Svenni látinn
Í dag er til moldar borinn gamall nágranni minn frá Eskifirði, Sveinn Sigurbjarnarson, rútubílstjóri, ferðafrömuður, ævintýramaður og ég veit ekki hvað og hvað. Hann var einstakur maður á margan hátt og því þótti mér mikill fengur í því þegar hann féllst á það að leyfa mér að gefa út ævisögu sína. Það tók samt nokkur samtöl, en bókin heitir ÞAÐ REDDAST, kom út árið 2010 og er skráð af Ingu Rósu Þórðardóttur, sem því miður kvaddi þennan heim nokkrum árum síðar eftir baráttu við sama vágest og Svenni þurfti að lúta í gras fyrir, bölvað krabbameinið.
Skemmst er frá því að segja að bókin rokseldist og þá ekki síst á Austurlandi þar sem Svenni var gríðarlega mikils metinn og ekki af ástæðulausu. Seinna sagði hann mér að einn af kunningjum hans hefði fengið átta eintök af henni í jólagjöf og annar þrjú eintök. Hinn síðarnefndi hefði lesið þau öll og fundist það síðasta best!
Ég sendi öllum ættingjum Sveins Sigurbjarnarsonar samúðarkveðjur um leið og ég þakka honum fyrir fjölmargar rútuferðir í kringum íþróttir og skóla – svo og ekki síst vegna bókarinnar sem mun vafalítið halda nafni hans lengi á lofti.
Guðjón Ingi Eiríksson
Laugardagur 10. apríl 2021