Nýjasta útgáfa Hóla



Elfríð – frá hörmungum Þýskalands til hamingjustrandar

Elfrid-kapa

Það eru engar ýkjur að segja að margt hafi drifið á daga Elfríðar Pálsdóttur á langri ævi hennar.  Hún fæddist í Þýskalandi og upplifði hörmungar stríðsáranna þar sem dauðinn beið við hvert fótmál.  Nánustu ættingjar hennar og vinir urðu fórnarlömb átakanna og hún gekk í gegnum hræðilega lífsreynslu þegar hún missti báða foreldra sína og bræður.

En þrátt fyrir margs kyns mótlæti í lífinu stendur Elfríð óbuguð og segir nú einstæða sögu sína.  Lífsgleðin og bjartsýnin, sem hún fékk í vöggugjöf, hafa án efa hjálpað henni að komast í gegnum áföllin sem hún hefur orðið fyrir.  Hún kom til Íslands árið 1949 og fór sem vinnukona á Siglunes við Siglufjörð.  Þar kynntist hún sveitapilti, Erlendi Magnússyni.  Þau felldu hugi saman og hafa verið gift í 60 ár.

Það var ekki auðvelt fyrir unga stúlku, sem kom úr erlendri stórborg, að sætta sig við þær aðstæður sem voru víða til sveita um miðja síðustu öld.  En Elfríð vildi gleyma sorgum og raunum sem hún upplifði í heimalandi sínu og hamingjuna fann hún við ströndina og öðlaðist sálarheill.  Þau hjónin, Elfríð og Erlendur, bjuggu fyrst á Siglunesi en síðan í rúman aldarfjórðung á Dalatanga þar sem þau gegndu störfum vitavarða.

Það var Elfríði mikil raun að rifja upp æskuár sín í Þýskalandi.  Lesendur þessarar bókar munu vafalítið skilja af hverju svo var.

Leiðbeinandi verð: 5.980-.

Útgáfuár: 2011

Skagfirskar skemmtisögur

skagfirskar_skemmtisogur_kapa

Skagfirskar skemmtisögur hafa að geyma um 200 gáskafullar gamansögur úr daglegu amstri Skagfirðinga og samferðarmanna þeirra til sjós og lands.  Við sögu koma m.a. séra Hjálmar Jónsson, Álftagerðisbræður, Haraldur frá Kambi, Dúddi frá Skörðugili, Friggi á Svaðastöðum, Haraldur Bessason, Hvati á Stöðinni, Gísli Einarsson og Bjarni Har.  Eru þá sárafáir nefndir af þeim sem kallaðir eru til leiks í þessari bráðskemmtilegu bók.

Leiðbeinandi verð: 2.980-.

 

Útgáfuár: 2011

Sögur af Villa Þór

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson – Villi rakari – var jarðsettur í dag.  Hann var mikill húmoristi og í bókinni Íslenskar gamansögur 2 er að finna nokkrar sögur sem ættaðar eru frá honum.  Hér koma tvær þeirra:

Sæmundur heitinn Guðvinsson blaðamaður var fastur viðskiptavinur hjá Villa Þór árum saman.  Eitt sinn kom hann í klippingu og vildi líka fá hárþvott og þar sem hann sat og hallaði sér afturábak yfir vaskinn fékk rakarinn flugu í höfuðið; greip skærin og klippti bindi Sæmundar í sundur rétt neðan við hnútinn.  Sæmundur rak upp stór augu en Villi útskýrði þetta á sama hátt og Þorgeir Hávarsson útskýrði dráp smalamannsins í Fóstbræðrasögu – að það hefði staðið svo vel til höggs.

Villi Þór gaf Sæmundi tvö bindi í sárabætur en upp frá þessu kom Sæmundur aldrei í klippingu til Villa öðruvísi en með þverslaufu.

*

Villi Þór var knattspyrnudómari um langt skeið.  Eitt sinn var hann að dæma knattspyrnuleik í Vestmannaeyjum og með honum voru að sjálfsögðu tveir línuverðir eða aðstoðardómarar eins og þeir kallast nú.  Snemma í leiknum kom upp atvik þar sem Villa grunaði að um rangstöðu væri að ræða og leit hann því til þess línuvarðar sem átti að fylgjast með þeim vallarhelmingi.  Þar var hins vegar litla hjálp að fá því umræddur línuvörður sneri baki í völlinn.  Svipað atvik kom aftur fyrir skömmu síðar og í leikhléinu spurði Villi línuvörðinn nokkuð höstuglega hvað hann væri eiginlega að hugsa.

-Fyrirgefðu, stundi línuvörðurinn, – en ég hef bara aldrei áður komið til Vestmannaeyja og það er svo margt að sjá hérna.

Föstudagur 21. október 2011

Villi Þór látinn

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, hársnyrtir, er látinn 58 ára að aldri.  Villi Þór var einn af þessum persónuleikum sem auðga mannlífið; hann var iðulega kátur og hress og með gamanyrði á vörum, þótt hann hefði mátt þola margt hin síðari ár.  Sárastur var missir dóttur hans, Ástu Lovísu, sem lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein, en fleiri urðu áföllin og fékk hann svo sannarlega sinn skerf af þeim – og ríflega það.

Lífsreynslusaga Villa Þórs, Meðan hjartað slær, sem kom út fyrir þremur árum hjá Bókaútgáfunni Hólum, vakti mikla athygli.  Þá bók, sem Sigurður Þór Salvarsson skráði, ættu allir að lesa.  Þar kemur glögglega í ljós hversu sterkur persónuleiki Villi Þór var, sama hvað á gekk.  Hann bognaði, en brotnaði aldrei og hefði svo sannarlega átt skilið að fá að njóta margra eftirlaunaára eftir allt sem á undan var gengið.  En honum er greinilega ætlað annað hlutverk.

Blessuð sé minning hins ljúfa og skemmtilega drengs, Villa Þórs.

Guðjón Ingi Eiríksson

Miðvikudagur 12. október 2011

Smágrín

Maður bauð dömu í bíó um daginn, Hangover part 2 í Smárabíói. Hann sótti hana eins og herramanni sæmir, opnaði hurðina fyrir henni og hún sest inn. Þau leggja af stað en þá snýr hún sér að honum og segir:

-Ég vil bara að þú vitir að ég  fer ekki alla leið á fyrsta deiti.

Svo hann lét hana út á Dalveginum …

Mánudagur 10. október 2011

Sjónhverfingar-læturðu blekkjast

sjónhverfingar 2011

Í þessari bók er ekki allt sem sýnist, enda er hún stútfull af blekkingum og heilabrotum sem gaman er að glíma við.

Leiðbeinandi verð: 1.190-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2011

Fótboltaspilið

Mig langar til að vekja athygli ykkar á nýju spili sem kemur út um mánaðarmótin.  Það heitir FÓTBOLTASPILIÐ og er eftir knattspyrnuspekinginn Guðjón Inga Eiríksson.  Það inniheldur 1800 fótboltaspurningar í sex flokkum, en þeir eru: Enski boltinn, Íslenski boltinn, Evrópuboltinn, Landsliðin, Út um víðan völl og 1 X 2. Spilið er fyrir alla sem fylgjast með fótbolta, jafnt unga sem aldna, en allt að sex geta spilað í einu (auðvitað geta verið fleiri en einn i liði). Það verður í fallegum kassa og leikspjaldið afar flott.

Leiðbeinandi verð spilsins verður kr. 7.980-, en ykkur býðst nú að kaupa það í forsölu á kr. 6.980.  Hægt er að panta spilið á netfanginu holar@holabok.is, en einnig í símum 557-5270 og 587-2619.  Ganga þarf frá greiðslu um leið og það er pantað, t.d. gefa upp greiðslukortanúmer + gildistíma þess og kennitölu viðkomandi (það verður ekki tekið út af kortinu fyrr en spilið hefur verið sent viðkomandi kaupanda).  Einnig er hægt að greiða upphæðina inn á reikning Bókaútgáfunnar Hóla (þá gefur viðkomandi upp netfang sitt og hann verður svo látinn vita þegar spilið er tilbúið og leggur þá inn fyrir því).

Þetta er tvímælalaust jólagjöfin í ár fyrir knattspyrnuáhugafólkið.

Föstudagur 9. september 2011

Spurningabókin 2011

spurningabókin 2011

Hvernig er líkaminn á Hulk á litinn? Hver fór með hlutverk Buddy Holly í samnefndum söngleik hér á landi? Hvaða dýrategund í Afríku veldur fleiri dauðsföllum en nokkurt annað dýr í þeirri álfu? Ef Britannia Stadium er völlurinn, hvert er þá heimaliðið? Hvað hét móðir Vilhjálms Bretaprins? Hvert er gælunafn leikarans Guðjóns Davíðs Karlssonar?

Þetta og margt fleira í þessari bráðskemmtilegu bók sem ætti að vera til að hverju einasta heimili.

Leiðbeinandi verð: 1.190-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2011

Einn léttur!

-Ég ætla að skrifa upp á pillur fyrir þig, sagði læknirinn við offitusjúklinginn. -Þú átt ekki að taka þær inn.  Fleygðu þeim bara í gólfið tvisvar á dag og taktu þær upp, eina í einu.

Föstudagur 9. september 2011

Bestu barnabrandararnir-sprenghlægilegir og ferskir

Bestu barnabrandarnarnir 2011

Þetta er sextánda bókin í þessum bráðskemmtilega og vinsæla bókaflokki sem hefur svo sannarlega skemmt jafnt ungum sem öldnum í gegnum tiðina.  Og þessi bók gefur hinum fyrri ekkert eftir, enda er hún stútfull af bröndurum sem vafalítið kalla fram hlátrasköll hjá fjölmörgum á næstu mánuðum.

Leiðbeinandi verð: 1.190-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2011
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is