Nýjasta útgáfa Hóla



Dauðinn í Dumbshafi

Þá er hún loksins komin út: Dauðinn í Dumbshafi, eftir Magnús Þór Hafsteinsson – mögnuð bók um skipalestirnar sem fóru frá Hvalfirði til Rússlands í seinni heimsstyrjöldinni með vopn, vistir, lyf og sitthvað fleira handa Rússum.  Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fékk afhent fyrsta eintak bókarinnar á Bessastöðum í gær, fimmtudaginn 30. nóv., og má sjá myndir af því á slóðinni www.magnusthor.blog.is og eins af frétt um bókina og viðfangsefni hennar sem birtist í Kastljósinu, þriðjudaginn 28. nóv. og vakti mikil viðbrögð.

Fimmtudagur 1. desember 2011

Útgáfuteiti

Útgáfuteiti vegna útkomu bókarinnar Sigurður dýralæknir verður haldið í Eymundsson á Skólavörðustíg kl. 17 á morgun, föstudaginn 2. desember.  Þarna verður vafalítið mikið fjör, Sigurður mun fara á kostum eins og hans er von og vísa og ekki mun Gunnar Finnsson, sem hélt utan um skrif hans, liggja á liði sínu.

Allir velkomnir.

Fimmtudagur 1. desember 2011

Upplestur Sigurðar dýralæknis

Þeir sem vilja hlusta á Sigurð Sigurðarson lesa upp kafla úr ævisögu sinni, Sigurður dýralæknir, geta farið inn á þessa slóð:

http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1206739/

Laugardagur 26. nóvember 2011

Útgáfuteiti

Föstudaginn 25. nóvember verður haldið útgáfuteiti í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi vegna útgáfu fyrra bindinu af ævisögu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis frá Keldum á Rangárvöllum sem ber einfaldlega heitið Sigurður dýralæknir.  Teitið hefst klukkan 17 og auðvitað verður þarna mikið fjör eins og Sigurðar er von og vísa.

Láttu sjá þig.

Fimmtudagur 24. nóvember 2011

Dauðinn í Dumbshafi

Dauðinn í Dumbshafi-kápa

Viðfang þessarar bókar, skipalestir, sem fluttu vopn og vistir frá Vesturveldunum yfir Atlantshaf og austur með íshafsströnd Evrasíu til sovéskra hafna, er merkur kafli í sögu síðari heimsstyrjaldar ‒ og í sögu Íslands:

Hinn 23. júní 1941 réðst þýski herinn fyrirvaralaust inn í Sovétríkin, og sóttist hratt í leifturstríði framan af, svo jafnvel var búist við endanlegum sigri yfir Rússlandi vestan Úralfjalla um eða fyrir veturinn. Þannig hefðu Þjóðverjar komist yfir gífurlegar auðlindir, þar með olíu í Kákasus, sem hefði eflt hernaðarmátt þeirra til muna og að sama skapi veikt stöðu Breta og bandamanna þeirra.

Vesturveldin sáu þá leið vænlegasta til að styrkja Sovétmenn, og létta um leið álagi af eigin herjum og borgurum, að senda þessum nýju bandamönnum sem mest af nauðsynjum sem nýttust þeim í baráttu við sameiginlegan óvin ‒ vopn, tæknibúnað, málma og önnur hráefni til iðnaðar, lyf og eldsneyti. Langskilvirkasta leiðin fyrir þannig sendingar var sjóleiðin austur með strönd Norður-Íshafs til rússneskra hafna, Arkhangelsk, þegar íslaust var, en annars til Múrmansk.

Þetta var samt afar hættuleg leið, en svo mikilvæg að menn sættu sig við veruleg afföll. Á aðra hönd var siglt hjá norðurströnd Noregs, þar sem Þjóðverjar höfðu flugvelli með flugvélum, sem báru sprengjur og tundurskeyti, og skipalægi með kafbátum og herskipum. Skammt undan lágu í norsku fjörðunum við festar öflug herskip, allt upp í Tirpitz, stærsta og voldugasta herskip heims, systurskip Bismarcks. Að norðan var svo heimskautsísinn. Á sumrin var bjart mestallan eða allan sólarhringinn, svo auðratað var að stórum skipalestum eða jafnvel stökum skipum, en á veturna var ísröndin svo nærri landi að langfleygar sprengjuflugvélar gátu athafnað sig á öllu siglingasvæðinu. Við þetta bætist að þar voru veður oft  válynd, svo jafnvel á friðartímum var leiðin lítt fýsileg og sjór svo kaldur að fáir sem í hann féllu lifðu lengi.

Ísland kemur hér mjög við sögu. Farmskipin, frá Bandaríkjunum og Kanada eða frá Bretlandseyjum, söfnuðust yfirleitt saman í herskipalægi Bandamanna í Hvalfirði, og þaðan lá leiðin norður og austur með Íslandi yfir Atlantshaf og með norðurströnd Skandinavíu og Rússlands til Arkangelsk eða Múrmansk. Breski flotinn tók við hervernd skipalestanna í Hvalfirði, þótt oft væru bandarísk herskip í fylgd með þeim. Íslendingar voru í áhöfnum sumra skipanna, og fórust sumir en aðrir komust af.

Sáralítið hefur til þessa verið ritað um þessa sögu á íslensku, og raunar hefur sumt sem hér verður greint frá verið falið í leyndarskjölum þar til nýlega og hefur ekki heldur birst almenningi víða erlendis.

Það á til dæmis við um frægar hrakfarir stórrar skipalestar, PQ17, sem að skipan bresku herstjórnarinnar var látin dreifa sér úti fyrir Noregi og öll herskipin sem áttu að verja hana kölluð til annarra starfa, svo verulegur hluti skipanna varð flota og flugher Þjóðverja að bráð, og fórust með þeim allur farmur og margir farmenn.

Frá þessu og ýmsu öðru er greint í bókinni, sem ber réttnefnið Dauðinn í Dumbshafi. Höfundurinn, Magnús Þór Hafsteinsson, er sjómaður og menntaður sjólíffræðingur í norskum háskóla. Ritið ber það með sér að höfundur hefur sótt efni í ókjör heimilda, sem tilgreindar eru í bókarlok.

Enginn Íslendingur, sem vill kynnast sögu síðari heimsstyrjaldar og hlut Íslands í þeirri sögu, ætti að leiða þetta rit hjá sér.

Leiðbeinandi verð: 6.980-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2011

Sigurður dýralæknir

sigurdur dyralæknir kapaSigurður dýralæknir Sigurðarson frá Keldum er sögumaður góður og kann margar óborganlegar sögur af mönnum og málefnum.  Hér segir af uppvexti hans á Sigurðarstöðum í Bárðardal, Keldum á Rangárvölum, Selalæk og Hemlu; einnig námsárum hans í Héraðsskólanum á Skógum og Menntaskólanum á Akureyri, daglaunavinnu sem pakkhúskarl á Rauðalæk og slátrari á Hellu svo að nokkuð sé nefnt.  Ennfremur er sagt frá mönnum og málleysingjum sem orðið hafa á vegi hans, skrýtnum og skemmtilegum karakterum, eins og hann er sjálfur, kyndugum körlum og kerlingum, bændum og búaliði, prestum og kvenleysingjum og kvennamönnum víða um land.  Hér segir líka meðal annars af hlöðunni sem var dregin yfir heyið, reimleikum á Rauðalæk, ófúnu líki í kirkjugarðinum á Keldum, íhaldskoppinum og úthrópuðum rottuskítssala á Landi og í Holtum.

Leiðbeinandi verð: 5.980-.

Útgáfuár: 2011

Elfríð

Ein af útgáfubókum Hóla þetta árið er Elfríð – ævisaga Elfríðar Pálsdóttur sem fæddist í Þýskalandi og ólst þar upp á stríðsárunum.  Margar magnaðar frásagnir eru í bókinni og hér er ein þeirra, lítillega stytt:

Einhverju sinni var ég stödd í Lübeck hjá móðursystur minni þegar Hermann, móðurbróðir minn, kom í frí og það urðu miklir fagnaðarfundir. Hermann var uppáhaldsfrændi minn. Hann átti einn son sem hét líka Hermann, aðeins yngri en ég og var hann með föður sínum og móður í þessari heimsókn. Við frændsystkinin fórum inn í herbergi og dunduðum okkur eitthvað með spil og spjölluðum saman. Mig langaði frekar að hlusta á Hermann, eldri frænda minn, hann var svo skemmtilegur og fyndinn. Mér fannst mjög óréttlátt að senda okkur afsíðis meðan hann var í heimsókn, það var alveg óþarfi að ræða um eitthvað sem krakkar máttu ekki heyra. Ég stakk upp á því við frænda minn, að læðast fram og hlera, ég hef líklega verið tólf eða þrettán ára. En það sem frændi sagði fólkinu var ekki ævintýri né þjóðsaga heldur ekta sakamálasaga.
Frændi var að segja ættingjunum frá ferðalaginu heim og hvað honum liði illa eftir hræðilega upplifun, en hann og nokkrir félagar hans höfðu villst frá herdeildinni í skóginum rétt við landamæri Póllands og þeir reikuðu þar um. Frændi minn og félagi hans urðu viðskila við hópinn og eftir langa og erfiða göngu komu þeir á stíg sem lá að afskekktum bóndabæ þar sem fullorðin kona rak greiðasölu. Þeim fannst þetta hin vingjarnlegasta frú og báðu hana um að færa sér eitthvað að snæða. Þegar þeir voru mettir fundu þeir til þreytu og ákváðu að hvíla sig áður en lengra væri haldið. Kerling bauð þeim félögum herbergi með tvíbreiðu rúmi og hölluðu þeir sér strax útaf, dauðþreyttir eftir gönguna. Þegar þeir voru búnir að liggja smástund og svefninn alveg að sigra þá, varð Hermann frændi órólegur og spurði félaga sinn hvort hann fyndi ekki einkennilega lykt inn í herberginu, eins konar rotnunarþef. Þeir ákváðu að rannsaka málið og þegar þeir opnuðu fataskápinn blasti við þeim hræðileg sjón, tveir hermenn lágu í skápnum klæddir þýska búningnum og voru þeir báðir skornir á háls. Þeim félögum brá illilega en þeir þurftu að taka til sinna ráða. Þeir tóku líkin tvö og lögðu í rúmið með þeim ummerkjum að það var eins og þeir svæfu í fletinu. Svo slökktu þeir á ljóstýrunum og létu sig hafa að fara inn í skápinn, þeir fundu ekki fyrir þreytu lengur, voru of skelkaðir af þessum óhugnaði sem þeir höfðu séð. Eftir töluvert langan tíma urðu þeir varir við að dyrnar voru opnaðar mjög gætilega. Þeir fylgdust með í gegnum rifu á skápnum og frá skímu af ganginum sem barst inn í herbergið sáu þeir kerlinguna læðast inn með rakhníf í hendi. Þegar hún beygði sig yfir rúmið stukku þeir út úr skápnum og gátu yfirbugað kerlinguna. Þessi kona eða öllu heldur norn í mannsmynd var búin að drepa fjöldann allan af þýskum hermönnum og voru þeir grafnir út í garði.

Mánudagur 14. nóvember 2011

Skagfirskar skemmtisögur

Ein af jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla í ár er Skagfirskar skemmtisögur sem Björn Jóhann Björnsson hefur tekið saman.  Eftirfarandi sögur eru úr henni:

Kaupmaðurinn Bjarni Har. hefur löngum bjargað bæjarbúum og ferðamönnum um brýnustu nauðsynjar og verið til þjónustu reiðubúinn allan sólarhringinn ef því er að skipta. Hann getur jafnframt verið hrekkjóttur, ekki síst ef um pólitíska andstæðinga er að ræða.

Eitt sinn var haldinn félagsfundur á laugardegi hjá gamla Alþýðubandalaginu í Villa Nova, skammt frá verslun Bjarna. Var þetta rétt fyrir kosningar á Króknum. Uppgötvaðist þá að ekkert var til með kaffinu og voru menn sendir í innkaupaferð til Bjarna, sem tók vel á móti þeim og fór að tína saman drykki og eitthvað snarl með kaffinu í poka. Lét ekki þar við sitja heldur sagði að hann mætti til með að bæta smá lítilræði við og fór niður í kjallara. Kom þaðan upp með pokann fullan af veitingum og afhenti þeim félögum. Þeir tóku við pokanum, þökkuðu fyrir viðskiptin og sneru aftur til fundarins í Villa Nova. Veitingarnar voru teknar upp úr pokanum og neðst sáu þeir pakkann sem Bjarni hafði bætt við. Opnuðu þeir pakkann og kom þá í ljós að Bjarni hafði sent þeim smáfuglafóður!

*

Í gegnum tíðina hefur Bjarni haft ýmsa aðstoðarmenn og bensíntitti starfandi í versluninni. Einn veturinn kom ungur piltur frá Hofsósi til starfa, Pálmi Rögnvaldsson, síðar bankaútibússtjóri á Hofsósi. Fyrsta daginn hjá Pálma kom gömul kona snemma morguns inn í verslunina og spurði:

,,Áttu drullusokk, Bjarni minn?“

Bjarni benti þá á Pálma og sagði:

,,Já, bara þennan, en má ekki missa hann!“

*

Löngu síðar leit Pálmi við í versluninni hjá Bjarna Har., skömmu fyrir jól, og fór að rifja upp að nú væru 40 ár liðin frá því að hann aðstoðaði hann í versluninni.

,,Já, eru 40 ár liðin,“ sagði Bjarni, ,,þá hefði ég nú flaggað í hálfa væri stöngin ekki brotin!“

Föstudagur 11. nóvember 2011

Fótboltaspilið

fotboltaspilid-lokFÓTBOLTASPILIÐ, eftir Guðjón Inga Eiríksson, er komið út.  Það inniheldur 1800 fótboltaspurningar og býður upp á skemmtilega keppni tveggja eða fleiri.  Þarna er m.a. að finna spurningar um enska boltann, íslenska boltann, Meistaradeildina og auðvitað margt fleira. Fótboltaspilið er allt í senn fræðandi, skemmtilegt og spennandi og vafalítið munu knattspyrnuunnendur eiga góðar stundir yfir því á næstu vikum og mánuðum.

Fótboltaspilið fæst vitaskuld hjá Bókaútgáfunni Hólum (pöntunarsími 557-5270, netfang: holar@holabok.is), en einnig í flest öllum búðum og stórmörkuðum sem selja bækur.

Leiðbeinandi verð: 7.980-.

Útgáfuár: 2011

Fjör og manndómur

fjor og manndómur-kápaÍ þessari tuttugustu og fyrstu bók sinni snertir sagnameistarinn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku fjölmarga strengi í samfélagi liðinnar tíðar.  Fjallað er um nítján leiðir sem liggja um háfjallaskörð milli Mjóafjarðar og nágrannabyggðarlaganna og hrakninga þar – sem ekki enduðu allir vel.  Þá beinist athygli sögumanns mjög að hlutverki kvenna og líkur bókinni á æviþætti konu sem ekki mátti sín mikils, en lifði langa ævi og dó á tíræðisaldri – án þess að hafa í eitt einasta skipti leitað til læknis, utan augnlæknis einu sinni.

Leiðbeinandi verð: 5.480-.

Útgáfuár: 2011
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is