Skagfirskar skemmtisögur

Ein af jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla í ár er Skagfirskar skemmtisögur sem Björn Jóhann Björnsson hefur tekið saman.  Eftirfarandi sögur eru úr henni:

Kaupmaðurinn Bjarni Har. hefur löngum bjargað bæjarbúum og ferðamönnum um brýnustu nauðsynjar og verið til þjónustu reiðubúinn allan sólarhringinn ef því er að skipta. Hann getur jafnframt verið hrekkjóttur, ekki síst ef um pólitíska andstæðinga er að ræða.

Eitt sinn var haldinn félagsfundur á laugardegi hjá gamla Alþýðubandalaginu í Villa Nova, skammt frá verslun Bjarna. Var þetta rétt fyrir kosningar á Króknum. Uppgötvaðist þá að ekkert var til með kaffinu og voru menn sendir í innkaupaferð til Bjarna, sem tók vel á móti þeim og fór að tína saman drykki og eitthvað snarl með kaffinu í poka. Lét ekki þar við sitja heldur sagði að hann mætti til með að bæta smá lítilræði við og fór niður í kjallara. Kom þaðan upp með pokann fullan af veitingum og afhenti þeim félögum. Þeir tóku við pokanum, þökkuðu fyrir viðskiptin og sneru aftur til fundarins í Villa Nova. Veitingarnar voru teknar upp úr pokanum og neðst sáu þeir pakkann sem Bjarni hafði bætt við. Opnuðu þeir pakkann og kom þá í ljós að Bjarni hafði sent þeim smáfuglafóður!

*

Í gegnum tíðina hefur Bjarni haft ýmsa aðstoðarmenn og bensíntitti starfandi í versluninni. Einn veturinn kom ungur piltur frá Hofsósi til starfa, Pálmi Rögnvaldsson, síðar bankaútibússtjóri á Hofsósi. Fyrsta daginn hjá Pálma kom gömul kona snemma morguns inn í verslunina og spurði:

,,Áttu drullusokk, Bjarni minn?“

Bjarni benti þá á Pálma og sagði:

,,Já, bara þennan, en má ekki missa hann!“

*

Löngu síðar leit Pálmi við í versluninni hjá Bjarna Har., skömmu fyrir jól, og fór að rifja upp að nú væru 40 ár liðin frá því að hann aðstoðaði hann í versluninni.

,,Já, eru 40 ár liðin,“ sagði Bjarni, ,,þá hefði ég nú flaggað í hálfa væri stöngin ekki brotin!“

Föstudagur 11. nóvember 2011
Efnisflokkun: Fréttir og tilkynningar

Panta

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is