Um Hóla
BÓKAÚTGÁFAN HÓLAR var stofnuð í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar af Jóni Hjaltasyni, sagnfræðingi og rithöfundi á Akureyri. Fyrstu útgáfubækur hennar voru Nonni og Nonnahús og Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði, báðar eftir Jón.
Nokkru eftir útgáfu þessara bóka hófst samvinna þeirra Jóns og Guðjóns Inga Eiríkssonar, kennara, þáverandi knattspyrnuþjálfara og bóksölumanns, sem búsettur er í Reykjavík. Ráku þeir bókaútgáfuna saman fram á árið 2006, en þá keypti Guðjón hlut Jóns í henni og hefur rekið hana einn síðan – að vísu með aðstoð margra góðra aðila.
Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út á þriðja hundrað titla og kennir þar ýmissa grasa. Hún hefur þó einkum staðið fyrir útgáfu fræðirita, bæði frumsaminna og þýddra. Af þeim frumsömdu má nefna Sögu sjávarútvegs á Íslandi I-III, Sögu biskupsstólanna og Norðfjarðarsögu I og II. Þau þýddu innihalda meðal annars bækur breska sagnfræðingsins Antony Beevor, Fall Berlínar, Stalíngrad, Njósnari í Þýskalandi nasista og Orrustan um Spán.
Þá hefur bókaútgáfan verið öflug í útgáfu á sviði gamanrita og hafa til að mynda þrjár gamansögubækur af íslenskum prestum orðið feikilega vinsælar. Þær heita Þeim varð á í messunni, Þeim varð aldeilis á í messunni og Amen (eftir efninu). Íþróttabækur hafa ennfremur skipað stóran sess hjá Hólum, einkum um knattspyrnu og þar má nefna Rauðu djöflana (sögu Manchester United), Rauða herinn (sögu Liverpool), Sögu Chelsea, Stoke City í máli og myndum, Bestu knattspyrnulið Evrópu, Alltaf í boltanum og nú síðast Sá besti! – Cristiano Ronaldo. Annars hafa útgáfubækur Hóla spannað flest svið bókmennta og mun svo verða áfram.