjósi ekki nafnbirtingu), en forkaupsverð hennar verður kr. 6.980- (innifalið er bæði sendingargjald og virðisaukaskattur). Áhugasamir kaupendur eru beðnir að senda nafn sitt, heimilisfang og kennitölu á netfangið holar@holabok.is (eða hringja í síma 692-8508 eftir klukkan 16 á daginn) og verða þá greiðslupplýsingar sendar til baka.

Það verður enginn svikinn af þessari bók, svo mikið er víst.

Fimmtudagur 4. febrúar 2021

Saga Ljósmæðrafélags Íslands og ljósmæðratal

Gleðilegt ár!

Fyrsta bók ársins hjá Bókaútgáfunni Hólum er komin út. Um er að ræða bókina Ljósmæðrafélag Íslands í 100 ár, sem bæði er saga þess og ljósmæðratal frá 1984-2019, en áður var komið út stéttartal ljósmæðra fyrir árin fram að 1983.

Fimmtudagur 7. janúar 2021

Ljósmæðrafélag Íslands í 100 ár

Ljosmaedur

Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað árið 1919. Í þessari bók er saga félagsins rakin í máli og myndum allt frá þeim tíma til okkar daga. Þá er hér einnig að finna ljósmæðratal fyrir útskrifaðar ljósmæður á árunum 1984-2019, auk nokkurra sem útskrifuðust fyrr, en áður var komið út stéttartal ljósmæðra og náði það fram til útskriftar 1983.

Leiðbeinandi verð: 14.980-.

Útgáfuár: 2021

Jólakveðja

Ágætu Íslendingar! Bókaútgáfan Hólar sendir landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýjárskveðjur og þakkar fyrir samstarfið – og góðar viðtökur Hólabóka – á árinu sem er að líða. Munum að ganga hægt um gleðinnar dyr að þessu sinni því nú er það „jákvætt að vera neikvæður!“. Lifið heil!

Sunnudagur 20. desember 2020
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is