Nýjasta útgáfa Hóla



FIMM AURAR – Fyndnustu brandarar í heimi

Vissuð þið að fjórir af hverjum þremur Íslendingum eiga í vandræðum með almenn brot?

Hvers konar mjöl er notað í djöflatertu?
Fjandakorn.

Hvar geymir Drakúla peningana sína?
Nú, auðvitað í Blóðbankanum.

Hver er munurinn á lauki og harmóniku?
Það grætur enginn þegar harmónika er skorin niður!

Já, það eru gríðarmörg gullkorn í þessari stórskemmtilegu bók – sem auðvitað spyr ekki að aldri, enda hafa allir gott af því að hlæja aðeins innan um sífelldar og grátlegar fréttir af helv. stýrivöxtum.

Leiðbeinandi verð: 2.280-.

Útgáfuár: 2024

Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands – fyrstu 40 árin

Í þessari bók er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.

Leiðbeinandi verð: 7.480-.

Útgáfuár: 2024

Fjöllin í Grýtubakkahreppi

Hér segir frá fjallgöngum um Gjögraskaga, vestan Flateyjardals inn fyrir Víkurskarð.
Bókinn er tvískipt. Annars vegar ferðasögur höfundar á alla fjallatinda í Grýtubakkahreppi og hins vegar 13 gönguleiðarlýsingar á valin fjöll á svæðinu, tvær leiðir yfirá Flateyjardal um Skriðurnar og Sandskarð, auk þess sem lýst er hringnum frá Grenivík um Trölladal, Fjörður og Látraströnd.
Um 280 ljósmyndir eru í bókinni og 47 kort, þar af eitt stórt af svæðinu, og svo eru gsp-hnit til glöggvunar fyrir lesandann. Um endurútgáfu er að ræða.
.
Leiðbeinandi verð: 5.980-.
.
Útgáfuár: 2024

Kinnar – og Víknafjöll

Í þessari bók lýsir höfundurinn og göngugarpurinn, Hermann Gunnar Jónsson, í máli og myndum fjallgöngum á austanverðum Gjögraskaga/Flateyjarskaga, auk þess leiðum úr Hvalvatnsfirði, austur á Flateyjardal og þaðan til Náttfaravíkna og inn í Kinn. Þessu fylgja fjöldi mynda og korta (m.a. stórt heildarkort af svæðinu), sem og GPS-hnit og QE-kóði af gönguleiðum. Bókin er kjörin ferðafélagi allra þeirra sem ganga um þetta svæði.

Leiðbeinandi verð: 6.980-.

Útgáfuár: 2024

Ólga – Kynjaslangan

Hrafnklukka heldur því fram að Kormákur álfakonungur sé enn á lífi en álfasystkinin Sylvía og Brjánn trúa því ekki og sú togstreita veldur upplausn í vinahópi Svandísar.

Andspyrnuflokkur innan skuggaheima reynir að koma foringjanum frá völdum en barátta skugga og huldufólks nær hæstu hæðum og út brýst blóðug styrjöld. Galdraseyði, galdraþuklur, lífsteinar og jarðhræringar koma við jarðhræringar koma við sögu þegar þarf að kljást við stórhættulega kynjaslöngu mitt í hatrömmum deilum tveggja heima.

Ólga er sjálfstætt framhald fyrri bóka Hrundar Hlöðversdóttur, Ógnar og Óróa, sem fjalla um sömu sögupersónur og byggja á þjóðsagnaarfi Íslendinga.  Þetta er æsispennandi ævintýrasaga sem veitir okkur innsýn í hugarheim forfeðra okkar og -mæðra.

Leiðbeinandi verð: 4.680-.

Útgáfuár: 2024
Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is