Dauðinn í Dumbshafi
Viðfang þessarar bókar, skipalestir, sem fluttu vopn og vistir frá Vesturveldunum yfir Atlantshaf og austur með íshafsströnd Evrasíu til sovéskra hafna, er merkur kafli í sögu síðari heimsstyrjaldar ‒ og í sögu Íslands:
Hinn 23. júní 1941 réðst þýski herinn fyrirvaralaust inn í Sovétríkin, og sóttist hratt í leifturstríði framan af, svo jafnvel var búist við endanlegum sigri yfir Rússlandi vestan Úralfjalla um eða fyrir veturinn. Þannig hefðu Þjóðverjar komist yfir gífurlegar auðlindir, þar með olíu í Kákasus, sem hefði eflt hernaðarmátt þeirra til muna og að sama skapi veikt stöðu Breta og bandamanna þeirra.
Vesturveldin sáu þá leið vænlegasta til að styrkja Sovétmenn, og létta um leið álagi af eigin herjum og borgurum, að senda þessum nýju bandamönnum sem mest af nauðsynjum sem nýttust þeim í baráttu við sameiginlegan óvin ‒ vopn, tæknibúnað, málma og önnur hráefni til iðnaðar, lyf og eldsneyti. Langskilvirkasta leiðin fyrir þannig sendingar var sjóleiðin austur með strönd Norður-Íshafs til rússneskra hafna, Arkhangelsk, þegar íslaust var, en annars til Múrmansk.
Þetta var samt afar hættuleg leið, en svo mikilvæg að menn sættu sig við veruleg afföll. Á aðra hönd var siglt hjá norðurströnd Noregs, þar sem Þjóðverjar höfðu flugvelli með flugvélum, sem báru sprengjur og tundurskeyti, og skipalægi með kafbátum og herskipum. Skammt undan lágu í norsku fjörðunum við festar öflug herskip, allt upp í Tirpitz, stærsta og voldugasta herskip heims, systurskip Bismarcks. Að norðan var svo heimskautsísinn. Á sumrin var bjart mestallan eða allan sólarhringinn, svo auðratað var að stórum skipalestum eða jafnvel stökum skipum, en á veturna var ísröndin svo nærri landi að langfleygar sprengjuflugvélar gátu athafnað sig á öllu siglingasvæðinu. Við þetta bætist að þar voru veður oft válynd, svo jafnvel á friðartímum var leiðin lítt fýsileg og sjór svo kaldur að fáir sem í hann féllu lifðu lengi.
Ísland kemur hér mjög við sögu. Farmskipin, frá Bandaríkjunum og Kanada eða frá Bretlandseyjum, söfnuðust yfirleitt saman í herskipalægi Bandamanna í Hvalfirði, og þaðan lá leiðin norður og austur með Íslandi yfir Atlantshaf og með norðurströnd Skandinavíu og Rússlands til Arkangelsk eða Múrmansk. Breski flotinn tók við hervernd skipalestanna í Hvalfirði, þótt oft væru bandarísk herskip í fylgd með þeim. Íslendingar voru í áhöfnum sumra skipanna, og fórust sumir en aðrir komust af.
Sáralítið hefur til þessa verið ritað um þessa sögu á íslensku, og raunar hefur sumt sem hér verður greint frá verið falið í leyndarskjölum þar til nýlega og hefur ekki heldur birst almenningi víða erlendis.
Það á til dæmis við um frægar hrakfarir stórrar skipalestar, PQ17, sem að skipan bresku herstjórnarinnar var látin dreifa sér úti fyrir Noregi og öll herskipin sem áttu að verja hana kölluð til annarra starfa, svo verulegur hluti skipanna varð flota og flugher Þjóðverja að bráð, og fórust með þeim allur farmur og margir farmenn.
Frá þessu og ýmsu öðru er greint í bókinni, sem ber réttnefnið Dauðinn í Dumbshafi. Höfundurinn, Magnús Þór Hafsteinsson, er sjómaður og menntaður sjólíffræðingur í norskum háskóla. Ritið ber það með sér að höfundur hefur sótt efni í ókjör heimilda, sem tilgreindar eru í bókarlok.
Enginn Íslendingur, sem vill kynnast sögu síðari heimsstyrjaldar og hlut Íslands í þeirri sögu, ætti að leiða þetta rit hjá sér.
Leiðbeinandi verð: 6.980-.
Uppseld.
Útgáfuár: 2011