Bækurnar frá Bókaútgáfunni Hólum streyma nú hver af annarri úr prentsmiðjunni og auðvitað er þeim dreift strax í bókabúðir. Unglingabókin ÓLGA var fyrsta bók ársins, síðan kom göngugarpabókin KINNAR- OG VÍKNAFJÖLL, þá TIL TAKS - ÞYRLUSAGA LANDHELGISGÆSLU ÍSLANDS - FYRSTU 40 ÁRIN, og nú síðast FIMM AURAR - Fyndnustu brandarar í heimi! Fleiri eru svo væntanlegar áður en langt um líður, m.a. bækur um knattspyrnu, hjátrú, síld, fugla, mest notaða orðasamband í heimi (já, hvert skyldi það nú vera?) og Drottninguna í Dalnum, fyrir nú utan bráðskemmtilegt smásagnasafn og spurningabók. Þið ættuð því endilega að fylgast með væntanlegum útgáfufréttum á holabok.is.
Þá er fyrsta Hólabók ársins 2023 komin út. Hún heitir Hormónar og fleira fólk - Missannar sögur frá síðustu öld, er eftir Halldór Ólafsson, og saman stendur af fjölmörgum smellnum sögum og vísum. Er ekki tilvalið að fara brosandi og jafnvel skellihlægjandi inn í sumarið?
Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcákova lést nú í ársbyrjun. Bókaútgáfan Hólar gaf út tveir bækur eftir Önnu, Milli mjalta og messu, sem byggði á samnefndum og vinsælum útvarpsþáttum hennar, og Með létt skap og liðugan talanda, sem er ævisaga Möggu í Dalsmynni. Báðar bækurnar nutu vinsælda, enda var Anna fundvís á viðmælendur og kunni þá list að leita eftir því markverða og segja þá sögu vel og heiðarlega. Blessuð sé minning Önnu Kristine.
Margir hafa þann skemmtilega sið að skrá hjá sér eitt og annað í dagbækur. Senn lýkur þessu ári og því viljum við Hólamenn minna á Fugladagbókina 2022, sem er í rauninni miklu meira en hefðbundin dagbók. Þar er að finna fróðleik um 52 fugla - einn fyrir hverja viku, marga svokallaða flækinga hér á landi, auk glæsilegra mynda af þeim. Fyrir fuglaáhugafólk er tilvalið að punkta hjá sér ýmislegt í bókina varðandi fugla, s.s. hvenær þessi fugl sást og þá hvar. Svo má vitaskuld nota dagbókina eins og hverja aðra og punkta hjá sér hvaðeina sem gott er að eiga skráð. Bókin er mjög hentug og t.d. fyrir fuglaáhugamenn má nefna að hún fer einkar vel í tösku. Því er tilvalið að grípa hana með sér í fuglaskoðun.
Fugladagbókin 2022, sem er eftir Sigurð Ægisson, er sannkölluð gersemi á meðal dagbóka!
Um miðjan þennan mánuð lést Guðmundur Steingrimsson - Papa Jazz. Hann var afar snjall trommuleikari og einn af brautryðjendum djassins hér á landi; lék með fjölda hljómsveita og kenndi ýmsum þá list sem vandaður trommuleikur er.
Árið 2009 kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum ævisaga Guðmundar og ber hún einfaldlega heitið Papa Jazz. Það var Árni Matthíasson sem skráði og má fullyrða hér og nú að samvinna þeirra félaga hafi orðið til þess að margvíslegur fróðleikur um tónlistarlífið á Íslandi varðveitist um ókomin ár og þá ekki síst það sem snýr að jazzinum.
Undirritaður kynntist Guðmundi vel á þessum árum og ræddum við um heima og geima, meira að segja um knattspyrnu, en Papa Jazz var stuðningsmaður Leeds og fylgdist ágætlega með boltasparkinu. Þess utan var hann mikill sögubrunnur um menn og málefni og var virkilega gaman að hlusta á hann segja frá. Hann kunni óteljandi sögur, fæstar máttu auðvitað fara eitthvað lengra, en hann sagði þær og aðrar einnig af slíkri snilld að unun var af.
Blessuð sé minning Papa Jazz.
Guðjón Ingi Eiríksson.
Hólar á Facebook
Póstlistaskráning
Leita á þessari síðu
Vísur um blóm og stjörnur
Vísur fyrir þig sem ert í góðu skapi og líka fyrir þig sem ert daprari. Vísur fyrir þau sem eru ástfangin og hin sem eru í ástarsorg.
Þær hafa orðið til af mismunandi tilefnum en vilja standa allar saman í einni bók. Bók undir áhrifum frá íslenskum rímum og japönskum hækum.