Nýjasta útgáfa Hóla



Ný bók!

Bókaútgáfan Hólar er þessa stundina að fá í hús glænýja bók eftir Arnþór Gunnarsson, sagnfræðing frá Hornafirði.  Bókin heitir Á afskekktum stað og inniheldur frásagnir sex Austur-Skaftfellinga sem segja má að ferðist með okkur í tíma og rúmi.  Sjá nánar um bókina hér til hægri.

Rétt er að geta þess að útgáfuveisla vegna úrkomu bókarinnar verður haldin í Pakkhúsinu á Hornafirði á skírdag og eru allir velkomnir þangað.  Veislan hefst klukkan 14 og þar verður bókin seld á tilboðsverði, kr. 2.500-.

Mánudagur 18. apríl 2011

Á afskekktum stað

Á afskekktum stað

Bókin Á afskekktum stað er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga. Bókinni er ætlað að gefa lesendum tilfinningu fyrir sögu og þróun mannlífs í Austur-Skaftafellssýslu frá því á árunum milli stríða fram til dagsins í dag. Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.

Leiðbeinandi verð: 3.500-.

Uppseld.

Útgáfuár: 2011

Einn góður!

Jæja, elskurnar mínar.  Ég hef stundum laumað gamansögu á þessa síðu og vonandi hefur það mælst vel fyrir.  Hér er ein í safnið:

Unga móðirin var hjá geðlækninum.

„Þú hefur allt of miklar áhyggjur af barninu þínu,“ sagði hann. „Ég ætla að skrifa upp á róandi lyf sem þú þarft að taka tvisvar á dag. Komdu svo til mín aftur í næstu viku.“

Viku seinna kom konan og geðlæknirinn spurði:

„Hafa lyfin haft einhver áhrif?“

„Já,“ svaraði konan. „Þau hafa gert algjört kraftaverk.“

„Hvernig hefur svo barnið þitt það?“

„Hverjum er ekki sama!“

Sunnudagur 27. mars 2011

Séra Jón Bjarman látinn

Séra Jón Bjarman, fanga- og síðar sjúkrahúsprestur, lést 17. mars sl., 78 ára að aldri.  Ævisaga hans, Af föngum og frjálsum mönnum, kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum árið 1999 og var fyrsta ævisagan af mörgum sem Hólar hafa gefið út.  Þá hafa Hólar gefið út tvær ljóðabækur eftir séra Jón, Undir fjallshlíðum og Stef úr steini.

Bókaútgáfan Hólar þakkar séra Jóni Bjarman ánægjulegt samstarf og sendir samúðarkveðjur til eiginkonu hans, Hönnu Pálsdóttur, og annarra ættingja.

Sunnudagur 20. mars 2011

Einn bráðsmellinn

Þrír ungir piltar fengu lélegar einkunnir í kynfræðslu. Jói fékk D+, Gummi D- og Nonni fékk F.

„Einn daginn fær tíkin sko að finna fyrir því,“ sagði Jói bálreiður og var að tala um Guðríði kennslukonu.

„Já, við náum henni og klæðum hana úr öllum fötunum,“ sagði Nonni.

„Já, og svo skulum við sparka í punginn á henni,“ sagði Gummi.

Mánudagur 21. febrúar 2011

Einn góður!

Flugvél hóf sig til lofts frá Akureyrarflugvelli. Þegar vélin var komin upp í rétta flughæð heyrðist í flugstjóranum:

„Ágætu farþegar. Þetta er flugstjórinn sem talar. Velkomin um borð, ég vona að ferðin til Reykjavíkur verði þægileg. Veðrið er gott og engin ókyrrð í lofti … Ó, NEI!“

Þögn.

Eftir smástund heyrðist aftur í flugstjóranum:

„Ágætu farþegar. Ég vona að ég hafi ekki hrætt ykkur hérna áðan. En á meðan ég var að tala hellti aðstoðarflugmaðurinn heitu kaffi í kjöltuna á mér. Þið ættuð að sjá buxurnar mínar að framan.“

„Það er ekkert,“ tautaði farþegi við sessunaut sinn. „Þú ættir að sjá mínar að aftan.“

Sunnudagur 20. febrúar 2011

Áhugaverð ævisaga Elfríðar

Ein af næstu jólabókum Bókaútgáfunnar Hóla verður ævisaga Elfríðar Idu Emmu Pálsdóttur sem fædd er í Þýskalandi árið 1930. Hún kynntist hörmungum stríðsáranna 1939 – 1945, en hún missti foreldra sína, þrjá bræður, skyldmenni og vini í stríðinu. Það var erfitt fyrir ungling að horfa upp á tvo bræður og móður deyja úr taugaveiki eða næringarskorti á aðeins fjórum dðgum. Loftárásir voru daglegt brauð og dauðinn var mjög nálægur. Ástandið á þessum tíma var afar bágborið, vöruskortur og lítið fæðuframboð. Í lok stríðsins var Elfríð illa farin af næringaskorti t.d. missti hún hárið og var lengi að jafna sig. Hún ákvað að fara til Íslands árið 1949 eftir að hafa séð auglýsingu, þar sem falast var eftir starfskröftum í landbúnaðarstörf. Eitthvað innra með henni hvatti hana til að söðla um og fara burt frá heimalandinu sem var í sárum eftir allar sprengjuárásirnar.  Hún sótti  um vinnu og var ráðin á sveitabæ til eins árs. Hún kynntist mannsefninu Erlendi Magnússyni á næsta bæ og ástin tók völdin – ekki varð aftur snúið heim.  Elfríð hefur verið ötul að pára niður endurminningar sínar og margir hafa hvatt hana til að gefa efnið út. Dóttir hennar, Helga Erla Erlendsdóttir, tók að sér að skrifa bók um lífshlaup hennar og Guðrún Ásgeirsdóttir, tengdadóttir Elfriðar, verður henni til aðstoðar við það.

Miðvikudagur 26. janúar 2011

Páll Gíslason látinn

Þann 1. janúar sl. lést Páll Gíslason læknir, skátaforingi og borgarfulltrúi, 86 ára að aldri.  Á síðasta ári gaf Bókaútgáfan Hólar út ævisögu hans, Læknir í blíðu og stríðu, skráða af Hávari Sigurjónssyni.  Bókin er í senn bæði skemmtileg og fræðandi og vilja Hólamenn þakka Páli fyrir samstarfið við vinnslu hennar og kynningu og senda jafnframt samúðarkveðjur til ættingja hans.

Miðvikudagur 5. janúar 2011

Krimmi

Bókaútgáfan Hólar íhugar nú útgáfu á sakamálaskáldsögu – íslenskri og frumsaminni.  Ef þú lumar á einni slíkri, a.m.k. 150 bls. miðaðar við A-4 stærð, þá sakar ekki að vekja athygli á því á netfanginu holar@holabok.is  Rétt er að taka það fram að ekki er verið að leita eftir smásögum, eða einhverju sem höfundurinn veit að þarf að vinna mun betur.

Fimmtudagur 30. desember 2010

Gleðileg Jól

Gleðileg jól

Bókaútgáfan Hólar þakkar frábærar viðtökur á útgáfubókunum 2010.  Margir titlanna eru á þrotum hjá útgáfunni s.s. Með létt skap og liðugan talanda – lífssaga Margrétar í Dalsmynni, Það reddast – ævisaga Sveins Sigurbjarnarsonar ævintýramanns á Eskifirði, Pétrísk-orðabók, eftir hinn eina og sanna sr. Pétur Þorsteinsson prest í Óháða söfnuðinum, Spurningabókin 2010 og Í ríki óttans – -örlagasaga Þorbjargar Jónsdóttur Schweizer.  Þá er sáralítið eftir af Feimnismálum Vilhjálms Hjálmarssonar, Bestu barnabröndurunum, Sjónhverfingum-ekki er allt sem sýnist, Undir breðans fjöllum – ljóð og lausavísur Þorsteins Jóhannssonar í Svínafelli, Galar hann enn – gamansögur af Norðfirðingum og nærsveitungum, og Læknir í blíðu og stríðu – ævisögu Páls Gíslasonar læknis, skátaforingja og stjórnmálamanns.  Ennfremur gengur hratt á hina stórkostlegu ljóðabók, Fjallaþytur, en hún inniheldur úrval úr kveðskap hins einstaka Hákonar Aðalsteinssonar og var hún þó prentuð í þokkalegu upplagi í byrjun og síðan endurprentuð!

Enn og aftur kærar þakkir fyrir viðtökur bókanna og gleðileg jól til allra nær og fjær!

Þriðjudagur 21. desember 2010
Eldra Nýrra

Bókaútgáfan Hólar

Hagasel 14, 109 Reykjavík
Sími: 587 2619
Fax: 587 1180
Netfang: holar (hja) holabok.is