Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku – Örnefni í Mjóafirði

Þann 20. september næstkomandi  hefði Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði orðið 100 ára.  Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum vandað rit eftir hann, Örnefni í Mjóafirði.  Þar verður að finna á 320 blaðsíðum örnefnaskrá allra jarða við Mjóafjörð, ásamt frásögnum tengdum örnefnunum og öðrum fróðleik. Í bókinni verða einnig  kort,  litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á og fjöldi annarra mynda.

Vilhjálmur stundaði lengi kennslu og búskap í sinni heimabyggð, en þekktastur er hann þó fyrir hin pólitísku störf sín, en hann var lengi alþingismaður fyrir Framsóknar-flokkinn í Austurlandskjördæmi og mennta-málaráðherra 1974-1978.  Þá skrifaði hann fjölda bóka um menn, málefni og heimabyggð sína.

Sú bók sem nefnd er hér að ofan er síðasta ritverk Vilhjálms og hefur enginn á Íslandi staðið fyrir bókaútgáfu svo gamall og raunar bætti hann sífellt á undanförnum árum eigið Íslandsmet hvað þetta varðar.

Þegar byrjað var að búa umrædda bók til prentunar sagði Vilhjálmur svo frá, að „annaðhvort verður þetta afmælisrit eða minningarrit“.  Því miður verður hið síðarnefnda ofan á.

Aftast í bókinni verður Tabula memorialis (minningarskrá) og þar geta þeir sem heiðra vilja minningu Vilhjálms fengið nafnið sitt skráð og um leið gerst áskrifendur að bókinni sem kostar kr. 6.480- m/vsk og sendingargjaldi.

Hægt er að panta bókina fram til 5. ágúst í netfanginu erna@holabok.is eða í símum 690-8595/587-2619.

F.h. Bókaútgáfunnar Hóla

Erna Ýr Guðjónsdóttir

Sunnudagur 27. júlí 2014
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is