Sigurður dýralæknir – afmælisrit
Vísindamaðurinn, sagnamaðurinn og gleðimaðurinn, í góðri merkingu þess orðs, Sigurður Sigurðarson, dýralæknir frá Keldum, verður 75 ára þann 2. október næstkomandi. Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum seinni bindið af æviminningum Sigurðar og er það jafnframt afmælisrit hans. Þar segir hann frá lífshlaupi sínu, allt frá dýralæknanáminu í Noregi til þessa dags, og dregur fram í dagsljósið ógrynni sagna af skemmtilegu fólki og skemmtilegum viðburðum, þótt vissulega hafi hann fengið sinn skerf af mótlæti og meðal annars verið hótað lífláti. Þá er vísum vitaskuld varpað fram, enda liggur kveðskapur honum létt á tungu og yrkir hann næstum jafnhratt og aðrir menn tala.
Í fyrrnefndum afmælisriti verður að sjálfsögðu heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og býður útgefandi öllum þeim sem sýna vilja Sigurði sóma að skrá nafn sitt þar og eignast um leið bókina. Verð hennar verður kr. 6.480- m/sendingargjaldi og er tekið við áskrifendum í netfanginu brynjar@holabok.is og í síma 698-6919.
Fimmtudagur 10. apríl 2014