
Nýjasta útgáfa Hóla
Hrafna-Flóki
Haraldur hárfagri fer í Víking við strendur Noregs, en Hrafna-Flóki vill ekki gefa sig á vald galdrakonungsins og drauga hans. Hann leitar sér því að nýju landi til að geta ráðið sér sjálfur og tekur með sér dætur sínar þrjár, menn og húsdýr. Eyjan þar sem þau taka land er falleg, en þar leynist margt óvænt. Í fjöllunum eru ís, eldur og … andar.
Þetta er sagan um manninn sem gaf Íslandi nafn – bráðskemmtileg lesning fyrir jafnt unga sem aldna.
Leiðbeinandi verð: 2.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2011Einn stuttur – en góður!
Fjórir menn á níræðisaldri voru að leika golf. Einn þeirra kvartaði yfir því að hæðirnar væru of háar, annar að sandgryfjurnar væru of djúpar og sá þriðji sagði að of langt væri á milli holanna.
„Þegið þið bara!“ sagði sá fjórði. „Við erum að minnsta kosti réttum megin við grasið.“
Föstudagur 29. júlí 2011Einn góður!
Prentarinn bilaði og Kalli fór með hann í viðgerð á tölvuverkstæðið. Í ljós kom að það þurfti að hreinsa gripinn og það kostaði 5.000 krónur. Vingjarnlegur viðgerðarmaður benti Kalla á að ef hann læsi vel upplýsingabæklinginn sem fylgdi prentaranum gæti hann líklega hreinsað hann sjálfur.
„Veit yfirmaður þinn af þessu? Það er ekki oft sem maður fær svona ráðleggingar,“ sagði Kalli.
„Ja, þetta er nú eiginlega hugmynd eigandans,“ sagði afgreiðslumaðurinn feimnislega. „Við græðum nefnilega miklu meira á viðgerðum þegar fólk er sjálft búið að reyna að gera við hlutina sína.“
Miðvikudagur 20. júlí 2011Engeyjarætt
Niðjatal um eina nafntoguðustu ætt á Íslandi, Engeyjarættina, er komið út og vafalítið kætast bæði ættingjar sem og áhugamenn um ættfræði yfir því enda um stórglæsilegt verk að ræða, prýtt fjölda mynda. Engeyjarættin er rakin til hjónanna Ólafar Snorradóttur (1783-1844) og Péturs Guðmundssonar (1786-1852) bænda í Engey og eru niðjar þeirra á sjötta þúsundið. Þá er að finna í þessu mikla ritverki – um 500 bls. – sem Sigurður Kristinn Hermundarson hefur ritstýrt.
Leiðbeinandi verð: 22.900-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2011Engeyjarætt – útgáfuhátíð
Mánudaginn 4. júlí verður haldin samkoma í Safnaðarheimili Neskirkju vegna útgáfu á Engeyjarætt. Mikið verk er nú loksins komið á bók og þarna geta áskrifendur nálgast sitt eintak og einnig verður ritið selt þar á tilboðsverði. Hægt verður að kaupa kaffi og meðlæti á staðnum og vonandi er að sem flestir af Engeyjarætt láti sjá sig og eigi saman notalega kvöldstund. Útgáfuhátíðin hefst kl. 20 og stendur til 22. Þeir sem ekki tilheyra ættinni, en hefðu hug á því að eignast bókina, eru að sjálfsögðu velkomnir.
Mánudagur 27. júní 2011Engeyjarætt
Síðari hluta júnímánaðar kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum mikið rit og voldugt, sjálf Engeyjarættin. Í ritinu er rakið niðjatal hjónanna Péturs Guðmundssonar og Ólafar Snorradóttur og má með sanni segja þetta sé í fyrsta sinn sem sannkölluð Reykjavíkurætt er gefin út. Hún tengjist mjög Vesturbæ Reykjavíkur, en einnig Seltjarnarnesi og svo er hún allfjölmenn á Austurlandi (Zoëga-fólkið í og frá Neskaupstað og Kröyer-fólkið á og frá Héraði) og á Norðurlandi vestra.
Vafalítið munu margir grúskarar fagna útkomu þessarar bókar sem er í ritstjórn Sigurðar Kristins Hermundarsonar.
Miðvikudagur 1. júní 2011Einn léttur!
Guðrún var reiðari en nokkru sinni fyrr.
„Þú ert fífl,“ sagði hún við mann sinn. „Þú hefur alltaf verið fífl og verður alltaf fífl. Ef það væri haldin keppni um það hver væri mesta fíflið myndir þú tvímælalaust lenda í öðru sæti!“
„Hvers vegna í öðru sæti?“ spurði maður hennar.
„Vegna þess að þú ert fífl!“
Fimmtudagur 5. maí 2011Svarfaðardalsfjöll
Svarfaðardalur er að sumum talinn fegursti dalur í byggð á Íslandi. Að einhverju leyti skapast það af því að dalurinn og afdalur hans eru umkringdir sérlega fallegum en jafnframt hrikalegum fjöllum. Þessi fjallgarður er lítt kannaður en árið 1995 ákváðu fjórir göngufélagar að ganga þennan fjallahring allan. Hreppamörkin umhverfis Svarfaðardal eru um 120 km löng og telja 75 tinda með jafnmörgum skörðum. Það tók félagana fimmtán göngudaga á átta árum að ljúka verkefninu. Í bókinni er ferðum þeirra félaganna eftir vatnaskilum og fjallseggjum lýst í máli en einnig með 138 myndum og 18 kortum. Nöfn flestra tinda eru færð inn á myndirnar og skörð eru nafnkennd á kortunum.
Höfundur bókarinnar er göngugarpurinn og náttúrufræðingurinn Bjarni E. Guðleifsson á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann hefur stundað fjallgöngur um árabil og skrifað um það bók, Á fjallatindum, sem var hið vandaðasta verk í alla staði. Þessi bók er ekki síðri, hún er afar smekkleg í alla staði og kjörgripur þeirra sem áhuga hafa á fjallgöngum og náttúru Íslands.
Leiðbeinandi verð: 4.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2011Einn í tilefni af sumarkomunni!
Fjóla var að leita sér að flottum sportbíl og fór á bílasöluna. Hún gekk á milli Rollsa og Benza og þegar hún sá guðdómlegan Lexus staðnæmdist hún og strauk yfir hann með hendinni. Um leið leysti hún óvart vind svo glumdi í. Hún leit skömmustuleg í kringum sig og vonaði að enginn hefði heyrt í henni. En þegar hún sneri sér við sá hún að sölumaður stóð fyrir aftan hana.
„Góðan dag, get ég aðstoðað?“ spurði hann kurteislega.
„Hvað kostar þessi … ehhhh … dásamlegi bíll?“ stamaði Fjóla.
„Frú mín góð!“ sagði sölumaðurinn. „Ef þú prumpar við það eitt að snerta hann hvað gerist þá þegar þú heyrir verðið!“
Þriðjudagur 26. apríl 2011Gleðilegt sumar!
Bókaútgáfan Hólar óskar öllum gleðilegs sumars og reyndar einnig gleðilegra páska, því örstutt er í þá. Og af því að nú er gaman, þá flýtur hér einn laufléttur með:
Ibn Saud ben Alekh var virtur og mikils metinn maður í þorpinu sínu. Dag nokkurn var hann viðstaddur kameldýrauppboð á torginu þegar hann fékk afar sáran magaverk. Áður en hann vissi af hafði hann leyst vind með miklum látum. Hávaðinn var mikill og lyktin það megn að þorpsbúar færðu sig fjær og störðu í forundran á hann. Ibn Saud skammaðist sín svo mikið að hann fór beinustu leið heim, pakkaði niður eigum sínum og yfirgaf æskustöðvarnar. Hann flakkaði um heiminn og þegar aldurinn færðist yfir hann fékk hann löngun til að sjá heimabæ sinn aftur. Hár hans var orðið sítt og grátt og sama mátti segja um skeggið sem náði honum niður á bringu. Hann var viss um að enginn myndi þekkja hann eða tengja hann við þetta auðmýkjandi atvik á torginu. Þegar hann kom inn í þorpið fór hann beint á torgið og sá að þar var búið að byggja stóra og fallega mosku. Ibn Saud stoppaði ungan mann og sagði við hann:
„Friður sé með þér, sonur sæll. Gætir þú sagt mér hvenær þessi moska var fullbyggð?“
„Látum okkur nú sjá,“ sagði maðurinn hugsandi. „Já, það hefur verið sjö árum, fimm mánuðum og tuttugu og tveimur dögum eftir að Ibn Saud rak við á torginu.“
Fimmtudagur 21. apríl 2011