Villi Þór látinn
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, hársnyrtir, er látinn 58 ára að aldri. Villi Þór var einn af þessum persónuleikum sem auðga mannlífið; hann var iðulega kátur og hress og með gamanyrði á vörum, þótt hann hefði mátt þola margt hin síðari ár. Sárastur var missir dóttur hans, Ástu Lovísu, sem lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein, en fleiri urðu áföllin og fékk hann svo sannarlega sinn skerf af þeim – og ríflega það.
Lífsreynslusaga Villa Þórs, Meðan hjartað slær, sem kom út fyrir þremur árum hjá Bókaútgáfunni Hólum, vakti mikla athygli. Þá bók, sem Sigurður Þór Salvarsson skráði, ættu allir að lesa. Þar kemur glögglega í ljós hversu sterkur persónuleiki Villi Þór var, sama hvað á gekk. Hann bognaði, en brotnaði aldrei og hefði svo sannarlega átt skilið að fá að njóta margra eftirlaunaára eftir allt sem á undan var gengið. En honum er greinilega ætlað annað hlutverk.
Blessuð sé minning hins ljúfa og skemmtilega drengs, Villa Þórs.
Guðjón Ingi Eiríksson
Miðvikudagur 12. október 2011