Sögur af Villa Þór

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson – Villi rakari – var jarðsettur í dag.  Hann var mikill húmoristi og í bókinni Íslenskar gamansögur 2 er að finna nokkrar sögur sem ættaðar eru frá honum.  Hér koma tvær þeirra:

Sæmundur heitinn Guðvinsson blaðamaður var fastur viðskiptavinur hjá Villa Þór árum saman.  Eitt sinn kom hann í klippingu og vildi líka fá hárþvott og þar sem hann sat og hallaði sér afturábak yfir vaskinn fékk rakarinn flugu í höfuðið; greip skærin og klippti bindi Sæmundar í sundur rétt neðan við hnútinn.  Sæmundur rak upp stór augu en Villi útskýrði þetta á sama hátt og Þorgeir Hávarsson útskýrði dráp smalamannsins í Fóstbræðrasögu – að það hefði staðið svo vel til höggs.

Villi Þór gaf Sæmundi tvö bindi í sárabætur en upp frá þessu kom Sæmundur aldrei í klippingu til Villa öðruvísi en með þverslaufu.

*

Villi Þór var knattspyrnudómari um langt skeið.  Eitt sinn var hann að dæma knattspyrnuleik í Vestmannaeyjum og með honum voru að sjálfsögðu tveir línuverðir eða aðstoðardómarar eins og þeir kallast nú.  Snemma í leiknum kom upp atvik þar sem Villa grunaði að um rangstöðu væri að ræða og leit hann því til þess línuvarðar sem átti að fylgjast með þeim vallarhelmingi.  Þar var hins vegar litla hjálp að fá því umræddur línuvörður sneri baki í völlinn.  Svipað atvik kom aftur fyrir skömmu síðar og í leikhléinu spurði Villi línuvörðinn nokkuð höstuglega hvað hann væri eiginlega að hugsa.

-Fyrirgefðu, stundi línuvörðurinn, – en ég hef bara aldrei áður komið til Vestmannaeyja og það er svo margt að sjá hérna.

Föstudagur 21. október 2011
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is